18.12.1942
Neðri deild: 21. fundur, 61. löggjafarþing.
Sjá dálk 19 í D-deild Alþingistíðinda. (3312)

68. mál, vegagerð og símalagning

Jakob Möller:

Það er í sjálfu sér ekkert nema gott að segja um framkomu þessarar þáltill. Hins vegar eru slík mál sem þessi að sjálfsögðu til athugunar hjá forsjórum þeirra framkvæmda, sem hér um ræðir. Eins og getið er í grg. þáltill., hafa þeir að sjálfsögðu nokkuð vakandi auga á þeim breyt., sem gerðar eru annars staðar í þessum efnum. Það hafa gefizt sérstök tækifæri í þessu sambandi nú í sambandi við setuliðin, sem hér hafa verið. Og ríkisstj. hefur tekið vel þeim málaleitunum, sem komið hafa fram frá forstjórum þeirra ríkisframkvæmda, sem hér er um að ræða. Skal ég í því sambandi benda á, að í því fjárlagafrv., sem nú hefur verið lagt fyrir Alþ., er ætluð til áhaldakaupa alveg óvenjuleg upphæð, sem einmitt stendur í sambandi við það, að vegamálastjóri hafði vakið athygli ríkisstj. á því, að það væri tímabært að afla slíkra tækja til vegagerða, og þótti sjálfsagt að fara að ráðum hans um, að veitt yrði fé til slíks.

Þá skal ég líka vekja athygli á því, að verkfærakauparáðunaut ríkisins hefur verið falin útvegun verkfæra til jarðyrkjuvinnu, svo sem á skurðgröfum o.fl. Og má gera ráð fyrir, að hver ríkisstj., sem er, greiði fyrir viðleitni þeirra manna, sem í þjónustu ríkisins beita sér fyrir einhverri nýjung í bessum efnum.

En það er ekkert nema gott um það að segja, að þingið láti vilja sinn í ljós um þessi efni, og ég er þess vegna ekki að andmæla þessari þáltill. eða draga úr því, að hún verði samþ.