03.12.1942
Sameinað þing: 5. fundur, 61. löggjafarþing.
Sjá dálk 34 í D-deild Alþingistíðinda. (3391)

25. mál, milliþinganefnd í sjávarútvegsmálum

Flm.:

(Eysteinn Jónsson): Mér fannst dálítið undarlegur tónn í ræðu hv. 7. þm. Reykv. (SK). Hann hefur talið sig mikinn áhugamann fyrir sjávarútvegsmálum. Og ég geri þess vegna ráð fyrir, að það megi rekja eitthvað af hans nuddi nú við þessa umr. til þess, að honum gremjist, að aðrir en hann skyldu verða til þess að flytja þessa till. til framdráttar sjávarútveginum, þó að það sé undarlegur hugsunarháttur, ef menn hafa áhuga fyrir einhverju máli, að vonzkast yfir því, að aðrir hafi áhuga fyrir því líka. Ræða hans virtist eiga að vera eins konar úttekt á áhuga Framsfl. og Sjálfstfl. á sjávarútvegsmálum. Vil ég minnast á örfá orð í því, sem þessi hv. þm. sagði.

Hann sagði, að það mætti gleðjast yfir því, að nú væru steinarnir farnir að tala, þar sem Framsfl. hygðist að gerast brautryðjandi um sjávarútvegmál. Ég veit, að sjálfstæðismenn eru búnir að endurtaka þau ósannindi svo oft, að Framsfl. sé tregur til þess að halda fram málum sjávarútvegsins, að þeir eru farnir að trúa því. Ég mun því ekki taka svo hart á ræðu hv. þm., eins og efni standa til að öðru leyti, þar sem hann er nú búinn að staglast á þessu um áratug og því kannske varla hægt að virða honum það til fjandskapar og því ekki gerlegt að kippa sér svo mjög upp við það.

Ég sé, að það er misskilningur, að ekki hafi verið skipuð mþn. í sjávarútvegsmálum. En sá misskilningur stafar af því, að tilgangur þeirrar n. var að rannsaka hag sjávarútvegsins í sambandi við kreppuna. Enda kom það fram af því, sem hv. þm. upplýsti um störf þessarar n., að hún hefur sérstaklega verið sett til þess að gera ráðstafanir vegna þeirrar kreppu, sem þá var ríkjandi varðandi sjávarútveginn. Af því stafa þau ummæli, sem ég hafði áðan, og um þetta er getið í grg. þáltill.

Hv. þm. minntist á afskipti eða afskiptaleysi Framsfl. af sjávarútvegsmálum og sagði, að það mætti segja, að steinarnir væru farnir að tala, þegar framsóknarmenn gerðust brautryðjendur í sjávarútvegmálum.

Ég get ekki komizt hjá því að minna þennan hv. þm. á það, að það var Framsfl., sem átti frumkvæðið að því, að byrjað var að byggja síldarverksmiðjur ríkisins og að byrjað var á nýtízku síldariðnaði í landinu. Ég get ekki komizt hjá að minna þennan hv. þm. á, að það voru einmitt kempur Sjálfstfl. á þingi, sem börðust gegn því, að Alþ. færi að sletta sér fram í þessi mál. Ég veit ekki, hvort hv. þm. kallar þetta brautryðjendastarf, en það er það. Ég veit ekki, hvort Sjálfstfl. er mikill greiði gerður með því að benda á þetta, því að nú á síðari árum hafa sjálfstæðismenn verið á þönum á hverju þingi með till. um að auka þennan rekstur. Það var dálítið annað hljóð í þeim, þegar þeir börðust gegn því, að hann væri tekinn upp. Sama máli gegnir, þótt ekki sé það eins glöggt, um afskipti Framsfl. af síldarsölu og síldarsöltun, og það var Framsfl., eða stjórn sú, sem hann studdi, sem kom þessu á, en Sjálfstfl. var því andvígur, Nú er látið sem minnst á þessari andstöðu bera, enda eru menn orðnir sammála um, að þetta skipulag sé rétt í aðalatriðum, þótt eitthvað megi að fyrirkomulaginu finna.

