06.01.1943
Efri deild: 25. fundur, 61. löggjafarþing.
Sjá dálk 466 í C-deild Alþingistíðinda. (3381)

84. mál, menntamálaráð Íslands

Jónas Jónason:

Það má segja um þetta frv., —- ef maður er því velviljaður —, að fall sé fararheill, því að það hefur ekki komið fyrir áður slíkt óhapp eins og í dag, þar sem ekki voru nógu margir menn til þess að taka á móti því í d., og hv. flm. frv. var að reyna að fá formann flokks síns til þess að koma á fund til þess, og síðast tókst að fá þann minnsta minni hluta, sem hægt er að komast af með til þess að fá afbrigði fyrir málinu. En ég vil hugga hv. flm. með því, að þetta fall muni vera fararheill. Þetta er óskáldleg byrjun að vísu, sem verða kann fyrirboði þess þó, að eitthvað gott geti kannske hlotizt af þessu máli, sem hér er fram komið.

Ég hygg, að Ibsen hafi sagt það, að vel undirbúinn sannleikur gæti staðið í 20 ár. Hann mun meint hafa, að ekkert gæti staðið óhreyft til lengdar. Ég flutti fyrir 14 árum fyrst frv. um menntamálaráð, og má ég vera ánægður með, að það hefur staðið svo lengi og með vaxandi tiltrú, því að það hefur haft vaxandi starfssvið. Og eftir 14 ár kemur fram till. frá hv. þm. ekki um að leggja það niður, heldur um að fjölga í því, til þess að það verði hálfu stærra en það áður var. Og allar líkur eru til, að það verði að vera enn stærra, ef á að fylgja þeirri hugsun til hlítar, sem fyrir hv. flm. vakir. Ég álít þess vegna, að framkoma þessa frv. nú, eftir 14 ár, sýni, hve vel það var ráðið að stofna menntamálaráð og þess vaxandi gengi, að þeir, sem helzt vilja betrumbæta það, vilji taka þann kostinn að hafa það svona stórt.

Hér er, að ég hygg, í fyrsta skipti í löggjöf Íslendinga komið fram með frv., sem er að því er skipulag snertir beinlínis á sovétráðstjórnargrundvelli, og má segja, að það hafi þá eitthvert tilefni. Það er líka eðlilegt, þegar hér er kominn fl., sem er 1/5 hluti þingsins og hefur náin mök við erlent ríki, að þá sé álitið, að ekki megi seinna vera að sýna fram á, hvernig við gætum tekið Rússa okkur til fyrirmyndar. En það hefur held ég staðið í Þjóðviljanum í haust, að Rússar hafi fallið frá þeirri skipulagningarkenningu, sem þeir hafa að þessu fylgt, að hafa pólitíska eftirlitsmenn með her sínum og erlendum sendimönnum, en að rússneskir hershöfðingjar hafi rekið burt þessa pólitísku eftirlitsmenn og afsagt að hafa þá lengur. Þetta hefur einkennt Rússa, að t.d. í hernum og líka við sendisveitir erlendis hafa þeir haft pólitíska sendimenn. Stundum hafa þeir verið kallaðir ljósnarar til þess að líta eftir því, að þessir sendimenn landsins hlýddu þeirri pólitísku stjórn og kæmust ekki undan því. Þetta er uppgötvun Rússa að setja óábyrga menn til þess að gæta að þeim, sem ábyrgir eru. Eftir þessu væri það t.d. alveg eðlilegt, að þegar við höfum 5 ráðh., þá væru a.m.k. 5 njósnarar, sem t.d. þingið setti til þess að vera með þeim á stjórnarskrifstofunum, og til að vera við, þegar ráðherrar hefðu samtöl um embættiserindi, til þess að sjá um þá línu, sem þeim væri ætlað að fara eftir.

Ég ætla ekki að fara lengra út í þetta nú. Ég er ekki að segja, að það þurfi að vera fráleitt að taka eitthvað eftir Rússum. Ég býst við, að eitthvað sé nýtilegt hjá þeim, sem þeir finna upp, eins og hjá öðrum þjóðum. En þetta stjórnar-system hefur ekki gefizt betur hjá þeim heldur en það, að herinn hefur afsagt að hafa þessa menn hjá sér, og Stalin hefur orðið að beygja sig fyrir því undir neyð og þunga stríðsins. Að hve miklu leyti þetta kerfi á við hér, það er hlutverk þessarar hv. d. að athuga. Þessi samtök, sem staðið hafa að flutningi þessa frv., er sella úr Kommúnistaflokknum í Reykjavík, og frá þeim flokki stafar allt þetta brölt. Þetta er því eins konar sella frá kommúnistaflokknum, sem á svo að nota til „agitationar“ fyrir þá. Það er sama aðferðin, sem þeir ætla að nota hér, og þeir hafa notað mikið og víða, t.d. hjá kolamokurum í skipum hafa þeir komið upp slíkri sellu, fengið þá óánægðu í lið með sér og reynt með því móti að koma á ýmsum breyt. sér í vil. Mun ég síðar víkja að mannavali þeirra.

