28.01.1943
Sameinað þing: 16. fundur, 61. löggjafarþing.
Sjá dálk 15 í D-deild Alþingistíðinda. (3291)

27. mál, beitumál vélbátaútvegsins

Pétur Ottesen:

Mér þykir undarlegt, hvernig hv. frsm. hefur skilið orð mín, og að honum skuli þykja það undarlegt, að ég leita eftir því, hvernig frv. er byggt upp.

Það þarf ekki að fara fram rannsókn á því, hvort félag útgerðarmanna taki þetta að sér eða ríkið. Það er aðeins stefnuatriði. Það er allt annað að koma með bendingar um framkvæmd máls eða koma því í fast horf, eftir að fengin er umgerð um það. Það, sem ég hef mælzt til, tel ég eðlilegan gang málsins, þótt honum hafi ekki verið fylgt. Málið hefur verið rætt í n., en það hefur ekki komið fram af hendi flm. Það er eðlilegt, að fram fari rannsókn í málinu, eins og þörf er á. Það hefur verið rætt um aðferðir til að geyma síld í hraðfrystihúsum, en svo kemur það til greina, að þau eru ekki alls staðar til, þar sem síld er seld. Þá þarf að setja skorður við því, að klaki sé seldur í stað síldar.

Nú getur verið til bóta að setja hámarksverð á síld. Það kemur ekki fram í frv., að það sé ætlunin, en ætlast má til, að bót verði ráðin á því, sem miður fer, þegar löggjöf verður sett um þetta efni.

Ég ætla ekki að fara út í stælur, en mér finnst einkennilegt, að það skuli vera hártogað fyrir mér, sem ég álít eðlilegar fyrirspurnir.