28.01.1943
Sameinað þing: 16. fundur, 61. löggjafarþing.
Sjá dálk 14 í D-deild Alþingistíðinda. (3286)

27. mál, beitumál vélbátaútvegsins

Pétur Ottesen:

Ég álít, að það væri rétt að láta það koma fram af hálfu þeirrar n., sem hefur fjallað um málið, með hverjum hætti n. ætlast til, að það verði leyst, og að frá henni komi leiðbeiningar til ríkisstj. um það, á hvaða grundvelli l. verði samin. Það þarf að koma fram, hvort það sé ætlunin, að ríkið geri ráðstafanir til þess að athuga, hvort jafnan séu til nægar birgðir af beitusíld og hvort ríkið á að sjá um, að til verði jafnan næg geymsluhús fyrir þessa síld og skipakostur til þess að flytja hana milli hafna.

Ég hefði viljað fá það fram, hvort það er meiningin hjá hv. n., að séð verði um, að til verði svo eða svo mikil beitusíld árlega og húsrúm verði fyrir hendi til að geyma hana í og skipakostur til að flytja hana þangað, sem þörfin er, eða hvort hitt er meiningin að lögþvinga félög útgerðarmanna til þess að tryggja, að beitusíld verði fyrirliggjandi. Sömuleiðis væri æskilegt að fá að heyra, hver á að bera skakkaföll, sem kunna að verða á síldinni við geymslu, eða hvernig n. hugsar sér að koma í veg fyrir þau. Nú er það mjög misjafnt, hve mikil þörf er á beitu. Fer það bæði eftir gæftum og aflabrögðum, hversu lengi hún þarf að geymast. Þá væri æskilegt, að n. léti uppi, hvað hún hugsar sér í aðalatriðum og hvað hún ráðleggur í þessu efni.

Það er ákaflega mikilsvert atriði, að fisköflun þurfi ekki að draga vegna beituleysis, og er það síður en svo, að ég mæli gegn athugun á þessu máli. Það væri ákaflega æskilegt fyrir þá, sem taka við þessari þál., að fá að vita, hvað Alþ. ætlar um þessi efni.

Út af ummælum hv. 6. landsk., þar sem hann sagði, að ekki væri hægt að gera út nema helming báta hér við Faxaflóa, vil ég taka fram um Akranes, að það hafa ekki einungis verið gerðir út heimabátar þaðan, heldur og sköffuð beita aðkomubátum. Ég vildi láta þetta koma fram hér. Það er ekki hægt að deila á þá menn, sem standa fyrir útgerðinni.

Vil ég, um leið og ég viðurkenni, að þetta er mjög mikilsvert málefni, ítreka þá ósk, að n. láti í ljós, á hvern hátt hún hugsar sér, að málið verði leyst.