28.01.1943
Sameinað þing: 16. fundur, 61. löggjafarþing.
Sjá dálk 24 í D-deild Alþingistíðinda. (3365)

46. mál, flugmál Íslendinga

Gísli Guðmundsson:

Hæstv. forseti beindi því til okkar flm. brtt. á þskj. 166, að heppilegra væri, að brtt. væri skýrð, áður en hún færi til hv. allshn. Hv. þm. N.-Ísf. hefur nú rætt þessa till. okkar allýtarlega, enda geri ég ekki ráð fyrir, að það þurfi að skýra efni hennar fyrir hv. nm., því að þeim mun vera fullljóst, hvað hún felur í sér. Samt vil ég segja örfá orð henni til skýringar.

Svo er að orði komizt í till. þessari til þál., að undirbúningur sá að koma upp ákveðnu kerfi lendingarstaða fyrir landflugvélar og flugskýla og dráttarbrauta fyrir sjóflugvélar, sé framkvæmdur með bað fyrir augum, að ríkissjóður veiti flugfélaginu og flugmálunum í heild öflugan styrk. Mér finnst þetta alveg óþarft í till., því að ríkissjóður mun veita styrk til þessara athugana án atbeina Alþ.

Okkur flm. brtt. á þskj. 166 þótti rétt að láta koma fram sjónarmið okkar, sem fer í þá átt, að flugfélagið sé í sem nánustum tengslum við ríkisvaldið. Það hefur mikið verið um það rætt hér, að slíks gerðist eigi þörf, og í því sambandi vitnað í rekstur Eimskipafélags Íslands og sagt, að það félag hafi ávallt verið rekið án íhlutunar ríkisvaldsins. Það er rétt, að eimskipafélagið hefur að mestu starfað án íhlutunar ríkisvaldsins, en það hefur ekki komið að sök, því að reksturinn hefur gengið vel, en þótt svo hafi verið hingað til, þá er ekki þar með sagt, að hann gangi alltaf slysalaust. Ég tel, að ríkisvaldið ætti að fá meiri íhlutun í stjórn stærri félaga en verið hefur hingað til. Ég spái því, að sú reynd muni verða með hin stærri félög, að betra sé að fara meðalveginn: að þau séu hvorki ríkis- né einkafyrirtæki, heldur beggja blands, þannig að einstaklingarnir geti til fulls notið sín í nánu samstarfi við ríkisvaldið. Hér er um að ræða mikið mál, þar sem eru flugmál, og þótt það sé ekki enn langt á leið komið hér á landi, þá munu flugsamgöngur eigi síður en samgöngur á sjó eiga mikla framtíð fyrir sér.

Ég vænti svo, að hv. allshn. athugi þetta mál nákvæmlega.