03.12.1942
Sameinað þing: 5. fundur, 61. löggjafarþing.
Sjá dálk 29 í D-deild Alþingistíðinda. (3386)

25. mál, milliþinganefnd í sjávarútvegsmálum

Flm. (Eysteinn Jónsson):

Herra forseti, hv. þm. — Ég ætla ekki að halda langa ræðu um þetta mál. Till. er um stofnun mþn. í sjávarútvegsmálum. Það er nokkuð greint í till. um þau mál, sem flm. finnst eiga að koma til rannsóknar, en þessar uppástungur eru engan veginn tæmandi og ástæða til að athuga fleira en þar kemur fram.

Alþ. hefur haft vaxandi afskipti af sjávarútvegsmálum síðustu árin, enda afskipti ríkisvaldsins af atvinnulífinu yfirleitt farið vaxandi, m.a. vegna þess, að atvinnuvegirnir áttu margir hverjir erfitt uppdráttar og neyddust til að hafa meiri samvinnu við ríkisvaldið en meðan betur gekk. Þó hefur aldrei af Alþ. verið sett nefnd til að rannsaka almennt þau mál, sem sjávarútvegurinn telur, að þurfi að leysa. Samt hafa einstök mál sjávarútvegsins verið tekin til meðferðar, en aldrei farið fram almenn athugun á málum hans. Að vísu var skipuð nefnd árið 1938, en hún hafði aðeins eitt bráðabirgðarverkefni, að athuga, hvað rétt væri að gera til að bæta þá rekstrarerfiðleika, sem sjávarútvegurinn átti þá við að búa. Það er ætlun flm. þessarar till., að skipuð verði n. til að athuga almennt, hvaða afskipti ríkisvaldið skuli hafa af málum sjávarútvegsins. Það er ákaflega áberandi, hve mörg verkefni eru óleyst í sjávarútvegsmálum. Ekki þarf annað en að athuga ályktanir, sem gerðar eru á fundum sjómanna og fiskifélaga, til þess að sjá mörg dæmi. Þaðan hefur mörgum till. verið beint til Alþ., en þau mál hafa þó ekki fengið þann undirbúning, sem þau hefðu þurft að fá, áður en hægt væri að taka þau til meðferðar á Alþ.

Um einstök mál skal ég vera fáorður. En einna efst á dagskrá eru félagsmál útvegsmanna. Eins og allir vita, hefur Fiskifélag Íslands starfað mikið og vel. Þó hefur komið í ljós, að útvegsmönnum sjálfum hefur ekki fundizt það alls kostar fullnægjandi, sem sést m.a. af því, að þeir hafa stofnað með sér ýmis önnur félög, svo sem Landssamband útvegsmanna. Þetta ástand hefur orðið til þess að dreifa kröftum útvegsmanna og minnka áhrif þeirra á afgreiðslu eigin mála á Alþ. Þó eru nokkrar stofnanir, sem Alþ. hefur sett á fót og ætlað umsjón með vissum framkvæmdum, svo sem fiskimálanefnd og fleiri hliðstæðar nefndir En heildarskipulag allt hefur verið ákaflega óglöggt.

Ef við lítum hins vegar á skipulagið í málum landbúnaðarins, þá er þar öllu betur fyrir komið. Búnaðarfélag Íslands er betur skipulagt til að fara með mál landbúnaðarins en Fiskifélag Íslands með mál sjávarútvegsins. Enda er undirstaðan sú, að Búnaðarfélagi Íslands er falin meiri forsjá en félagsskap útvegsmanna, m.a. af því, að hann er ekki eins vel skipulagður. Ef hægt væri að koma á hann jafngóðu skipulagi og á Búnaðarfélagið, þá mætti fela honum hliðstæð verkefni í þágu útvegsmálanna og Búnaðarfélagi Íslands eru falin í þágu landbúnaðarins.

Mér er kunnugt um skipun nefndar í félagi útvegsmanna til þess að ræða þetta mál. Ég hygg og, að nefnd hafi verið skipuð af ríkisstj. í svipuðum tilgangi fyrir nokkru síðan. En mér finnst ástæða til þess, að þessi mþn. verði skipuð eigi að síður. Ástæðan fyrir því, að mér finnst þörf á mþn. í málinu, er sú, að það er ekki hægt að slíta þetta mál frá öðrum sjávarútvegsmálum. Mér finnst vel geta komið til greina, að löggjafarvaldið geti fallizt á að fela félagsskap sjávarútvegsmanna framkvæmd þeirra mála, sem sjávarútveginn varða, ef sjávarútvegsmenn byggja félagsskap sinn upp á þessum grundvelli.

