05.01.1943
Efri deild: 24. fundur, 61. löggjafarþing.
Sjá dálk 454 í C-deild Alþingistíðinda. (3350)

64. mál, Vesturheimsblöðin Heimskringla og Lögberg

Gísli Jónsson:

Við skýringar hv. flm. hefur ekki breytzt hugur minn í máli þessu, að ég get ekki fylgt frv. óbreyttu, því að mér finnst það hrein fjarstæða að fara inn á þá braut að lögbjóða, hvað menn skuli lesa. Að mínu viti erum við þá komnir allt of nálægt þeirri stefnu, sem við hvorugur vildum, að réði hér í þjóðfélagi voru. Af þessari ástæðu einni er ég á móti því, að farin sé þessi leið til þess að útbreiða blöðin hér á landi og styrkja þau. Svo þekkjum við það líka, að það er ekki full trygging fyrir því, að blöðin verði lesin, þó að þau verði send út um landið. Við þekkjum mörg dæmi þess hér, hvernig farið er að því að senda blöð út til fólksins, sem svo eru meira og minna ólesin, eins og t.d. Tíminn.

Mér finnst það því alger óhæfa að ætla að fara að fyrirskipa með l., hvað menn skuli lesa, og byrja þetta nýja ár með því. Þess vegna tel ég þá leið miklu réttari, eins og ég gat um áðan, að veittur verði styrkur frá hinu opinbera til þessara blaða.