25.01.1943
Neðri deild: 41. fundur, 61. löggjafarþing.
Sjá dálk 410 í C-deild Alþingistíðinda. (3220)

107. mál, sala á jarðeignum ríkisins

Flm. (Jón Pálmason):

Þau andmæli, sem hafa komið fram gegn þessu frv., hafa einkum byggzt á tvennu. Í fyrsta lagi á því, að það er stefna sumra manna hér innan þingsins eins og viðar að vinna að því, að ríkið eignist allar jarðir, og er það mál, sem ég skal ekki rekja nánar hér. Hin ástæðan til andmælanna byggist á því, að í frv. skuli vera heimild til þess að selja jarðirnar í frjálsri sölu að 10 árum liðnum. Okkur flm. virðist það hart, ef mönnum, sem voru neyddir til að selja ríkinu jarðir sínar við matsverði, skuli verða knúðir til þess að gera þær að ættaróðulum, ef þeir fá þær keyptar aftur, hvort sem þeim er það geðfellt eður eigi. Nú er ýmsum ógeðfellt að gera jarðir sínar að ættaróðali vegna þess, ef enginn í viðkomandi ætt vill taka við jörðinni, þá fellur hún til ríkisins með matsverði. Við teljum það óeðlilegt, að ríkið beri mikinn kostnað af jarðeignum, en í fjárl. eru nú veittar um 100 þús. kr. til jarðakaupasjóðs, auk þess sem hann fær öll afgjöld

af jarðeignum hins opinlera, — og er það ekki lítil upphæð, þótt jarðirnar séu almennt mun verr setnar en aðrar.

Þá skal ég víkja nokkrum orðum að ýmsu því, sem hefur komið fram í þessum umræðum, og vil ég þá fyrst snúa máli mínu til hv. 2. þm. N.--M. Hann viðurkenndi forustu sína við að vinna að því, að ríkið eignaðist allar jarðir í landinu. Hann játaði að hafa fyrst hreyft þessu máli á fundi í Borgarfirði árið 1912 og að hann hefði þá ekki haft nema einn mann með sér. Þetta mun vera rétt upplýst. Framsfl. var þá ekki til, og sósíalisminn var ekki farinn að grípa um sig í landinu, enda var þá sú stefna ríkjandi, að æskilegast væri, að bændur ættu sjálfir ábýlisjarðir sínar. Nú horfir þetta allmjög öðruvísi við. Framkoma þessa hv. þm. í þessu máli, þetta brautryðjendastarf, sem hann vill kalla, hefur miðað í þá átt að gera bændum mikinn óleik, svo að ekki sé of mikið sagt. Hann minntist og á eign og leigu á húsum. Almenna reglan er sú, að ríkið eigi bæði húsin og jörðina, en það er þó ekki algilt. Sumir ábúendur á jörðum ríkisins eiga sjálfir húsin, vegna þess að þeir hafa ekki getað fengið neitt fé frá ríkinu til þess að tryggja það, að húsin væru þannig úr garði gerð, að verandi væri í þeim. Ég tek t.d. einn bónda í mínu héraði, sem býr á jörð jarðakaupasjóðs. Það næstum hrundi ofan á hann hluti af bænum, en þó var ekki við það komandi, að hann fengi neitt framlag af hálfu ríkisins til þess að bæta húsin, og varð hann því að leggja fram um 2000 kr. frá sjálfum sér. Þetta er ágætt dæmi um það, hver kjör sumir ábúendur á jörðum ríkisins eiga við að búa.

Svo var það annað atriði hjá þessum hv. þm. varðandi fasteignamatið. Ég veik að því, að fasteignamatið hefði lækkað, og það er rétt. Hann vildi þó véfengja þetta og tók sem dæmi nokkrar jarðir, sem hann taldi, að fasteignamat hefði hækkað á, og þar á meðal mína eigin jörð. Það er rétt, að 1930 var hún metin á 9200 kr., en 1940 á 11200 kr. En þess ber að gæta, að á þessu tímabili hafa verið lagðar í umbætur á henni 6–7 þús. kr., svo að hér er raunverulega um lækkun að ræða, og sama máli gegnir um þær aðrar jarðir, sem hann tók sem dæmi. Ég er þó ekki að kvarta yfir því, þótt jörð mín, sem ég þarf að borga skatta og skyldur af, sé metin lægra en áður. heldur er miklu fremur ástæða til þess að vera þakklátur fyrir það.