Þá fór hv. þm. mörgum orðum um afskipti Framsfl. af sjávarútvegsmálum eftir 1933. Ef athuguð eru afskipti Framsfl. af málefnum sjávarútvegsins á þeim árum, verður allt annað uppi á teningnum. Þá sést það, að sú ríkisstj., sem þá starfaði, greiddi meira fyrir málefnum sjávarútvegsins en nokkru sinni hafði verið gert áður. Þessi stjórn lét fitja upp á mörgum nýmælum, sem studd voru af ríkisfé, og sum af þessum nýmælum komu að góðu gagni, svo að það þýðir ekki að vera með órökstuddar slettur um, að Framsfl. hafi verið með einskisnýtar till. um sjávarútvegsmál. En að till. Sjálfstfl. ekki voru afgreiddar, var ekkert viðkomandi fjandskap, því að það er enginn kominn til að segja, að þessar till. hafi verið þær, sem mest lá á. Til þess að vita það þarf að taka upp umr. um málið sjálft í stað þess að vera með slettur. Það er náttúrlega fullkomið tilefni til að minnast á það, að Sjálfstfl. taldi sér skylt að spyrna á móti hverju því, sem þá var flutt sjávarútveginum til framdráttar, og segja, að það ætti ekki að gera svona, heldur á hinn veginn. Ég er ekki að telja það til fjandskapar, en á máli hv. þm. og eftir þeim skilningi, sem hann leggur í það, átti þetta að stafa af fjandskap við sjávarútveginn. Það er full ástæða til að minna hv. þm. á það, — og ég vil kalla það fram, — að þegar sjávarútvegurinn átti erfiðast og allir voru sammála um, að eitthvert stórt átak þyrfti að gera, var það Framsfl., sem tók forustuna og hratt í framkvæmd því, sem sjávarútvegsmenn sjálfir vissu, að þurfti að gera, þótt það væri neyðarúrræði. Þetta hygg ég, að allur þingheimur viti, en hvort það á að reikna Framsfl. þetta sem fjandskap við sjávarútveginn, er annað mál. En það er a.m.k. á einkennilegan hátt látið í ljós, ef það er. Það getur vel verið, að hv. 7. þm. Reykv. álíti, að hann geti djarft úr hópi talað um vináttu við sjávarútveginn og starfsemi honum til gagns eftir þeim ráðstöfunum, sem gerðar voru í dýrtíðarmálunum, og að það sé kannske einn þáttur í fjandskap Framsfl. til sjávarútvegsins að reyna að stinga þar við fótum og hljóta fyrir það ámæli frá öllum flokkum.

Mér hefði ekki dottið í hug að fara að hefja hálfgerðar þingmálafundarumr. um sjávarútvegsmál, ef hv. 7. þm. Reykv. hefði ekki beinlínis neytt mig til þess. Mér þykir það einkennilegt, að menn skuli telja það nauðsynlegt að taka þetta upp í hvert skipti, sem mál er tekið upp, sem menn eru sammála um. Það er hvort tveggja, að slíkt er lítið til að greiða fyrir störfum þingsins og lítið til að efla framgang málsins, enda eru nóg tækifæri önnur fyrir slíkar umr. Ég gaf ekki nokkurt tilefni til þess í minni ræðu, að farið væri út í þetta.

Út af getsökum hv. 7. þm. Reykv., að þetta væri eitthvað illa meint, vil ég benda honum á það, að sá fjandsamlegi Framsfl. mundi ekki hafa nema einn fulltrúa í n., svo að það yrði hægur hjá fyrir hina fjóra nm. að sjá um, að hann gæti ekki komið skemmdarstarfsemi sinni fram og töfum í málinu. Sennilega er það vottur um, hvernig hv. 7. þm. Reykv. telur, að taka eigi á málum, er hann tekur upp þessa málsmeðferð við fyrri umr. málsins.

Ég mun svo ekki taka þátt í frekara hnútukasti um þetta mál, en óska þess, að það fari til allshn.