12.01.1943
Efri deild: 29. fundur, 61. löggjafarþing.
Sjá dálk 483 í C-deild Alþingistíðinda. (3398)

84. mál, menntamálaráð Íslands

Jónas Jónsson:

Ég ætla að víkja fáeinum orðum að síðasta ræðumanni, sem kom hér með nýjar skýringar að sumu leyti uppbyggilegar, en að sumu leyti byggðar á misskilningi. Hann áleit, að þessi kommúnistaklíka setti mig of hátt, gerði of mikið veður út úr minni persónu. Hann minntist á hinn skrifaða reiðilestur, að prófessor við háskólann hefði eytt á mig dýrmætum formála og eftirmála í nýútkominni bók, og jafnvel ríkisstjórinn minntist á mig í annars kristilegri ræðu.

Þar kom fram sú uppástunga að prenta Fjallræðuna í dagblöðunum. Ég held, að kommúnistar ættu að prenta hana í Þjóðviljanum, klippa hana út og hafa hana á kommóðunni hjá sér. Að því leyti styð ég þetta, ef það þá kæmi að nokkru gagni.

Hv. þm. taldi það ekki nógu kristilegt, að tala um vesalinga. Ég vil benda honum á, að ekki ósnjallari maður en Þosteinn Gíslason notaði þetta orð fyrir titil á hinn alkunnu bók Victor Hugo á íslenzku. En það er gott og myndarlegt fólk, sem bókin fjallar um. Þegar báðir þessir menn nota þetta mál, þá mætti þetta nú virðast óþarfa viðkvæmni hjá borgarstjóranum, sem þarf þó auðvitað að hugsa um sína undirsáta. En það, sem styður þó bezt þessa málsnotkun mína, er það, að þeir, sem við er átt, eru vondir listamenn og enn þá verri rithöfundar.

Ræða hv. þm. gekk réttilega í þá átt að afsanna þá skoðun kommúnistanna, að engir hefðu vit á list nema listamennirnir sjálfir. Þá sveigði hann að því, að kapp væri of mikið í þessu máli, eins frá minni hlið. En mætti ég benda borgarstjóranum á það, að í hans eigin borg eru kommúnistar með sífelldan ófrið, og árið 1932 gerðu þeir svo mikinn aðsúg að fyrirrennara hans með barsmíð og spýtum, að það m.a. varð til þess, að hann dró sig til baka frá starfi sínu. Ófriður þeirra gegn þjóðfélaginu er hinn sami og gegn K. Zimsen, sem ekkert hafði til saka unnið.

Hins vegar vil ég snúa hinum vinsamlegu orðum hans til mín til hans aftur og segja: Að vísu hefur nokkurt orðaskak komið fram gegn menntamálaráði frá hendi kommúnista, en svo gæti farið, að þeir hefðu í frammi spýtnaskak gegn honum sjálfum áður en langt um liði, og mundi ég mun ekki hvetja hann til að láta undan meir en réttlátt væri og efni stæðu til.

Menntamálaráð hefur hvað eftir annað óskað eftir sönnunargögnum fyrir því, að það hafi staðið illa í stöðu sinni, en þau hafa ekki komið. Nú síðast fyrir skömmu skoraði dr. Guðm. Finnbogason á málsvara hinna óánægðu að færa þessum aðdróttunum stað með sönnunum. Nú ætla ég að vekja athygli á því, að ástæðurnar fyrir uppsteit kommúnista í þessu efni eru fjármunalegs eðlis. Það skyldi enginn láta sér detta í hug áhuga þeirra fyrir listunum. Hitt er sannara, að þeir þykjast fá of lítið fé. Það sannar þetta bezt, að varla hefur verið lækkaður styrkur til nokkurs listamanns síðan 1939, heldur bætt nýjum við, þótt styrktarféð væri sem næst óbreytt að upphæð.

Þetta er þung röksemd á móti óánægju þeirra og staðleysum.

Í menntamálaráði höfum við reynt að hafa nokkra flokkun á listamönnunum, svo að styrkur hvers og eins væri síður háður tilviljunarkenndri atkvæðagreiðslu, sem stundum þekkist hér, þegar nýir þm. koma og róið er í þm. Þess eru dæmi, að aðstandendur manna hafa róið í þm. til að útvega styrki. T.d. Arnór Sigurjónsson. Honum tókst að fá 8 menn hér í d. í lið með sér til þess að útvega föður sínum skáldastyrk, sem er lítið skáld. Og svo átti þetta að vera heilög ákvörðun.

Þá ætla ég að byrja á hæsta flokknum. Þar eru þessir menn með kr. 3000.00 í grunnstyrk óbreytt frá 1939: Ásgrímur Jónsson, Ríkarður Jónsson, Ásmundur Sveinsson. Guðmundur á Sandi hafði áður kr. 1800, Guðmundur Kamban l800, Kristmann Guðmundsson hafði 1800, Jóhannes Kjarval hafði ekki neitt, Tómas Guðmundsson hækkaði um 2000. Þessir hafa nú allir 3000 krónur á ári.