Þá er hér gert ráð fyrir, að þessi mþn. athugi einnig um, hvernig háttað er nú um verzlunarmál útvegsmanna, og njóti aðstoðar útvegsmanna og fiskimanna til þess að afla sér nauðsynlegra upplýsinga um afurðaverð og afurðasölu þessara manna, sérstaklega með það fyrir augum, að hve miklu leyti kynni að vera ástæða fyrir ríkisvaldið að rétta sérstaka hjálparhönd í þeim málum. Einstökum atriðum þessa máls sé ég ekki ástæðu til að gera grein fyrir hér á þessu stigi málsins. Hv. alþm. er ljóst, að margt í þessum efnum stendur enn til bóta, þó að mismunandi skoðanir séu um það, á hvern hátt úr þeim verði bezt leyst.

Þá geri ég ráð fyrir, að eitt af verkefnum þessarar n. mundi vera að athuga og gera till. um, hverjar greinir iðnaðar ættu að koma hér upp í sambandi við sjávarútveginn og hvaða hluta ríkisvaldið ætti að hafa að þeim málum, t.d. með stuðningi við slík fyrirtæki, og hvaða verkefni það ætti að taka að sér sérstaklega í þeim efnum. Einnig ætti það að vera verkefni þessarar n. að rannsaka þær iðngreinir, sem komið hefur verið á fót, hverja vaxtarmöguleika þær hafa og hvernig þær ættu að halda áfram, og hvort — og þá hvernig — ætti að auka við þann stuðning, sem þær hafa fengið frá hinu opinbera.

Þá er gengið út frá því, að tekin verði til meðferðar af þessari n. endurnýjun fiskiflotans og að hve miklu leyti og í hvaða formi ríkisvaldið veitti stuðning því máli. Það eru sjálfsagt allir sammála um það, að það þurfi að auka fiskiflotann. En mismunandi leiðir geta verið til þess að styðja útveginn í þeim efnum. Og þær leiðir þarf að rannsaka gaumgæfilega, áður en stefnan er tekin. Og nauðsynlegt er, að sú rannsókn fari fram sem fyrst, til þess að menn séu ekki í óvissu um það, hvaða skoðanir þeir hafa. þegar hafizt verður handa. Í því sambandi er gert ráð fyrir, að sérstaklega verði rannsökuð þau skilyrði, sem nú eru í landinu til þess að byggja skip og gera við skip, og að hve miklu leyti ríkisvaldið geti gert ráðstafanir til þess að bæta þessi skilyrði frá því, sem þau nú eru. Í því sambandi getur margt komið til greina, sem of langt mál væri að fara út í í slíkri stuttri framsöguræðu. T.d. kemur þar til athugunar, hvaða lánakjör menn vilja hafa fyrir útveginn til þessara framkvæmda; enn fremur hvort menn vilja hallast að því, að um beina styrki sé að ræða, — yfirleitt hvernig fyrirkomulagið um þetta skuli vera.

Þá höfum við einnig minnzt á í sambandi við þetta mál, að gerðar verði áætlanir um hafnargerðir, sérstaklega með tilliti til þess, hvaða hafnargerðir hefðu mesta þýðingu fyrir fiskveiðarnar, og ætla ég ekki að nefna nein einstök dæmi í því sambandi. Mönnum er ljóst, að eftir því sem bátar hafa stækkað frá því, sem áður var, og vélbátaflotinn hefur stækkað, hefur það tíðkazt meir og meir, að bátarnir væru notaðir svo að segja allan ársins hring og flyttu sig milli verstöðva eftir aflabrögðum á hverjum árstíma. Þetta hefur í för með sér vaxandi þörf á góðri hafnaraðstöðu og lendingaraðstöðu á hinum ýmsu stöðum á landinu. Má í því sambandi sérstaklega nefna Faxaflóa. Á mörgum þessum stöðum, þar sem þörf er á bættum hafnarskilyrðum, eru hafnarskilyrði nú mjög slæm. Og við flm. þessarar þáltill. gerum ráð fyrir, að það sé eitt af þeim málum, sem full ástæða sé til, að þessi n. hafi til athugunar, hvaða frumkvæði ríkisvaldið eigi að eiga í þessum málum og hvern stuðning þurfi að veita í þessum málum af hálfu ríkisvaldsins.

Nú er það sjálfsagt, að ýmis önnur mál hefði mátt nefna hér í sambandi við þessa þáltill. Verða þau þá væntanlega nefnd af öðrum við meðferð málsins.

Að lokum ætla ég að minnast á það, að ég geri ráð fyrir, að ýmsum þyki undarlegt, að í þessari þáltill. er ekki minnzt neitt á, að rannsaka skuli í n., hvaða úrræðum eigi að hallast að til þess að leysa þá atvinnukreppu, sem nú er fyrirsjáanleg fram undan fyrir a.m.k. mikinn hluta sjávarútvegsins. Ástæðan til þess, að í þessari þáltill. er ekki farið inn á þetta mál, er sú, að atvinnukreppa sú, sem í vændum er, verður ekki neitt einstakt fyrirbrigði fyrir sjávarútveginn. Hún mun hitta alla atvinnuvegi landsins. Og þau úrræði, sem grípa verður til í sambandi við hana, verða almenn úrræði. Við óttuðumst líka, að það að beina því til mþn. þeirrar, sem hér er gert ráð fyrir, að taka eigi þetta mál til meðferðar, mundi verða til þess, að þau mál, sem nefnd eru í þáltill., yrðu þá út undan og fengju ekki þann undirbúning, sem þau þyrftu að fá. Af þessum ástæðum tókum við ekki neitt í þáltill. um þetta efni, en gerðum ráð fyrir, að þetta stórkostlega mál yrði að leysa með afskiptum ríkisvaldsins af atvinnumálum landsmanna í heild. En ráðstafanir í þá átt viðkomandi atvinnuvegunum í heild hljóta að verða gerðar, hvort sem lengra eða skemmra er eftir þeim að bíða.

