28.01.1943
Sameinað þing: 16. fundur, 61. löggjafarþing.
Sjá dálk 15 í D-deild Alþingistíðinda. (3290)

27. mál, beitumál vélbátaútvegsins

Gísli Jónsson:

Ég er þakklátur hv. þm. Borgf. fyrir að hafa hreyft þessu máli. Ég viðurkenni það, sem hv. 1. þm. Skagf. sagði, að málið hefði ekki verið rætt nægilega í n., þótt meira hafi það verið rætt en hann vildi vera láta. Ég er samþykkur hv. 1. þm. Skagf. um, að það er ekki verkefni allshn. að rannsaka þetta mál. Það hefur ekki verið þörf á síld árið um kring, en þörf er að rannsaka, hvernig hún verður bezt geymd og hver eigi að bera kostnaðinn við það. Það hafa komið fram raddir um, að ríkissjóður taki nokkurn þátt í honum. Það hefur verið rætt nokkuð við Landssamband útgerðarmanna. Ég held, að fyrsta sporið væri að leita eftir reynslu útgerðarmanna í þessu efni.

Ég vil benda á eitt mikilsvert atriði um það, hvernig hægt er að komast hjá því að kaupa klaka í stað beitu. Það eru nýlega komnar gúmmíumbúðir frá Ameríku. Þar eru þær þekktar og reynast ágætlega. Er hægt að geyma beitu árum saman í þeim, án þess að hún tapi sér. Þær eru einfaldar og þægilegar í notkun. Ég álít það væri hverfandi lítill kostnaður að kaupa þessar umbúðir, þegar litið er á það, að það er alvarleg áhætta að geyma beitu þannig, að líkur séu til, að hún verði orðin ónýt, þegar til hennar á að taka. Það væri athugandi, hvort ekki ætti að skylda ríkisfrystihús til að hafa beitu fyrirliggjandi. Allt er þetta til rannsóknar. Það kann margt að koma fram vegna fyrirspurnar hv. þm. Borgf. í þessu máli.