05.01.1943
Efri deild: 24. fundur, 61. löggjafarþing.
Sjá dálk 453 í C-deild Alþingistíðinda. (3348)

64. mál, Vesturheimsblöðin Heimskringla og Lögberg

Kristinn Andrésson:

Herra forseti. — Það þarf vissulega áræði til þess að láta sér detta í hug slíka hugkvæmni sem þessa, er kemur fram í frv., sem nú er til umr. Það er hvorki meira né minna en farið fram á það að skuldbinda stofnanir og einstaklinga til þess að kaupa annaðhvort Vesturheimsblaðanna, Heimskringlu eða Lögberg, og svo á að innheimta áskriftargjaldið með tekju- og eignarskatti. Hér er verið að skapa mjög varhugavert fordæmi, eins og allir sjá, sem ómögulegt yrði að sjá fyrir endann á, ef að l. yrði. Mundi þetta t.d. eflaust koma sér vel fyrir dagblöðin hér heima. Þetta er sem sagt mjög varhugavert fordæmi.

Annars efast ég um, að það komi nægilega skýrt fram, hver er hugsun flm. með þessu frv., og hvað það er, sem fyrir honum vakir, er hann þannig vill taka blöðin á arma sína. En það er vitað mál, að þessi blöð eru eflaust þau einu, sem flytja stöðugt lofgreinar um hann. Mun ég því síðar bera fram brtt. við þetta frv., þannig, að aftan við 1. gr. komi: enda skuldbindi þau sig til að flytja að staðaldri lofgreinar um núverandi formann menntamálaráðs. Með leyfi hæstv. forseta mun þá 1. gr. hljóða þannig: Meðan 1. þessi eru í gildi. skulu allir skólar, sem ríkið starfrækir eða styrkir, allar skrifstofur ríkis- og bæjarfélaga, öll samvinnufélög, allir kaupmenn og skrásett hlutafélög kaupa annaðhvort íslenzku blaðanna, sem gefin eru út í Winnipeg, Heimskringlu eða Lögberg, enda skuldbindi þau sig til að flytja að staðaldri lofgreinar um núverandi formann menntamálaráðs (JJ).

En til þess að forðast allan misskilning, tel ég, að við Íslendingar hér heima eigum að vinna eins og við getum að því að útbreiða þessi blöð, en það ætti að vera auðvelt að finna heppilegri leið til þess en að skuldbinda stofnanir, einstaklinga og kaupmenn til þess að kaupa blöðin.