Þá vil ég einnig minnast á annað mjög stórt mál, sem er ekki nefnt í þessari þáltill., og gera grein fyrir, af hverju það er ekki heldur nefnt þar. Þeim fjölgar nú óðum, sem játa það, að þörf sé á, að það fyrirkomulag, sem hér hefur verið á stærsta atvinnurekstri okkar yfirleitt, verði endurskoðað og því verði breytt. Þeim fjölgar stöðugt, sem viðurkenna, að þetta fyrirkomulag, ótakmarkaður einstaklingsrekstur á stærstu fyrirtækjum í landinu, leiði sí og æ til árekstra, sem ríkisvaldið ræður ekkert við. Og það er mönnum að verða augljósara og augljósara, að stærstu vandamálum atvinnuveganna verði ekki ráðið til lykta með fullnægjandi hætti vegna þess ástands, sem fyrirkomulag þetta skapar. Meðan ótakmarkaður einstaklingsrekstur á sér stað um stærri atvinnurekstur landsins, helzt við óheppileg tortryggni milli atvinnurekenda og verkamanna, þannig að hætta er á, að þó að rekstrarkostnaður verði of hár, fáist ekki leiðrétting á því, vegna þess að verkafólkið trúi ekki á þörfina fyrir þær ráðstafanir, sem nauðsynlegar eru til slíkrar leiðréttingar, og einnig, að ekki fáist leiðrétting á því af hinu, að verkafólkið óttist, að ef það gengi inn á að leiðrétta þetta, mundi það ekki fá að njóta ávaxtanna af því, ef betur gengi aftur síðar fyrir atvinnurekstrinum. Það er þess vegna hin mesta þörf á því, að fyrirkomulag á stóratvinnurekstrinum hér á landi verði endurskoðað og því breytt með það fyrir augum,að afstaða þeirra, sem vinna við reksturinn, geti breytzt frá því, sem verið hefur. Það hefðu mátt segja, að frá sjónarmiði þeirra manna, sem eru með því, að hér sé mikil þörf breytinga, þá hefði þetta átt að vera nefnt hér í þessari þáltill. En við vildum ekki blanda því inn í þessa þáltill., af því að þetta er verkefni, sem snertir ekki aðeins sjávarútveginn, heldur alla atvinnuvegi landsins. En n. yrði falið það verkefni sérstaklega, þá mundu önnur verkefni, sem n. er falið að leysa, verða meira út undan en æskilegt væri. Þess vegna höfum við lagt til, að verkefni n. takmarkist, eins og greinir í þáltill., og sleppt þessum tveimur málum, sem margir hafa álitið, að ættu að vera til meðferðar í þessari n. En auðvitað erum við flm. tilbúnir að ræða um breyt. á þessari þáltill., sem talizt gætu til bóta. Gætum við vel rætt um það á síðara stigi málsins, hvort rétt væri, að n. þessi hefði víðtækara verkefni heldur en gert er ráð fyrir í þáltill.

Til þess að fyrirbyggja misskilning vil ég taka það fran1, að við lítum þannig á, að þessi n. hljóti að starfa þannig að taka fyrst þau verkefni, sem mest eru aðkallandi. Sum þau verkefni, sem n. þessari er ætlað að leysa, eru ákaflega aðkallandi, og við gerum ráð fyrir, að n. taki þau fyrst til meðferðar og skili till. frá sér og svo koll af kolli, þannig að miðað sé við það, að hvert mál geti komizt fram í tækan tíma. Við gerum okkur vonir um það t.d., að ef þessu máli væri hraðað og n. þessi kjörin nú fljótlega, þá gæti hún mjög vel skilað jafnvel kannske einhverjum málum þegar á þessu þingi og þá öðrum málum fyrir þingið, sem haldið verður síðar í vetur, en svo auðvitað sumum ekki fyrr en síðar. Verkefnin eru ákaflega mörg. Og þau eru mismunandi stór. Sum þurfa minni rannsóknar við en önnur, og af því leiðir það, að það ætti að mega gera sér vonir um það, að fljótlega gæti sézt nokkur árangur af starfi n., ef hún verður sett á fót.

Að lokum vil ég svo óska eftir því, að þessu máli verði að lokinni umr. vísað til síðari umr. og allshn.