10.12.1942
Sameinað þing: 6. fundur, 61. löggjafarþing.
Sjá dálk 37 í D-deild Alþingistíðinda. (3396)

25. mál, milliþinganefnd í sjávarútvegsmálum

Sigurður Kristjánsson:

Ég hafði kvatt mér hljóðs út af ræðu hv. frsm., en nokkuð langt er nú liðið, síðan hún var flutt, og get ég haft mál mitt stutt í þetta sinn. En það voru nokkur atriði í ræðu hv. frsm., sem ég get ekki látið hjá líða að gera aths. við.

Hann hóf mál sitt á því að segja, að það liti út fyrir, að ég tryði því, að Framsfl. væri á móti öllum umbótum á sjávarútveginum og eflingu hans. Það þarf ekki trú til. Það vita allir, að Framsfl. hefur verið í andstöðu við framkvæmdir, er hafa verið sjávarútveginum til eflingar. Hitt er svo annað mál, að þetta hefur skeð á tímabili, sem liðið er, og ef Framfl. er að hugsa um að snúa við blaðinu og vill taka vinsamlega afstöðu til þeirra mála, er horfa til heilla fyrir sjávarútveginn, þá er auðvelt að slá striki yfir það, sem liðið er, — yfir fortíð þeirra í þessum málum.

Ég ætla mér ekki að fara að rifja upp allt það, er á daga sjávarútvegsins hefur drifið, og allt það, er miður hefur farið í rekstri þess atvinnuvegar, er sumpart stafar af skilningsskorti eða óvild af hendi löggjafarvaldsins. En það ber að fagna hverri þeirri viðleitni, er fram kemur í þá átt að lagfæra þetta, og frs-ræða hv. þm. S.-M. virðist benda eitthvað í þá átt, og er það gleðiefni, ef svo væri, og mætti þá þetta gamla vera gleymt.

Ég lýsti því yfir, að ég mundi ekki setja fót fyrir þáltill. þá, er hér er til umr., í trausti þess, að hún væri í eindrægni flutt, þó að ég hins vegar hafi ekki verulega mikla trú á, að nefndarstörf geri sjávarútveginum mikið gagn, af reynslu þeirri, er ég hef fengið í þessum málum. En eins og ég hef tekið fram, þá er mér það eigi grunlaust, að með þáltill. þessari eigi að búa gröf þeim málum, er fram hafa komið á þessu þingi og fram munu koma og horfa til umbóta á sviði sjávarútvegsins, þar sem það er ákaflega handhæg aðferð að benda á þessa n. til þess að losna við ýmis vandamál og nauðsynjamál útvegsins og segja, að það sé n. að hafa öll þessi mál með höndum, og gera svo ekl:ert frekar í málinu.

Ég get þá aðeins komið að því, sem hv. frsm. var að segja um, til hvers mþn. í sjávarútvegsmálum 1933 hefði verið sett á stofn. Það er alveg óþarfi fyrir hann að vera nokkuð að fræða okkur um það. Í því sambandi leyfði ég mér að lesa upp þál. með leyfi hæstv. forseta, og þurfti það ekki frekari fræðslu við. N. átti að fjalla um allsherjarhag sjávarútvegsins og átti síðan að koma með till. í málinu, en það var ekki gert.

Þá var hv. frsm. að halda enn einu sinni dauðahaldi um þetta eina strá Framsfl., að

flokkurinn hefði verið brautryðjandi í síldarútvegsmálum og látið byggja fyrstu síldarverksmiðju hér á landi. Það er að vísu ekki rétt, að svo sé, því að það voru fyrst og fremst útgerðarmenn, sem fyrstir manna hófust handa í þessu efni. Það var fyrst, þegar það kom á dagskrá, að ríkið styddi síldarvinnsluna, sökum þess að hér væri um að ræða atvinnufyrirtæki, sem ofvaxið væri sjávarútvegsmönnum, það var há fyrst, að hið opinbera hófst handa og réðst í framkvæmdir.

