05.04.1943
Neðri deild: 90. fundur, 61. löggjafarþing.
Sjá dálk 433 í C-deild Alþingistíðinda. (3272)

122. mál, tímarit til rökræðna um landsmál

Emil Jónsson:

Herra forseti. — Af því að ég hef gerzt meðflm. þessa frv., ætla ég að segja nokkur orð, einkum vegna aths., sem komu frá hv. þm. Borgf. og hv. 1. þm. Árn.

Það, sem vakti fyrir okkur flm. þessa frv., var það, að með þessu yrði nokkur bót ráðin á máli, sem ætla má, að sé þeirrar tilraunar verð, sem farið er fram á hér.

Hér er ætlazt til þess, að þeim, sem ráða málum þjóðarinnar, gefist kostur á að ræða málin frá fleiri hliðum en þeir nú eiga völ á. Sú aukna þekking, sem þeir þannig geta fengið, gerir þá að sjálfsögðu hæfari til þess að taka ákvarðanir, sem þeir eiga að taka, og þar með væri fengin betri undirstaða undir stjórnskipulag okkar heldur en nú er. Nú vildi hv. frsm. minni hl. að vísu snúa þessu alveg við á alla lund, og taldi hann, að útkoman af þessu gæti orðið þveröfug við það, sem ætlazt væri til, og er það illa farið, því að það hafði ekki verið okkar meining, að svo mundi fara. Hann taldi fram nokkur atriði, sem hann taldi, að mundu geta valdið því, að þetta gæti allt snúizt upp í villu, og nefndi sérstaklega til þrjú atriði. Í fyrsta lagi, að meiri hl. ritn. gæti verið hlutdrægur. Í öðru lagi, að flokkar, sem ekki ættu fulltrúa á þingi, gætu þarna ekki notið sín. Og í þriðja lagi, að ritháttur þeirra, sem í þetta rit mundu skrifa, mundi verða svipaður því, sem áður hefði verið, þó að til þessa rits væri stofnað. Hv. þm. Borgf. bætti svo við, að með þessu mundi verða aukið á það rifrildi, sem nóg væri af nú þegar um landsmálin, og þess vegna væri ekki vert ráð fara út í þetta. Þessi atriði eru að mínu viti ekki mjög veigamikil. Ég hafði gert mér það ljóst, þegar við fluttum frv., að sjálfsagt mætti eitthvað að því finna og ýmislegt í því mætti færa til betri vegar. En hjá þessum andmælendum málsins kom það ekki fram, að þeir vildu breyta frv., heldur töldu þeir möguleikann á því, að málið mundi í framkvæmdinni snúast í höndunum á þeim, sem við það ættu, svo mikla, að þeir vildu ekkert við málið eiga. Með sömu rökum mætti að sjálfsögðu vísa mörgum góðum málum frá. Það má segja það um mörg mál, að þau geti snúizt í höndunum á mönnum. og það beztu mál, sem þessir hv. þm. hafa barizt fyrir. Og svo að maður taki nærtækt mál, rafmagnsmálið, sem hv. 1. þm. Árn. hefur beitt sér fyrir nú undanfarið, þar sem hann og fleiri hafa talið nauðsyn á að koma rafmagninu sem víðast út um byggðir landsins, þá getur rafmagnið orðið hættulegt. Menn geta til dæmis drepið sig á því að snerta háspennulínu. En skyldi það nokkurn tíma verða talin nóg ástæða til þess að hindra útbreiðslu þessa handhæga orkugjafa, að af því geti orðið slys að misnota það? Ég held ekki. Það má halda svo illa á mörgum góðum málum, að þau fari á annan veg heldur en til er stofnað. En mér finnst það ekki nægilegt til þess að beita sér á móti málunum þess vegna. Þó að það sé möguleiki til þess, mér skilst aðallega fræðilegur möguleiki, að ritnefnd gæti beitt valdi sínu hlutdrægt, skilst mér, að til þess þyrfti alls ekki að koma. Ýmsar n. hafa starfað ágætlega í svipuðum málum og ekki farið út á þá braut, sem hér er getið til, að farið mundi út á í þessum efnum. Að ritháttur yrði svipaður á þessu tímariti eins og í blöðum, tel ég mjög ólíklegt, því að blöðin skáka mjög í því skjóli, að af lesendum þeirra séu málin í mörgum tilfellum ekki skoðuð nema frá einni hlið. Hv. frsm. minni hl. viðurkenndi, að blöðin hölluðu réttu máli. En þetta mundi breytast, ef í sama blaði kæmu rök frá öllum hliðum, en ekki einhliða. Þessi óviðeigandi ritháttur viðgengst í blöðunum nú fyrst og fremst af því, að ritstjórarnir treysta því, að þau séu ekki lesin nema frá einni hlið. Þess vegna held ég, að með þessu móti að gefa slíkt tímarit út, sem hér er gerð till. um, mættu nást endurbætur á þessu sviði einnig, af því að það er ekki hægt að leyfa sér að bera á borð a.m.k. opinber ósannindi, sem hægt er að hrekja á næstu blaðsíðu.

