16.01.1943
Efri deild: 33. fundur, 61. löggjafarþing.
Sjá dálk 136 í B-deild Alþingistíðinda. (325)

89. mál, innflutningur og gjaldeyrismeðferð

Fjmrh. (Björn Ólafsson):

Ég skal strax lýsa yfir því, í sambandi við ræður tveggja hv. síðustu þm., að afstaða ríkisstj. í þessu máli er óbreytt.

Út af brtt. á þskj. 213, í sambandi við nýbyggingarsjóð og vátryggingarfé, sem greitt er fyrir skip, skal ég segja fyrir mitt leyti, að ég tel ákaflega sanngjarnt, að settar séu skorður fyrir því, að þessi gjaldeyrir verði gerður að eyðslufé, ef svo mætti segja, sem annar gjaldeyrir, sem bankarnir hafa undir höndum. Þess vegna þætti mér eðlilegast, að bankarnir hefðu þau fyrirmæli í sambandi við þennan sjóð, fyrst og fremst, að hann væri í þeirra vörzlu og í öðru lagi, að fé þessu mætti ekki verja til annars en þess, sem það er ætlað til. Ég hef ekki hugsað mér að koma með neinar till. í þessa átt, en vildi láta álit mitt í ljós, að á hvaða hátt, sem trygging yrði sett, hvort sem það yrði með smávegis breytingu við þessi l. eða í sambandi við reglugerð, sem ég tel, að nái fullkomlega þessu takmarki, þannig að bönkunum verði gefin fyrirmæli um það, að nýbyggingasjóður; sem síðar verði borgaður í erlendri mynt og vátryggingarfé skipa, verði haldið á sérstökum reikningi og ekki litið á sem eyðslueyri, sem bankarnir geti haft til fullra umráða.