08.01.1943
Sameinað þing: 14. fundur, 61. löggjafarþing.
Sjá dálk 17 í D-deild Alþingistíðinda. (3304)

77. mál, efni til símalagninga og talstöðva

Flm. (Sigurður Bjarnason):

Herra forseti. — Þessi þáltill., sem ég flyt hér ásamt hv. 2. þm. Rang. (lngJ) og hv. þm. Snæf. (GTh), fjallar um það, að reynt verði eftir fremsta megni að greiða fyrir innflutningi efnis til bygginga símalína og einnig talstöðva í vélbátaflota landsmanna og enn fremur efnis í talstöðvar til notkunar á afskekktum stöðum.

Eins og hv. alþm. er kunnugt um, eru nú mjög miklir örðugleikar á því og hafa verið síðan stríðið hófst að ná inn efni til símalagninga. Það má að vísu segja, að á meðan það ástand ríkir, sem nú er í landinu, þá sé naumast ástæða til að fara fram á miklar nýbyggingar í símalagningum á landinu. En það er engu að síður vitað mál, að fjölmargar símalinur, sem bráðnauðsynlegt er, að lagðar verði, bíða nú eftir efni til þessara framkvæmda. Og hitt má einnig benda á, að um talstöðvarnar er það að segja, að það er enn þá brýnni nauðsyn, að innflutningur til þess að koma þeim upp, stöðvist ekki, vegna þess að þær eru öryggistæki fyrir vélbátaflota landsmanna. Og sjómenn, sem nú eignast nýja báta, geta alls ekki án þessa öryggistækis verið. Og vegna þess að efni til símalagninga fæst ekki innflutt, en margir staðir, sem þurfa að fá síma, bíða eftir því vegna skorts á efni, er það enn þá nauðsynlegra, að efni til talstöðva fáist innflutt, því að talstöðvar gætu bætt að nokkru leyti upp vöntun símans á afskekktum stöðum. Og þó að litið sé frá þeirri þörf, sem er á nýbyggingu símalína, þá er samt mjög brýn þörf á því, að hafizt verði handa um sem allra viðtækastar ráðstafanir til þess að ná inn efni til viðhalds á þeim símalínum, sem til eru í landinu. Símalínurnar greinast nú út um allar byggðir landsins, og þarf nauðsynlega að halda þeim við. Í þessari þáltill. okkar er bent á þetta og skorað á ríkisstj. að hlutast til um, að allt verði gert, sem unnt er, til þess að fá flutt til landsins efni til þessara framkvæmda.

Um þáltill. hefur verið ákveðin ein umr. Vænti ég, að ekki þurfi að fresta umr. til þess að vísa till. til n., annars legg ég það á vald hæstv. forseta, hvort till. verður vísað til n. og umr. frestað. En fari till. til n., fer hún að líkindum til allshn.