En það lá annað á bak við þessar framkvæmdir Framsfl., sem nú er greinilega komið í ljós, svo að ekki þarf um það að deila. Þeir vildu með þessum stuðningi sínum við málið koma á eins konar einokunarrekstri á þessum atvinnuvegi, og þar með útiloka það, að útgerðarmennirnir gætu sjálfir staðið að atvinnurekstrinum, nema ef ríkinu þá þóknaðist að veita leyfi í það og það skiptið. Ég sé, að þeir hafa ekki tekið neinum sinnaskiptum í þessari stefnu sinni, þar sem frá þeirra hálfu er nú komið þskj. í frv. formi, sem gengur fetinu lengra í þessu en áður hefur verið gert með því að taka þessa heimild, er ríkið hefur til veita undanþágur, úr höndum þess og setja hana í vald Alþ. Ég hef því miður ekki þetta þskj. við höndina, svo að ég geti farið nánar út í það í þessu sambandi, en þar er uppvakinn enn á ný þessi gamli draugur þeirra að hafa tilhneigingu til þess að binda hendur framtaksmannanna og gera þeim ókleift að njóta hæfileika sinna og starfsorku öðrum í hag. — Það er þess vegna ekki af miklu að gorta, er rifjuð eru upp afskipti Framsfl. af þessum málum og hvern þátt þeir hafa átt í síldarútvegsmálum.

Í sambandi við þessi mál, síldarútvegsmálin, var hv. frsm. að minnast á afskipti ríkisins af síldarsöltun og sölu, er ríkið tók þetta í sínar hendur, sem frægt er orðið að endemum. Hv. frsm. ætti að vera það minnisstætt, þar sem honum hlýtur að hafa verið það kunnugt, að menn fyrir austan, þar sem hann er þm., fengu ekkert fyrir síld sína með þessari tilhögun og urðu jafnvel að borga með henni. Annars hélt ég, að enginn flokkur vildi eigna sér þá tilhögun síldarútvegsmálanna, sem þá var, sökum þess hvernig það skipulag reyndist hörmulega.

Ég ætla ekki að endurtaka afskipti Framsfl. að sjávarútvegsmálum hér, þar sem það er leiðinlegt til þess að hugsa, hvernig þau afskipti hafa verið, en ef það sýndi sig nú, að Framsfl. ætlaði að breyta um stefnu og vildi nú leggja sjávarútvegsmálum lið sitt, skyldi ég verða manna glaðastur, og að þessi þál. verði ekki eins og gröf, sem þeir hrindi öllum málum ofan í, er varða sjávarútveg, sem maður því miður hefur ástæðu til að halda eftir allt það, sem á undan er gengið.

Það er t.d. skemmst að minnast þess, er það greip hv. framsóknarmenn algert fát, er sjávarútgerðin fór að græða peninga. Þá fóru þeir að láta óðslega og fórna upp höndum yfir þeirri hættu, að nú væri sjávarútvegurinn að græða fé og rífa sig úr skuldunum. Það var um það talað eins og þjóðfélagslega hættu, svo að jafnvel Móðuharðindin hurfu í skuggann hjá þeim, samanborið við þá hættu, sem þessi gróði sjávarútvegsins hafði í för með sér.

Ég býst því við, að þeim sé það nú almennt fagnaðarerindi, að þetta sé nú að breytast, og að þessum ótta sé nú farið að létta af þeim, þegar svo er komið, að útgerðin er að mestu leyti stöðvuð sökum söluörðugleika (Einhver: Söluörðugleika?). Já, ég kalla það söluörðugleika, þegar við fáum ekki að fara með fiskinn á aðra staði en þá, sem er tap fyrir útgerðina að sigla til og svo stórhættulegt, að menn láta sér ekki til hugar koma að tefla svo út í tvísýnu. — Annars virðist hv. framsóknarmönnum ókunnugt um þetta, og vil ég ráðleggja þeim að kynna sér dálítið betur þessar aðstæður, sem sjávarútvegurinn á við að stríða.

