16.12.1942
Sameinað þing: 9. fundur, 61. löggjafarþing.
Sjá dálk 12 í D-deild Alþingistíðinda. (3275)

27. mál, beitumál vélbátaútvegsins

Flm. (Lúðvík Jósefsson):

Herra forseti. — Ég flyt hér þáltill. á þskj. 38, og það gerist ekki þörf á að fara um hana mörgum orðum fram yfir grg., sem fylgir henni. Þetta er að vísu ekki margþætt mál né mikið, en það er þýðingarmikið fyrir vélbátaútveginn í landinu, eins og skýrt kemur fram í grg.

Í grg. fyrir till. til þál. um mþn. í sjávarútvegsmálum, sem fram hefur komið, er þess getið, að n. eigi að fjalla um beitumál m.a., en það, sem gerði það að verkum, að ég hef eigi að síður flutt till. á þskj. 38 um beitumálin sérstaklega, er það, að málið er svo aðkallandi, að það þolir enga bið.

Eins og hv. þm. mun vera kunnugt, hefur Fiskifélag Íslands og sjávarútvegsmenn æ ofan í æ farið þess á leit, að þessi mál yrðu tekin til úrlausnar. Og ég vil leyfa mér að benda á, að það er meira en að svo sé ástatt, að það er enginn ábyrgur aðili til gagnvart beitumálunum, heldur er einnig svo háttað, að sala á beitu er eftirlitslaus, enda sýnir það sig ljóslega, hver afleiðingin af því er, að beitan, sem seld er, er stundum óhæf til notkunar og óþarflega og óhæfilega mikið af klaka í beitunni.

Það, sem því þarf að gera, er að setja löggjöf um þessi mál, — löggjöf um mat á beitu og hve mikið megi vera í henni af klaka, — að ströngu eftirliti verði komið á, að ekki sé braskað með þessa vöru og að það verði tryggt, að nóg sé alltaf fyrir hendi af beitusíldinni fyrir vélbátaútveginn.

Fiskifélag Íslands hefur fúslega fallizt á að verða við því að semja frv. um þetta mál, og lít ég svo á, að það sé sá aðili, sem bezta hefur aðstöðuna til þess að leysa það verk vel af hendi.

Óska ég svo, að þessari umr. verði frestað, en málinu vísað til allshn.