Svo eru nokkrir með óbreyttar upphæðir, sem mætti nefna, t.d.: Jón Stefánsson listmálari, Ríkarður Jónsson myndhöggvari, Ásgrímur Jónsson listmálari og Ásmundur Sveinsson myndhöggvari. Það eru þessir 4 með óbreyttar styrkupphæðir.

Nú eru skiptar skoðanir um það, hvort þessir listamenn: Davíð Stefánsson, Guðmundur Friðjónsson, Gunnar Gunnarsson og Kristmann Guðmundsson, séu allir jafngóðir. A.m.k. mætti segja, að hallað sé á einhverja þeirra með því að gera þá alla jafna. Nú vil ég benda á, að Gunnar Gunnarsson er sá, sem lengst hefur búið erlendis. En við höfum ekki látið hann gjalda þess. Guðmundur Kamban ritar um íslenzk efni og ritar gott íslenzkt mál. En Jón í Blátúni og svoleiðis fólk og Páll Skúlason, þeim hefur yfirsézt, að nokkur ástæða væri til að muna eftir Kamban og Gunnari. Þeir, sem úthlutuðu styrkveitingum til listamanna á undan menntamálaráði, gleymdu Kamban. En svo koma óvaldir strákskúmar og kvarta yfir því, að við höfum ekki gert nógu vel við Gunnar Gunnarsson, þó að menntamálaráð hafi orðið fyrst til að veita honum viðurkenningu ótilkvatt. Hinir höfðu aldrei borið fram tillögu um styrk til slíkra manna, hvorki í þinginu né annars staðar.

Fyrst við erum að tala um þetta af nokkurri skynsemi, þó að kommúnistar geri það að vísu ekki, þá má minna á Guðm. Friðjónsson, sem er gott skáld, og Sigurjón Friðjónsson, sem er lítið skáld. Við vildum hækka Guðmund úr 1800 kr., en það var mjög löng barátta. Það var að vísu seint fyrir svo gamlan mann að fá ekki viðurkenningu fyrr. En ég hygg, að sá verði dómur fólksins síðar, að við höfum gert rétt að sýna þessu aldna skáldi þessa viðurkenningu, þó að seint sé, því að hann er með fremstu mönnum í þeirri grein, ekki sízt fyrir meðferð málsins. Sigurjón er að vísu merkismaður í sumum greinum, t.d. er hjá honum góð meðferð málsins, en hann er lítið skáld. Menn verða sem sé að athuga það, að við höfum ekki ótæmandi sjóð til að ausa úr, heldur ákveðna fjárupphæð, og þess vegna er styrkur til sumra manna dálítið takmarkaður. Eitt af því, sem kom fram, er, að við lækkuðum Sigurjón, en við höfum aftur á móti hækkað Guðmund bróður hans með það fyrir augum, að annar sé mikið skáld, en hinn lítið skáld.

Einn þeirra manna meðal vor, sem eru þekktir á myndlistarsviðinu, er Jóhannes Kjarval. Það er vitanlegt, að hann er afbragð í sinni grein, eitthvað með svipuðum hætti og Matthías Jochumsson var mikið ljóðskáld. Þið skuluð ekki halda, að þeir, sem nú láta hæst í rógburði og brigzlyrðum í garð menntamálaráðs um fjárdrátt, hafi nokkurn tíma látið sér detta í hug að styrkja Kjarval. Þó vita allir, að Kjarval er engin sérstök aurasál, heldur hefur hann dreift út málverkum sínum hundruðum saman, án þess að fá alltaf mikið fyrir. Það hefur ekki verið minnzt á Kjarval af þessum mönnum. Það er kannske vegna þess, að hann hefur ekki legið hér við eins og einhver grenjaskytta, aldrei dottið í hug að biðja um einn eyri frekar en Gunnari Gunnarssyni. Menntamálaráð sendi þessum tveim mönnum fyrstu viðurkenningu þjóðfélagsins og með réttum rökum að því er snertir styrkveitingar af almannafé. En um Kjarval og Ásmund Sveinsson er það að segja, að þótt ég álíti Kjarval meiri listamann en Ásmund Sveinsson, þá er ekki af menntamálaráði gerð nein tilraun til að gera upp á milli þeirra, heldur höfum við reynt að hafa nokkra af þeim helztu í sömu röð.

Ég kem þá að næsta flokki, Jóni Leifs og Magnúsi Ásgeirssyni. Þeir hafa báðir verið lækkaðir um 100 kr., og er það að verðleikum. Það þótti líka hentugra að láta upphæðirnar standa á 2400, en allir sjá, að raunverulega munar þetta engu.