Þá kem ég að því atriði í þessu máli, sem af hv. frsm. minni hl. var talin einna veigamesta röksemdin gegn þessu máli. Hún var sú, að til þess að komast í þetta rit með ritgerðir til flutnings, þyrfti viðkomandi flokkur að eiga a.m.k. þrjá fulltrúa á Alþ. Þetta ákvæði getur náttúrulega orkað tvímælis. Mér er ekki alveg ljóst, hvar takmörkin ættu að vera í þessu efni, hvort þarna ætti að tiltaka, að flokkarnir þyrftu til þess að eiga einn fulltrúa á Alþ. eða þrjá til fjóra. Það getur alveg verið álitamál, hvar mörkin eiga í þessu efni að vera sett. Og mér dettur ekki í hug, að þetta, sem stungið er upp á í frv., sé eina mögulega lausnin á þessu. En það, sem fyrir okkur vakti með því að setja mörkin þarna, var, að með núverandi flokkaskipun á Alþ. mundu allir aðal-stjórnmálaflokkar þjóðarinnar ná því að fá rúm fyrir greinar í ritinu, til þess að geta skýrt málin frá sínum sjónarmiðum þar. Ef það sýndi sig, að nauðsyn væri á því að gera á þessu ákvæði breyt., þá mætti ræða það. En tala þessara fulltrúa sem skilyrði fyrir að koma greinum í tímaritið er ekkert aðalatriði fyrir okkur, og stendur e.t.v. til bóta. En það ber ekki svo sérlega mikið á því hjá okkur, að nýir flokkar komi fram, að við álitum, að það þyrfti í þessu efni að gera sérstakar ráðstafanir. Og frambjóðendur til alþingiskosninga eru fyrst og fremst frá þeim fjórum flokkum, sem nú eiga fulltrúa á Alþ. En ef hægt er að leiða rök að því, að eðlilegra væri að breyta þessu, dettur mér sízt í hug að vera á móti því að ræða till., sem um það kynni að koma fram.

Mér finnst þess vegna, að öll þessi atriði, sem hv. frsm. minni hl. allshn. nefndi, og enda hv. þm. Borgf. líka, séu frekar tilraunir til aðfinnslna heldur en að þau hafi beinlínis við rök að styðjast. Og það, sem hér hefur verið sagt til andmæla þessu frv., haggar ekki hugmynd minni um það, að það sé vert að gera þessa tilraun. En þessi tilraun hefur reyndar einu sinni verið gerð áður, að vísu á nokkuð annan hátt. Hún var gerð þannig, að eitt af elztu tímaritum okkar efndi fyrir 20 árum til rökræðna um landsmál á þann hátt, að það lét koma fram frá öllum aðalflokkum í stjórnmálum í landinu ritgerðir um stefnur flokkanna. Öllum aðalflokkunum var þar ætlað rúm til þess að skýra stefnu sína og lýsa henni frá sínum sjónarhóli. Og þetta gafst vel. Og ég veit ekki til þess, að neinir af þeim annmörkum, sem hv. frsm. minni hl. allshn. taldi geta orðið á þessu, hafi þar komið fram. Auk þess sagði ritstjóri þess tímarits, að þetta væri gert sem tilraun eftir erlendum fyrirmyndum, sem hann vissi beztar annars staðar, þannig að ekki líta allar þjóðir þannig á, að þetta fyrirkomulag sé óhægt. Stjórnmálaflokkarnir sendu þá sína beztu menn fram á ritvöllinn, sem skýrðu stefnu flokka sinna. Og ég veit ekki betur en að þessu hafi verið tekið með þökkum af þjóðinni. Þessar greinar voru ritaðar ofstækislaust og illindalaust og með rökum og festu, en ekki með ósannindum eða falsrökum. — það var langt frá. Og heyrði ég þá, sem ræddu um þessa tilraun þá, geta þess, að þessi tilraun hefði tekizt eftir atvikum mjög vel. Að vísu var þessu ekki haldið áfram, sem kann að vera heldur ekki von, vegna þess að þetta tímarit var einkaeign, sem miðaði efnisval sitt við það, hvað eigendum þess þótti bezt henta á hverjum tíma til útbreiðslu þess. Og það er kannske ekki sérstaklega vænlegt til þess að fólk vilji gerast kaupendur að riti, að pólitískar ritgerðir komi í því mjög oft.

