19.12.1942
Efri deild: 20. fundur, 61. löggjafarþing.
Sjá dálk 456 í C-deild Alþingistíðinda. (3360)

69. mál, jarðræktarlög

Flm. (Brynjólfur Bjarnason):

Það er í fjórða skipti, sem þetta mál er flutt hér í hv. d. Það hefur áður verið rætt hér allýtarlega og eins fylgt því ýtarleg grg., svo að hér er ekki þörf á mörgum orðum, enda skal ég vera stuttorður.

Það, sem hér er aðallinn málsins, er það, að breytt er með öllu um fyrirkomulag á veitingu jarðræktarstyrkja. Þeir hafa áður miðazt við fjárupphæð, en skulu eftir þessu frv. miðast við ásigkomulag býlisins, miðast við, í hvaða horf það er komið.

Þannig eru engir styrkir veittir til býlis með 10 hektara véltæku túni og áhöfn í samræmi við það. Hins vegar er veittur tvöfaldur styrkur til býla, sem hafa innan við 8 hektara tún. (BBen: Þetta er á móti stefnu Halldórs Kiljans Laxness). Það er nú nógu gaman að þessari framítöku, og skal ég koma að því síðar.

Það á ekki að veita stórbændum styrk, sem ekki þurfa hans með. Það er fráleitt að veita ríkisstyrk til kapítalisks rekstrar, heldur á að veita hann, svo að hægt sé fyrst og fremst að búa á býlunum. hað á að útrýma kotabúskapnum. Hver mundi segja, að þetta væri á móti stefnu Halldórs Kiljans Laxness?

M.ö.o. er tilgangur frv. sá að útrýma kotabúskap úr landinu. Þetta er vissulega ekki í neinni andstöðu við grein Laxness, þó að það séu fremur aðrar hliðar landbúnaðarins, sem hann ræðir þar. Hitt er svo annað mál, að þetta er ekki nema einn þáttur þeirrar breyt., sem ég álít þurfi að gera á jarðræktarl. um endurskoðun, og raunar á landbúnaðarlöggjöfinni í heild sinni. Öll landbúnaðarlöggjöfin þarf að endurskoðast, til þess að sá styrkur, sem veittur er úr ríkissjóði til jarðræktar og annars, miði að því að beina landbúnaðarframleiðslunni í þá átt, sem talið er hagkvæmast fyrir þennan atvinnurekstur, að undangenginni nákvæmri rannsókn. Þá er annað atriði, að miða styrkinn við það, hvar hagkvæmast er að rækta landið. Þetta er ekki heldur í mótsögn við stefnu Sósfl., að færa byggðina úr strjálbýlinu í þéttbýlið. Og m.a. miðar þetta fyrirkomulag að því, að jörðunum verði skipt, þar sem hagkvæmast er að rækta, til þess að þar verði ræktun aukin og ný býli stofnuð, í stað þess að nýbýli rísi upp einhvers staðar og einhvers staðar einstök og sér.

Eins og ég sagði áðan, hefur þetta frv. verið flutt margsinnis hér í þessari hv. d. Þeir, sem tekið hafa til máls, m.a. þeir, sem telja sig fulltrúa landbúnaðarins, t.d. hv. 1. þm. N.-M., hafa lýst sig með öllu samþykka þessari stefnu. Það, sem sá hv. þm. hafði út á þetta að setja, er það, að ekki hafi verið mæld upp véltæk tún í landinu, og þess vegna væri ekki fyrir hendi sá grundvöllur, sem þyrfti, til þess að hægt væri að framkvæma þessa breyt. Ég get nú ekki séð að þetta sé nein mótbára. Vitaskuld þurfa þessar mælingar að fara fram. Og að því þarf Alþ. að vinna með löggjöf. Hins vegar sé ég ekki, að það sé meiri vandi að mæla gamlar sléttur en nýjar. En nýjar sléttur þurfa trúnaðarmenn Búnaðarfél. að mæla hvort sem er. — Ég vil svo leggja til, að þessu frv. verði vísað til 2. umr. og landbn.