07.01.1943
Neðri deild: 27. fundur, 61. löggjafarþing.
Sjá dálk 8 í D-deild Alþingistíðinda. (3228)

87. mál, skógræktin

Frsm. (Jón Sigurðsson):

Herra forseti. — Till. sú, sem hér liggur fyrir, er flutt að tilhlutun skógræktarstjóra og Skógræktarfélags Íslands. Það er gerð allýtarleg grein fyrir till. í grg., svo að ég þarf ekki að fjölyrða um hana. Ég skal aðeins geta þess, að þetta er mjög merkilegt mál og því full ástæða til að hlynna að því með því að kenna mönnum að sá, planta og ala upp plöntur, svo að í lagi sé.

Land vort er skóglausara en flest önnur lönd, og vitað er, að skógur hefur mikið þorrið hér allt fram til þessa, til mikils tjóns fyrir land og þjóð. En þetta er spor í þá átt að bæta úr þessu og kenna mönnum undirstöðuatriði skógræktar og vekja um leið áhuga þeirra á málinu.

Vænti ég þess svo að lokum, að hv. þm. sýni málinu velvilja sinn með því að samþykkja þessa till. einróma.