Ég skal nú taka eitt dæmi til sönnunar því, hve langt hefur verið gengið í þessum lækkunum. Kunningi minn einn í Norður-Ísafjarðarsýslu byggði upp kot á árunum 1925–'30. Hann lagði í það stórfé, lét gera þar dýrar byggingar og aðrar framkvæmdir. Árið 1930 var þessi jörð metin á 30700 kr. Á árunum 1930-'40 jókst töðufengur úr 50 hestum í 350 hesta og uppskera úr görðum úr 5 tunnum í 100 tunnur. Árið 1940 var svo þessi sama jörð ekki metin á 30700 kr., heldur á 8900 kr. Þetta er eitt versta dæmið um það, hve langt hefur verið gengið í þessu efni. Ég kærði yfir þessu til formanns yfirfasteignamatsn., hv. þm. Mýr., og fékk matið hækkað upp í rúm. 20 þús. kr. Þetta var að vísu allmikil hækkun, eða hátt á annað hundrað%, en nær þó bersýnilega of skammt. Það ætti að vera öllum ljóst, hve mikil vitleysa er í þessu, en þeim, sem þekkja reglur þær og aðferðir, sem hv. 2. þm. N.-M. býr til, finnst þetta ekkert undarlegt.

Ég ætla svo ekki að fara meira út í þetta, an skal víkja að nokkrum atriðum hjá hv. 2. þm. Reykv. Hann gat þess, að sér þætti undarlegt, að við skyldum ekki heldur koma fram með frv. til að tryggja leiguliðum ríkisins betri aðstöðu. En það er nú okkar álit, að æskilegt sé, að leiguliðar ríkisins verði sem fæstir, og því bárum við fram þetta frv. En ef svo illa skyldi til takast, að þetta frv. yrði fellt, þá er gott að geta átt von á stuðningi frá honum og öðrum og notið samvinnu við þá um að tryggja það, að ríkið leggi meira fram við leiguliða sína en það hefur gert.

Þá var hann að telja eftir uppbætur á íslenzkum landbúnaðarvörum, einkum á gærum og ull. Ástæðan til þess, að hann gat um þetta, var sú, að ég minntist á það, að það væri frjáls sala á jörðum, sem væru í eigu einstaklinga. Hann hélt því fram, að það væri einnig frjáls sala á gærum og ull, og taldi því einkennilegt að borga uppbætur á þessar vörutegundir. En nú vill svo til, að gærur og ull eru ekki seldar á frjálsum markaði. Þessar vörur eru nú útilokaðar frá þein1 markaði, sem þær voru mest seldar á fyrir stríðið, þ.e.a.s. á Norðurlöndum og Þýzkalandi, og voru þær þá vel borgaðar, og það er áreiðanlegt, ef nú væri hægt að selja þær á þessum markaði, þá fengist fyrir þær mjög hátt verð. En nú verður að selja þær á öðrum og lakari markaði og þarf því að greiða á þær uppbætur, og tel ég réttmætt, að ríkissjóður taki sinn þátt í þessum afleiðingum styrjaldarinnar. Um hitt má aftur deila, að hve miklu leyti ríkissjóður eigi að borga það tjón og að hve miklu leyti það eigi að lenda á framleiðendum.

Ég hef svo ekki miklu fleira um þetta að segja að sinni, og ég býst ekki við, að menn græði á að halda þessum umr. mikið áfram, en ég vænti þess, að hv. þdm. láti þetta frv. fara til landbn., hvað sem þeir vilja síðar gera við það.