En það er eftirtektarvert, að í þennan hóp þeirra vantar menn eins og Einar Jónsson, Davíð frá Fagraskógi, sem telur sig móðgaðan og svíkinn af þeim; tónskáldið á Akureyri, Ríkarð Jónsson, sem sjaldan hemur á fundi til þeirra, Sigvalda Kaldalóns, Jóhannes Kjarval, sem gerir spott að þeim. Þessir menn og ýmsir fleiri láta sig þessa klíku kommúnista litlu skipta, því að þeir sjá í gegnum, hvers konar félagsskapur þetta er, sem bæði að efni og formi er sprottinn upp af og mótaður af þeirri Rússa-„agitation“, sem átt hefur sér stað hér í landi.

Vil ég benda á í þessu sambandi, að sannanir eru til fyrir því, að fyrir nokkrum árum fengu kommúnistar á einum lið 160 þús. kr. til þess að vinna með — bara á einum lið — fyrir skipti sín við fólk sitt hér. En flest hafa þeir þó fengið í vösum og skósólum sjómanna milli landa, sem hefur verið farið leynt með.

Þá er að gera sér það ljóst, að till. þessi er ákaflega heimskuleg, því að hún virðist eiga að byggjast á klókindum, sem alls engin klókindi eru. Þeir hafa sem sé ekki nema 1/5 hluta þ. flokkslega að baki sér og þora því ekki að leggja sjálft málið undir dóm og úrskurð þ., en því ekki einmitt að gera það, láta þá Alþ. sjálft dæma um það, sem þeir eru svo ósáttir með. Það yrðu nógu skemmtilegar umr., sem mundu spinnast um kafla þá, er valdir yrðu til lestrar og umr., og mundu þær umr. þá kannske standa yfir allt að því vikutíma. Tökum t.d. kaflann um sjúklinginn, sem kemur til læknisins í þeim erindum að fá bót meina sinna, en verður þá fyrir því, að læknirinn, sem er að búa til skáldsögu, miðar á hann byssu og segist skjóta hann, ef hann ekki ljúki við skáldsöguna sína og semji endirinn á henni. Nú, — sjúklingurinn gat svo sloppið undan þessu með því að stökkva út um glugga og forða sér og þetta varð til þess, að læknirinn fékk ekki kaflann í. skáldsöguna, en kona læknisins hafði áður sogið út úr þessum sjúklingi peninga. Gætu miklar Umr. orðið um álíka skemmtilegt efni og þetta. Eða, þá held ég, að Pétur þríhross yrði frjótt efni til umr. í þessari d. Þegar hann tekur út úr sér lausu tennurnar, setur þær í saxað tóbak og setur þær svo upp í munninn aftur. Þetta eru þær miklu „þjóðlegu lýsingar“, er ég tel, að eigi að ræða hér. Og þjóðin ætti að kaupa þessar bækur, sem hún gerir ekki, til þess að ganga sjálf úr skugga um, hvað sé verið að skrifa og þýða á erlend mál um hennar hag og ástand.

Það, sem virðist vera einn höfuðtilgangurinn með till., er sá að sjá um, að 2–3 menn, sem rita, fái fé eins og þeim þóknast, og þá væri líkl. allt í lagi frá þeirra hálfu.

