19.12.1942
Efri deild: 20. fundur, 61. löggjafarþing.
Sjá dálk 458 í C-deild Alþingistíðinda. (3364)

69. mál, jarðræktarlög

Hermann Jónasson:

Ég er ekki reiðubúinn á þessu stigi málsins til þess að segja afdráttarlaust, hvernig á að koma þessum málum fyrir. Ég álít það sé atriði, sem þurfi verulegrar yfirvegunar. Það hafa nú á undanförnum þingum, jafnvel síðasta vetrarþingi, verið stigin spor til þess að hækka styrkinn hjá þeim, sem minnst túnin hafa. Og ég er í engum vafa, að það er rétt spor. Styrkurinn er að mínu áliti fyrst og fremst veittur til þess, að bændur geti haft sæmilega lífsafkomu á þeim jörðum, sem þeir nytja. Og alveg samhliða þeim tilgangi er annað sjónarmið og er jafnríkt, en það er, að þeir geti framleitt vörur með sanngjörnu verði. Þessi tvö sjónarmið hlýtur þjóðfélagið að hafa til hliðsjónar, þegar það veitir jarðræktarstyrkinn. Og við vitum, að átta hektarar er lágmark af ræktuðu túni. Vinnukrafturinn er yfirleitt það dýr, sumpart af eðlilegum ástæðum, sumpart af óeðlilegum, að það er ekki hægt að búa á jörðunum og framleiða vörur með sanngjörnu verði og hafa af því sæmilega og viðunanlega lífsafkomu, nema bóndinn hafi ekki minna en átta hektara ræktaða. Að öðrum kosti verður annað hvort þetta sjónarmið fyrir borð borið. Og vitanlega er sú hugsun, sem kemur fram í frv., alveg rétt, að það er óhætt fyrir okkur að setja þessa lágmarkskröfu nú þegar. Við sjáum það víðs vegar um landið, þar sem bóndi býr á jörð með litlu ræktuðu landi, en reytingsheyskap á útengi, sem stundum er þýft og blautt, þá hefur framleiðslan ekki dugað til að tryggja sér sæmilega afkomu með því að selja afurðir fyrir sanngjarnt verð. En svo koma inn í þetta mörg önnur atriði. Eitt meðal annarra, sem maður hlýtur að taka til athugunar nú þegar, er það, hvort ekki sé kominn tími til, að þjóðfélagið hagi þessum hlutum með allt öðrum hætti. Það er orðin svo mikil fólksfæð í sveitunum, að sú ræktun, sem gert var ráð fyrir, þegar ræktunarl. voru sett, er ekki til lengur, og alls ekki á þessum minnstu býlum. Á þessum býlum, sem helzt er gert ráð fyrir, að þurfi sérstklega að létta undir með, er venjulega svo fátt fólk, að heimafólkið hefur ekki aflögu vinnukraft til þess að sinna þeim miklu aukastörfum, sem sú ræktun krefst, sem þarf að gerast á heldur stuttum tíma. Og þar eru ekki heldur miklir möguleikar á að afla sér þeirra tækja, sem nauðsynleg eru, til þess að ræktunin fari nægilega vel úr hendi. Þess vegna er keyptur til þess vinnukraftur, sem hefur áhöld og aðferðir í samræmi við nýtízku ræktun. Þess vegna held ég, að það sé athugandi mál, hvort eigi ekki að byrja á því nú að haga þessum styrkjum á þann hátt, að ríkið hafi sína vinnuflokka, æfða jarðræktarmenn með beztu jarðræktartækjum, til þess að fara um og vinna þetta verk. Þetta er ekkert nýtt. Við þekkjum allir, sem erum uppaldir norðanlands, og ekki síður vestanlands, afköst. þeirra, sem voru útskrifaðir úr Ólafsdal, hvað það var ólíkt því, sem áður þekktist við ræktun. Og ég tel engan vafa, ef þaulæfðir menn vinna þessa ræktunarvinnu með beztu tækjum, og ríkið síðan veitir styrk á þá vinnu, þá sé hægt að vinna meira og fljótvirkara gagn eins og nú er komið heldur en með núverandi aðferð. Vinnuvélar eru það fullkomnar, að það skiptir miklu máli, að þær séu fullnotaðar. Þetta er atriði, sem ég vildi koma fram á þessu stigi málsins, og áreiðanlega atriði, sem hlýtur að koma mjög til athugunar á næstunni.