Það er talað um margt í till. þessari, sem n. á að fjalla um og hafa til meðferðar, en um þau atriði má segja það, að ríkið og útvegsmennirnir sjálfir séu að vinna að lausn þeirra. Útvegsmenn hafa sjálfir stofnað fiskifélag og hafa enn fremur komið á landssambandi, er aðallega hefur séð um sölu á saltfiski. Þó að stríðið hafi lokað fyrir aðalmarkaðinn erlendis, þá má þó fullyrða, að leiðirnar opnast á ný að stríðinu loknu. Svo hafa og hraðfrystihúsaeigendur komið á félagsskap sín á milli. Ef þeir kynnu að óska einhvers stuðnings af ríkisins hálfu, þá koma þeir með óskir sínar til ríkisstj. þar að lútandi. — Þá er og minnzt á, að athuga eigi, að sjávaraflinn sé hagnýttur sem bezt. Að þessu er alltaf verið að vinna, og menn munu leggja þær rannsóknir fyrir bæði Alþ. og ríkisstj. Nú hafa fiskframleiðendur sjálfir tekið að sér sölu hraðfrysta fisksins, og um fiskimálasjóð er það að segja, að hann ætti að sameinast fiskveiðasjóði. Þessi n. fer því að missa hlutverk sitt að miklu leyti, og það er engan veginn það, sem sjávarútveginum mest á ríður að setja á laggirnar n., til þess að hann geti lifað.

Um tryggingarmálin er það að segja, að það er búið að ganga frá þeim, að því leyti sem kemur til hinna smærri trygginga, að því er snertir afla og veiðarfæri. En hin víðtækari, óbeina tryggingin, er eftir, og felst hún í fjárhagseflingu útvegsins. Að því miðar t.d. frv. það, sem hér er komið fram um eflingu fiskveiðasjóðs, til þess að unnt verði að veita betri lánsskilyrði og styrkveitingar. Enn eru í gildi l. um að tryggja rekstur stórútgerðarinnar með því að heimila, að lagt sé nokkurt fé í varasjóð til endurbygginga á skipaflotanum. Mér hefur skilizt á Framsfl., að hann hefði heldur áhuga á að minnka en auka þessa tryggingu. Svo er og komið í dagsljósið frv. um að tryggja aflahluta skipa og horfir í þá átt að tryggja framtíð útgerðarinnar. — En ég geri ekki ráð fyrir, að þessi n. mundi greiða mikið fyrir málinu.

Um innkaup á vélum í skip er það að segja, að litla trú hef ég á því, að n. geti neitt, þar til bóta. Það mál er nú í höndum ríkisstj. og viðskn. Eins og bæði mér og öðrum er vel kunnugt, er það miklum erfiðleikum háð að fá vélar í skip frá Ameríku nú. Hitt er annað mál og athugandi í framtíð, að val véla sé betur gætt en hingað til hefur verið, og að það verði aldrei látið ráða mestu, hve duglegir „agentar“ eru að koma á markaðinn þessari og þessari tegund véla. En þetta er allt til athugunar hjá útgerðarmönnunum sjálfum og er vel borgið í höndum þeirra.

Ég vil taka það fram að lokum, að ég er ekki beinlínis að draga þessi atriði fram í dagsljósið til þess að láta í ljós ótrú mína og gagnleysi á n. þeirri, er um ræðir í þál., og að ég með þessu sé að hafa á móti því, að hún sé skipuð, en það, sem máli skiptir í þessu sambandi, er, að hún verði ekki til að tefja og svæfa þau mál varðandi sjávarútveginn, sem þegar eru komin fram á Alþ. og munu koma fram á næstunni, málin, sem ríður á, að leyst verði sem allra fyrst.