10.02.1943
Neðri deild: 54. fundur, 61. löggjafarþing.
Sjá dálk 415 í C-deild Alþingistíðinda. (3258)

122. mál, tímarit til rökræðna um landsmál

Flm. (Jón Pálmason):

Herra forseti. — Ástæðurnar, sem liggja til þess, að ég og hv. þm. Hafnf. (EmJ) höfum flutt þetta frv., eru í aðalatriðum fram teknar í grg., sem því fylgir. Það er, eins og menn vafalaust hafa veitt athygli, aðaltilgangurinn með þessu frv. að stofna til útgáfu tímarits, sem sent verði inn á hvert heimili í landinu og gefið út á kostnað ríkisins, þar sem allir stjórnmálaflokkar hafi aðgang til þess að skýra afstöðu sína í hinum helztu deilumálum, sem fyrir liggja. Við gerum ráð fyrir, að þar komi ekki til greina annað en þau höfuðdeilumál, sem um verður að ræða, svo sem afstaða til stjórnarmyndunar og helztu landsmála.

Í öðru lagi er það tilgangurinn, að það verði ekki svo ýkja mikill kostnaður, sem útgáfu þessa rits fylgir, vegna þess að það má gera ráð fyrir, að það náist upp í þann kostnað mjög miklar auglýsingatekjur.

Ég skal ekki á þessu stigi málsins fara mjög mikið frekar út í að ræða málið heldur en gert er í grg. frv. og hvaða kostir og hvaða annmarkar mundu fylgja þessari starfsemi. En aðalatriðið teljum við flm. vera það, að kostur við þetta mundi vera sá, að hver kjósandi mundi í einu lagi fá að sjá afstöðu hinna deilandi stjórnmálaflokka í allra helztu málum, sem ráða úrslitum í baráttunni, sem flokkarnir heyja um aðalmálin. Enn fremur er það víst, að með þessum hætti eru líkurnar sterkar fyrir því, að hægt væri að koma í veg fyrir, að hægt væri að halda fram blekkjandi ummælum um aðra flokka, eins og gert hefur verið á undanförnum árum í blaðadeilum í landinu.

Af því að þetta mál liggur svo ljóst fyrir, sé ég ekki ástæðu til þess á þessu stigi að fara um það fleiri orðum, en óska þess, að því verði vísað til 2. umr. og allshn.