Það þarf ekki langt að leita til að sjá, hvernig þeir hafa hugsað sér að haga þessari „kommirsjónera“ starfsemi sinni, sem þeir koma með í þessu frv. og ætlast þeir auðvitað til, að ekki verði séð við þessum klókindum þeirra, en þau eru nú svo auðsæ, að ekki verður fram hjá þeim gengið. Þ. á eftir frv. að velja 4 menn af þessari sellu kommúnista til þess að skipta fé til skálda og listamanna ásamt 5 manna menntamálaráði, er Alþ. kýs. Nú þarf ekki mikið vit til að reikna það út, að kommúnistar fá 1 af 5 í menntamálaráði, og því er það hvorki meira né minna, sem frv. fer fram á, en að afhenda kommúnistum umráð yfir fénu. Þetta eru klókindi, sem Alþ. mun sjá við, sem eru svona á borð við klókindi lítilla krakka, þegar þau eru að leika sér, en sem fullorðna fólkið sér við að sjálfsögðu. Annars er eitt merkilegt við þetta frv., að kommúnistar þora ekki að láta félögin sjálf bera ábyrgðina á úthlutun þessa fjár, því að þeir vita, að afbrýðin og sundurlyndið innan hópanna er svo mikið, og því vilja þeir í lengstu lög láta ábyrgðina hvíla á Alþ. sjálfu.

Þá get ég ekki komizt hjá að benda á, að í þessari pínulitlu 1. gr. kemur fram fáfræði flm. á störfum menntamálaráðs, að hann veit bara ekki, hvað það er, sem menntamálaráð hefur með höndum, og hver verkahringur þess er. Hann setur inn í frv. tvær deildir listamanna, sem menntamálaráð hefur ekkert að gera með. Það eru reyndar aðeins fáeinir menn úr hópi tónlistarmanna, sem menntamálaráð hefur haft afskipti af. En leikarar hafa svo nákvæmlega eins mikið að gera með menntamálaráð eins og hv. flm. hefur að gera t.d. með stjörnuna Sirius. Það mundi engum detta í hug að fara að setja þessar tvær deildir í samband við menntamálaráð, eins og hér á að gera með frv. þessu, sem eitthvað þekkir betur til starfa menntamálaráðs en þessi hv. flm. frv. Það er því fyrst og fremst verið með frv. þessu að finna leið til þess, að kommúnistar geti með „agitation“ sölsað undir sig féð og skipt því eftir eigin geðþótta.

— En ef fara á inn á þá braut, eftir frv. þessu, að láta þá hafa fulltrúa í menntamálaráði, sem njóta styrks þaðan, þá kemur fleira til greina en þær félagsdeildir, er hv. flm. hefur þóknazt að telja upp. Menntamálaráð veitir árlega nokkrum stúdentum námsstyrki, venjulega hafa 2 frá Menntaskólanum á Akureyri fengið þá og 2 héðan úr skólanum í Rvík. Um þessa styrki geta allt að því 120 piltar keppt, og er það meira en nokkur önnur listdeild félaganna hefur á að skipa. En þetta er árlegt vandamál, og verða þessir styrkir oft til að skapa örlög stúdentanna, sem þá fá, að meira eða minna leyti. Ef farið yrði inn á þessa braut, myndi ég leggja til, að stúdentar hefðu 10 fulltrúa úr sínum hópi til að ráðleggja, hverjir hlytu þennan styrk, og yrðu þeir þá úr efstu bekkjum menntaskólanna. Þeir yrðu að vera 10 til þess, hliðstætt breyt. sem frv. fer fram á, að geta ráðið alveg, hverjir hlytu styrkina. Þá veitir menntamálaráð styrki til utanferða, og yrðu þá allir þeir, sem ætla að sigla til útlanda, að mynda með sér félagsskap til þess að fullnægja þeirri ráðstöfun að senda 10 úr sínum hópi til þess að ráða, hverjir fengju þessa utanfararstyrki, sem menntamálaráð úthlutar. Mun ég stinga upp á þessu, ef ætlunin er að fara inn á þá braut, sem frv, felur í sér, að farin yrði, ef það næði fram að ganga óbreytt. En þessi dæmi nægja til að sýna fram á, að um mikla stækkun yrði að ræða á menntumálaráði og því sem næst ókleifa, ef fara ætti inn á þá braut að láta alla þá, sem styrks njóta hjá menntamálaráði, hafa fulltrúa þar, sem svo ráða því, hverjir fengju styrkina, en engin sanngirni mælir með því að láta aðeins suma, sem styrkjanna njóta, hafa þennan rétt, en aðra ekki.

