28.01.1943
Sameinað þing: 16. fundur, 61. löggjafarþing.
Sjá dálk 16 í D-deild Alþingistíðinda. (3292)

27. mál, beitumál vélbátaútvegsins

Lúðvík Jósefsson:

Í því, sem hv. þm. Borgf. sagði, er sérstaklega eitt atriði, sem ég vil mótmæla, og það er það, að ég hafi sagt, að engin skip við Faxaflóa geti stundað veiðar vegna beituskorts. Ég sagði, að sum skip þar hefði skort beitu. Ég vil benda hv. þm. Borgf. á, að það stóð nýlega tvívegis í Morgunblaðinu, að helmingur bátanna sums staðar við Faxaflóa stundaði dragnótaveiði eða reri ekki vegna beituleysis.

Rætt hefur verið um það, á hvaða grundvelli ætti að byggja þessa löggjöf. Tillögur hafa komið frá Fiskifélagi Íslands og verið lent á fleiri en eina leið til að leysa málið. Það er eðlilegt; að hv. þm. Borgf. og aðrir vilji ræða málið og gera till. um, hvaða leið sé æskilegust Það er ekki vist, að það sé rétta leiðin, að ríkissjóður taki framkvæmd málsins að sér. Æskileg væri vinsamleg samvinna við stjórn Síldarverksmiðja ríkisins um að kaupa af þeim að sumrinu síld, þegar mest berst að, og leggja hana í geymslu. Mundi hún fást fyrir sanngjarnt verð með því móti. Ætti hvort tveggja að vera undir sömu stjórn. Selja mætti beitusíld svo dýrt, að skakkaföll, sem kynnu að verða, bættust upp á þann hátt.

Ég er viss um, að það væri mikil bót að því frá því, sem nú er, ef hægt yrði að skipuleggja þetta. Sjómenn mundu ekki setja það fyrir sig, þótt þeir yrðu að leggja á sig einhverjar byrðar. Verið gæti nauðsynlegt, að ríkið tæki á sig skakkaföll í sambandi við þetta mál.

Vil ég svo leggja til, að þessi till. verði samþ.