Um kostnaðinn við útgáfu slíks rits sem þessa, er frv. er um, hefur ekki mikið verið rætt. Ég hef aflað mér nokkurra upplýsinga um það, hvað kostnaðurinn við þessa útgáfu mundi verða mikill. Og eftir þeim upplýsingum, sem ég hef fengið frá ríkisprentsmiðjunni Gutenberg, tel ég hann tiltölulega mjög lítinn, og ætla að sú hlið málsins þurfi ekki að verða málinu neitt til fyrirstöðu.

En ég hef nú svo verið að velta því fyrir mér, hvað eiginlega getur valdið því, að hv. frsm. minni hl. telur þetta mál svo vaxið, að það eigi ekki að samþykkjast og ekki að gera þessa tilraun. Og ég gat ekki fundið út úr ræðu hans nema eina ástæðu, sem ég býst við, að frá hans sjónarhól sé einhvers virði. Og það býst ég við, að sé þungamiðjan í ástæðum hans til þess að beita sér gegn því, að málið nái fram að ganga. En þessi ástæða er sú, að þetta mundi greiða götu öfgaflokkanna um landið. Ég býst við því, að hann óttist það, að þeir, sem nú hafa ekki aðstöðu til þess að koma málum sínum út til allra landsmanna og kynna þeim stefnu sína, muni þarna á of auðveldan hátt fá leyfi til að hnekkja því, sem ekki kynni að vera kannske alveg rétt frá skýrt í blöðum, sem fólkið út um landið nú les. Ég býst við, að þetta sé sú ástæða, sem sé kannske veigamesta ástæðan fyrir andstöðu hv. frsm. minni hl. allshn. gegn málinu. En ég held, að þessir flokkar séu ekki það hættulegir, að hag þjóðarinnar sé stefnt í voða, þótt þeir fái a.m.k. að skýra landsfólkinu frá því, hvað þeir vilja. Og ég gat ekki fundið, þrátt fyrir upplestur hv. frsm. minni hl. n., að kristilegum undirbúningi undir fermingu barna væri stefnt í neinn voða, þó að þessi tilraun væri gerð. Annars skildi ég satt að segja ekki, hvert hv. frsm. minni hl. stefndi í þeim kafla ræðu sinnar, og get ég ekki farið að ræða það mál við hann, þar sem mig brestur algerlega skilning á því, hvað hann meinti með því. En ég tel ekki, að þeim kristilega undirbúningi undir fermingu barna sé stefnt í hættu, þótt það sé gert, sem í frv. er farið fram á.

Mér finnst, af því, sem ég hef sagt, hér vera fyrst og fremst um tylliástæður að ræða hjá hv. frsm. minni hl. allshn. gegn þessu máli heldur en raunverulegar ástæður.

Út af ræðu hv. þm. Borgf. skal ég aðeins segja það, að það, sem hann taldi höfuðrök á móti málinu, að það mundi auka rifrildi í landinu, og væri nú nóg komið af því, þau rök finnast mér léttvæg. Málefnislegar umr. frá öllum hliðum teknar ættu að vera frekar til aukinnar þekkingar á málum heldur en að þær komi beint undir það, sem ég kalla rifrildi. Ég held því, að það þurfi ekki að valda neinum ótta hjá hv. þm., að rifrildið í landinu mundi aukast með útkomu slíks rits sem þessa.

Þá kom hv. þm. Borgf. að því, að ávarp ráðh. gæti verið nokkuð pólitískt. En ég vænti, að ráðh. og ríkisstjóri hafi stillt ávörpum sínum svo í hóf, að það þurfi ekki að verða þjóðinni til neins vansa.

Þá minntist sami hv. þm. einnig á auglýsingar o.fl., og taldi það lélega auglýsingaaðferð að auglýsa í þessu tímariti. En ég tel þetta hið bezta auglýsingablað, þar sem það á að fara inn á hvert heimili, svo að betri staður verður ekki fundinn fyrir auglýsingar. En ég geri ráð fyrir. að þessum fyrirtækjum ríkisins verði ekki bannað auglýsa annars staðar, ef þau vilja.

Ég vil endurtaka það, að mér finnst ekki, að í umr. hafi komið neitt fram, sem hnekki því, að vert sé að gera þessa tilraun, heldur þvert á móti.