Frsm. var að halda því fram, að mikil óánægja væri með menntamálaráð. Við, sem í því ráði erum, getum nú tæplega verið alveg syndlausir, og er það svo sjálfsagt með okkur eins og annað fólk, en í sambandi við þetta, sem flm. var að halda fram, vil ég benda á, að jafnvel ekki í einni einustu blaðagrein, sem Sigurður Nordal hefur skrifað á móti menntamálaráði, sem er einn af þeirra færustu mönnum, hefur hann getað komið fram með rök fyrir því eða ásakað menntamálaráð um óheppilegt myndaval eða ranga úthlutun skáldastyrkja. Um Halldór Kiljan er það að segja í þessu sambandi, að hann gaf það, sem hann fékk, og. er það ekki okkur að kenna. Þessi staðreynd, að ekki er hægt að særa út vott af röksemdafærslu rógburði einstakra manna um menntamálaráð til staðfestingar, sýnir bezt, hvar þeir eru staddir í þessum ásökunum sínum og hvers eðlis þær eru.

Hv. frsm. las upp úr einu skjali með óhróðri um menntamál, sem undirritað var af 14 mönnum, en 2 af þeim höfðu strikað yfir nafn sitt aftur. En í þessu litla máli sést glöggt menntunarástand þeirra, er þeir tala um að „hengja“ upp í listasafnið, rétt eins og þeir viti ekki, að til eru höggmyndir, sem menntamálaráð kaupir líka og ekki eru hengdar upp í listasöfn. Þeir mundu bara ekki eftir höggmyndum, þeir góðu menn. Hér má glöggt sjá þrengslin í hugsun þessara manna.

Nú, annars hef ég annars staðar vikið að þessu plaggi ýtarlega og vesalingunum þremur, sem sömdu plaggið, en ég tel Ásgrím Jónsson ekki með, því að hann er mikill maður. Hefur nokkurn tíma heyrzt annað eins yfirlæti hjá nokkrum mönnum eins og hjá þeim, er þeir ætla að fara að líkja sér við Snorra og aðra höfunda fornbókmenntanna. Og þeim ummælum þeirra, að enginn hefði vit á listaverkum nema þeir sjálfir, og aðrir væru óhæfir til að dæma um þau, álíka óhæfir og ef ólæs maður ætti að fara að velja bækur í landsbókasafnið, mun lengi verða munað eftir, og þeirra mun þá jafnan minnzt sem hinnar auðvirðilegustu heimsku, sem birzt hefur í íslenzku máli.

Nú skulum við að gamni okkar athuga, hvernig væri, ef þetta væri rétt. Þá ættum við að halda, að alþýðan, þjóðin, sem í 1000 ár hefur borið uppi vort íslenzka mál, kveðið rímur og kvæði og hefur þannig samhliða vinnu og erfiði öld eftir öld borið uppi okkar elztu list, ljóðlistina, þá ætti fólkið, sem þetta hefur gert, ekki að hafa vit á list, heldur aðeins 4–5 menn í hverri kynslóð. Ef við svo athugum þetta lítið eitt nánar og virðum fyrir okkur t.d. skáldið Matthías Jochumsson, þá er það vitað um hann, að með sínum feykilegu yfirburðum á sviði skáldskapar lá vanmáttur hans í því að vita, hvað voru hans beztu kvæði og hvað ekki. Hann átti erfitt með að dæma um sína eigin list og á þessu sést bezt, að það vill til, að jafnvel beztu listamenn eru ekki þeir réttu menn til þess að dæma um sína eigin list. Þegar Matthías hafði t.d. gert þjóðsönginn okkar, fannst honum ekkert sérstakt til hans koma.

Það er ekki ofmælt, þó að sagt sé, að 90% af þjóðinni dáist að ljóðum Matthíasar Jochumssonar, og er því ómögulegt að fordæma nógu mikið þá skoðun, að listamennirnir séu þeir einu, sem vit hafi á list sinni, þar sem svo var ástatt um Matthías Jochumsson, að það var einmitt hægt að „kritisera“ hann á einu atriði, að hann gat ekki lagt rétt mat á sína eigin list, sem þjóðin aftur unni og ann að verðleikum.

Ef það væri satt, að engir hefðu vit á myndlist nema myndlistarmenn, þá ættu í raun og veru engir að kaupa myndir þeirra til híbýlaprýði. Því ætti þá að vera að byggja yfir safn Einars Jónssonar, því ætti þá að vera að sýna listasöfn? Af því að það er gert ráð fyrir, að allur þorri manna hafi vit og beri skynbragð á listaverkin.

Ég ætla svo ekki að eyða fleiri orðum um þetta frv. að sinni, nema tækifæri gefist til þess. Ég mun vera með því, að það verði sett til n. og rætt þar, ekki beinlínis af því, að það sé svo merkilegt, heldur til þess að láta kryfja það til mergjar og að það sýni sig, hversu fráleitt það er.