Enn fremur er ekki úr vegi að minnast á það hér, að langmesti auðurinn, sem við eigum, er í mýrunum, sem nú eru svo lítið notaðar, að þær hafa nú litlu meiri þýðingu fyrir landbúnaðinn en sandar og auðnir. Mönnum, sem ekki eru kunnugir búskap, mun þykja þessi fullyrðing ákaflega einkennileg. En hún er sannleikur og staðreyndunum samkvæm. Þær eru ekki notaðar til beitar nema örstuttan tíma ársins, sérstaklega á vorin fyrir sauðfé, en á öðrum tímum árs líta skepnur yfirleitt ekki við þeim gróðri, ef þær eiga völ á nokkru öðru. En í mýrunum er mesti auðurinn, sem við eigum, og við erum byrjaðir að nota nýtízku vélakraft við framræslu mýranna. Það verður að taka til athugunar, að það hefur sýnt sig undanfarin ár, að framræsla á mjög blautu landi er raunverulega alveg ókleift verk fyrir bændur með handaflinu. Það er svo dýrt. Þess vegna hefur verið stigið það spor — sem ég álít, að hefði þurft að stíga miklu stærra — að keyptar hafa verið inn framræsluvélar, pantaðar s.l. sumar. Þær munu skipta tugum áður en langt líður. Þær vinna margra manna verk. Þær munu vinna í sambandi við Búnaðarfélagið. Og þá mun sannast, að það munu koma önnur hliðstæð vinnubrögð á eftir af hálfu hins opinbera. Einmitt. í sambandi þið nýbýlið er þetta sjálfsagt mál. Það hefur verið talað um, að margir nýbýlingar hafi orðið að vinna utan við býlin. Þó að það hafi nú tekizt betur en talað var um, þá hefur reynslan verið sú um allmarga, að þeir hafa ekki haft fjármagn til að rækta nýbýlin þannig, að þeir gætu lifað af því einu að framleiða þar vörur með því verði, sem var á markaði. Næsta skrefið í þessu máli er því bersýnilega að mínu áliti, að ríkið rækti að fullu eða næstum því að fullu — það ræktanlega land, sem ætlazt er til, að býlin hafi, og byggi húsin að fullu. Og það mun sýna sig, að þetta verður ódýrara en að veita styrk, og verkin verða betur unnin. Ekkert er til fyrirstöðu, að þeir, sem taka við býlunum, gætu unnið með í þessu, og yrðu þá ræktunar- og byggingarstörfin þeim hæfilegur skóli.

Ég ætlaði ekki að fara miklu lengra inn á þetta mál. En það er náttúrlega mjög rannsóknarvert atriði, hvort jarðir eiga að vera stórar eða ekki, hvort framleiðslan verði ódýrari með þeim hætti. Ég hef ekki trú á, að framleiðsla landbúnaðar verði hentugri eða ódýrari með því að hafa jarðir mjög stórar. Ég hygg það muni sýna sig, að á meðalstórum Jörðum fáist í raun og veru beztu afköst við landbúnaðarvinnu, sem yfirleitt fást, þó sérstaklega með því móti, að jarðirnar verði í hverfum, þar sem hægt er að hafa full not með samvinnu af þeirri allra beztu tækni, sem völ er á. Við höfum reynslu fyrir því, að fólkið er einna ánægðast með það fyrirkomulag að mörgu leyti. Við sjáum t.d. jarðveg fyrir þessa samvinnu þar, sem hverfi eru vel til fallin, svo sem í Þykkvabænum og í Fljótshlíðinni, þó að búrekstur þar sé yfirleitt ekki kominn í það horf, sem er í Óslandshlíð. En það er alls staðar svo í slíkum hverfum, að ef menn vita, að jörð losnar úr ábúð, þá er beðið um hana með löngum fyrirvara.

Eitt atriði enn vil ég aðeins drepa á í sambandi við stofnun nýbýla, en það er, hvers konar framleiðsla sé hentugust á hverjum stað. Það þarf að rannsaka og taka tillit til. Það sér hver heilvita maður, að það er ekkert vit að hafa t.d. sauðfjárrækt í Rangárvallasýslu. Og þá vita allir um Suðurnesin. Að ég nú ekki tali um að hafa tvö þúsund fjár í Reykjavík til þess að borga meðlag með, þegar kjötið er flutt út úr landinu. En aftur á móti eru skilyrðin sums staðar þar, sem sáralítið er framleitt af mjólk, einhver þau beztu, sem til eru í landinu. Þetta er og atriði, sem þarf að taka til athugunar, þannig að mál þetta er miklu stærra en það verði rætt nú, eins og störfum þingsirs er háttað, að menn eru Sérstaklega önnum kafnir að ljúka öðrum málum, áður en þingfundum verður frestað. En landbúnaðarmálin eru sízt undantekning frá þeirri öru þróun, sem er að gerast í okkar þjóðfélagi, að við verðum að taka þau til nýrrar og gagngerðrar athugunar. Það er að mínu áliti stigið alveg rétt spor með jarðræktarstyrknum. Það er stundum rætt um , að árangurinn sé ekki mikill. Þeir, sem segja það, fylgjast ekki með því, hvernig ástatt var áður og hvað hefur gerzt síðan. Þennan tíma hafa túnin tvöfaldazt í landinu, og með þriðjungi færra fólki nú er framleitt verulega meira en áður. Þannig hafa framleiðsluafköstin aukizt frá einum þriðja upp í helming. En vegna þeirra breytinga, sem eru að verða í okkar þjóðfélagi, meðal annars flutnings fólks úr sveitum til kaupstaða, þarf að koma nýtt sjónarmið og vinnuaðferðir. Og á þetta hef ég verið að drepa nú, en þó ekki nema lauslega, af því að ég álít ekki tíma til annars á þessu stigi.