08.01.1943
Sameinað þing: 14. fundur, 61. löggjafarþing.
Sjá dálk 22 í D-deild Alþingistíðinda. (3345)

46. mál, flugmál Íslendinga

Jörundur Brynjólfsson:

Það eru aðeins nokkur orð um þingsköp. Mér sýnist sem hæstv. forseti eigi í nokkrum erfiðleikum með að koma þessu máli áfram, því að Alþ. mun nú ekki vera ályktunarfært. Ég sting því upp á því, að umr. verði frestað um málið og því vísað ásamt brtt., sem getið hefur verið, síðar til n., því að það mun ekki vera ætlunin að láta málið ganga áfram nefndarlaust. Skilst mér þá, að það komi í sama stað niður, þó að brtt. verði ekki rædd hér nú. Gera má líka ráð fyrir, að þm. leiki hugur á að gera brtt. bæði við þáltill. sjálfa og einnig brtt., sem fram er komin við hana. Mætti þá svo vera, að n. sú, sem málið fær til meðferðar, gæti gert málið svo úr garði, að ekki þyrfti frekari breyt. á því að gera en eftir till. n., og ætla ég því ekki, að þessi tilhögun mundi verða málinu til tafar. Ég óska, að hv. flm. geti á þetta fallizt, en mér skilst, að það gæti verið nokkuð hæpið, að fengizt geti ný afbrigði fyrir brtt., eða a.m.k. virðist, að það geti dregizt.