18.01.1943
Neðri deild: 36. fundur, 61. löggjafarþing.
Sjá dálk 11 í D-deild Alþingistíðinda. (3247)

15. mál, hafnargerð í Bolungavík

Frsm. (Sigurður Bjarnason):

Herra forseti. — Sjútvn. hefur haft till. til þál. um fullnaðarundirbúning hafnargerðar í Bolungavík til athugunar og hefur leitað álits vitamálastjóra, fengið umsögn hans og orðið sammála um að leggja til, að till. verði samþ. með lítils háttar breyt.

Samkv. umsögn vitamálastjóra liggja fyrir nær allar nauðsynlegar mælingar, en eins og tekið er fram í fskj. með nál. á þskj. 189, er fyrst og fremst lögð áherzla á það, að hafnargerð í Bolungavík verði með tilliti til smáskipa, og vil ég lýsa yfir sem flm. till., að það, sem vakti fyrir mér, er alveg það sama og kemur fram í umsögn vitamálastjóra.

Um þetta mál þarf ekki að fjölyrða. Eins og ég tók fram, leggur n. til, að till. verði samþ. með lítils háttar breyt. í samræmi við umsögn vitamálastjóra.