12.01.1943
Efri deild: 29. fundur, 61. löggjafarþing.
Sjá dálk 482 í C-deild Alþingistíðinda. (3395)

84. mál, menntamálaráð Íslands

Bjarni Benediktsson:

Ég vildi fyrst geta þess, að hv. 5. landsk., sem ekki á sæti í þessari d., en er í menntamálaráði, bað mig um að taka það fram fyrir sína hönd út af ummælum hér um falsaða reikninga ráðsins, að hann óski eftir ýtarlegri og hlutlausri rannsókn um þetta, hvort það fái staðizt eða ekki. Þetta áleit ég rétt, að kæmi fram.

Ég vil jafnframt geta þess, að ég tel miður farið, að umræður um menntamál skuli ekki geta farið fram á hófsamlegri grundvelli en raun hefur hér á orðið, þótt ýmsu sé hér nú áfátt í andlegum efnum. En að tala um falsanir og fjárdrátt er lengra gengið en sæmilegt og leyfilegt er, nema fyrir liggi beinlinis gögn, sem sanna þau orð um leið og þau eru töluð. Ég get auðvitað ekki dæmt um, hvað rétt sé í þessum áburði, en þó mun þessi málaflutningur í frekasta lagi og bendir á, að meira séu þessi mál sótt og varin með kappi en forsjá. Þessa vildi ég geta.

Ég ætla ekki að munnhöggvast við hv. fjhn., enda gaf síðasta ræða hans ekki tilefni til þess. Hins vegar vil ég vekja athygli hv. dm. á því, að hann hvarf frá orðum þeim, er voru tilefni fyrirspurnar minnar, að listamenn einir ættu að taka sæti í ráðinu. Ég vildi fá upplýsingar um, hvort frv. væri byggt á þessu, eins og mér virðist. Ég tel kenningu hans fráleita og fjarstæða eðli listanna frá sjónarmiði almennings. Ég lýsi ánægju minni yfir því, að hv. flm. hvarf frá þessari yfirlýsingu. En það haggar því ekki, að yfirlýsingin kom fram, og því kvaddi ég mér hljóðs.

Annars vil ég segja, að eftir þessari ræðu hv. flm. að dæma, þá mun það ofmælt hjá hv. þm. S.-Þ., að flm. sé útsendari kommúnista og að málið hafi verið tafið af dularfullum ástæðum. Ég álít augljóst, hvers vegna málinu hefur verið frestað. Það mun hafa verið til þess, að hv. flm. fengi tíma til að semja þennan reiðilestur, sem bann les hér, en ekki vegna dularfullra alþjóðasamtaka. Þetta sýnir vel kappið á báða bóga, sem ég held, að hljóti að jafnast eitthvað, ef þingið sýnir umburðarlyndi og lofar báðum aðilum að létta a f sér.

Þó verður það að vera innan takmarka velsæmisins, en út fyrir þau munu þó báðir hafa farið.