09.02.1943
Sameinað þing: 23. fundur, 61. löggjafarþing.
Sjá dálk 27 í D-deild Alþingistíðinda. (3373)

46. mál, flugmál Íslendinga

Eysteinn Jónsson:

Það er enginn vafi á því, að innan stundar, ef svo mætti segja, fara fram farþegaflutningar að mestu leyti í lofti. Þetta er því mikið framtíðarmál, sem hér er rætt. Það er auðséð, að flugtækninni fer svo ört fram, að að þessu dregur óðfluga. Ég álít því, að Alþ. ætti að athuga hver skref, sem stigið er í þessu máli. Ég er þeirrar skoðunar, að ríkið eigi að hafa verulega íhlutun um flugsamgöngur yfirleitt framvegis. Það ætti ekki að ganga út frá því sem sjálfsögðum hlut, að flugsamgöngur ættu að vera í höndum einkafyrirtækja framvegis. Hins vegar er ég þeirrar skoðunar, að ríkið ætti ekki að taka neitt skref í þessa átt án ýtarlegrar athugunar með tilliti til framtíðarinnar. Það gæti líka komið til mála að athuga, hvort ekki gæti verið samvinna milli ríkisins og annarra, sem vildu halda flugsamgöngum uppi.

Ég veit ekki, hvernig þessum málum er skipað annars staðar. Þó hygg ég, að í mjög mörgum, ef ekki flestum, tilfellum eigi ríkisvaldið fé í félögum, sem sjá um ferðir á stærstu samgönguleiðum, eða svo mikla íhlutun um mál þeirra, að það hafi þar veruleg áhrif eða jafnvel úrslitaáhrif. Ég nefni engin dæmi, en ég hef þessar upplýsingar frá góðum heimildum.

Væri nú ekki æskilegt, að n. vildi leggja vinnu í að kynna sér, hvernig þessum málum er fyrir komið meðal annarra þjóða? Það vakti sérstaka undrun mína, að n. skyldi ekki hafa talað við flugmálaráðunaut ríkisins. Ég tel alveg sérstaka ástæðu til að hafa hann með í ráðum um allt, sem gert er af Alþ. í þessu efni. Ég tel hins vegar ekki, að málið þurfi að liggja svo fyrir hér, að um það sé nokkur ágreiningur. Ég fæ ekki séð, að það saki, þótt ekki sé nú athugað, hvernig komið verði fyrir rekstri flugsamgangna. Aðalatriðið er að fá því hrundið í framkvæmd, að undirbúningur sé hafinn að flugsamgöngum í framtíðinni, enda er það á þessu stigi aðalatriðið að fá gerða hentuga lendingarstaði og flugvelli og hafa þá til notkunar flugvélunum, þegar þær verða fengnar hingað. Ég vil því fara fram á það við hv. flm. till., að þeir haldi aðeins fram þessum hluta málsins, en ekki hinu, að þingið fari að koma með stefnuyfirlýsingu um, að það ætli að fara að styrkja fyrirtæki, sem verður byggt upp einhvern tíma í framtíðinni. En það kemur ekki þessu máli við.

Ég vil í þessu sambandi benda á, að það er talsvert óvenjulegt, að Alþ. gefi út óákveðna yfirlýsingu um að styrkja öflugt einkafyrirtæki. Hins vegar er oft lýst yfir stuðningi við mál, sem eru til hagsbóta fyrir almenning. Ég tel heppilegra, að síðasta mgr. aðaltill. væri yfirlýsing um stuðning við flugmálin í heild, en ekki sérstakt fyrirtæki, því að það gæti valdið nokkrum misskilningi. Síðar kynni að verða álitið, að minna hefði orðið úr efndum en mætti skilja af slíkri yfirlýsingu.

Ég stóð upp einvörðungu til þess að taka undir ósk hv. þm. N.-Þ. um, að þessu atriði yrði frestað. Mér finnst vera hægt að taka þennan lið aftur. Það þarf, hvort sem er, ekki að ræða núna, hvort menn vilja, að ríkið hafi meiri eða minni fjárhagsleg afskipti af þessu máli.