Svo kemur þriðji flokkur með 1800 kr. Jakob Thorarensen hefur 1800 og hefur lengi haft þá upphæð. Gunnlaugur Blöndal listmálari hækkaði úr 1200. Finnur Jónsson listmálari, sem er einn af duglegustu myndlistarmönnum og málurum sinnar kynslóðar, hafði ekkert, en hefur nú 1800. Magnús Stefánsson og Þorkell Jóhannesson hafa ekki aðeins hækkað, heldur hafði Magnús Stefánsson áður aðeins 1000 krónur. Þessir miklu andans menn, sem nú setja sig á háan hest og eru alltaf að skamma menntamálaráð fyrir úthlutun þess, mundu ekki eftir Magnúsi Stefánssyni. Það voru tveir menn ábyrgir fyrir því, að hann fengi viðurkenningu með 1000 krónum, en við hækkuðum hann upp í 1800. Eftir bókum sumra svo kallaðra listamanna á enginn að hafa vit á list nema hinir viðurkenndu listamenn. En það voru tveir menn, sem ekki þóttust vera skáld, þeir Kjartan Ólafsson og Skúli Guðmundsson, sem tóku á sig þá ábyrgð að beita sér fyrir viðurkenningu Magnúsi Stefánssyni til handa. En við vorum búnir að hækka hann upp í 1800, þegar hann dó, og hefði ég gjarnan viljað hafa það hærra.

Á Jóhannesi úr Kötlum er lítill munur frá þeim, sem var, hann hefur nú 1800, en hafði áður 2000. Það má segja, að það sé ekki ást á tónfræði, sem ræður rógburði þessara manna, því að hinn allra efnilegasti maður, sem er nýlega kominn heim frá útlöndum, Hallgrímur Helgason tónskáld, hafði ekkert áður, en hefur nú 1200 kr.

Ég get nefnt annað nafn af sama tagi, mann, sem lengi hefur borið hróður Íslands hæst: Pétur Jónsson óperusöngvara. Hann kom hér heim nokkuð slitinn maður, en ekki fjáður. Og þessir ágætu menn, sem halda, að þeir viti allt, höfðu gleymt Pétri.

Ekki er heldur hægt að segja, að yngri kynslóðin hafi farið varhluta hjá menntamálaráði. Guðmundur Daníelsson hefur nú 1000 kr., en hafði áður ekki neitt. Guðmundi Inga Kristjánssyni er að sumu leyti líkt við Eggert Ólafsson. Svo yrkir hann um fegurð sveitanna. hann höfum við látið fá 1000 kr. Guðfinna Jónsdóttir skáldkona hafði ekkert áður, en hefur nú 1000 kr. Sigvaldi Kaldalóns tónskáld hafði ekkert áður, en hefur nú 1000 kr. Björgvin Guðmundsson tónskáld, þessi mikli andans maður, hafði engan styrk frá íslenzka ríkinu áður en menntamálaráð tók við, en hefur nú 1000 kr. Sama er að segja um Karl Runólfsson tónskáld. Hann hafði ekkert áður, en hefur hjá menntamálaráði 1000 krónur.

Ég held ég geti alveg fullyrt, að menn eins og flm. þessa frv. og hans nánustu hafi aldrei gert neitt til að styðja eða viðurkenna tónmennt, og það hefur þess vegna aldrei, áður en menntamálaráð tók við úthlutun þessara styrkja, verið betra, sízt betra ástand í þessum efnum en nú er hjá menntamálaráði.

Það voru ungir fræðimenn, sem er nú byrjað að viðurkenna. T.d. Björn Guðfinnsson magister. Hann hafði ekkert áður, en hefur nú 800. Eiríkur Albertsson, sama er að segja um hann, sömuleiðis Guðna Jónsson magister og dr. Einar Ól. Sveinsson.

Menn geta nú séð þetta að öðru leyti á þskj. 141, og ég segi það, að ég öfunda ekki flm. af sínum málstað, því að hvert einasta atriði er rothögg á það, sem hann heldur fram. Það hefur komið fram meiri jöfnuður og víðsýni í úthlutun þessara styrkja hjá menntamálaráði en tíðkaðist áður en það tók við. Menntamálaráð hefur sem sé munað eftir sumum mönnum, sem hinir höfðu gleymt.

Það hefði aldrei getað komið fyrir í nokkurri n., sem hefði átt að skipta styrkjum milli listamanna, að setja Kjarval hjá. En þessi klíka hefur öfund mikla á mönnum eins og Kjarval. Það hefur verið skrifað um hann af forakt og gremju og það af flm. þessa frv. í því tímariti, sem gefið er út af smjörlíkisgrósserum hér í bænum. Sumir menn hafa sett það út á list Kjarvals, að hún sé eftirlíking af náttúrunni og sé ekkert í það varið.

Ég vil spyrja hæstv. forseta, — af því að það vill svo til, að ég þarf að fara á fund menntamálaráðs —, hvort ekki megi slíta þessum umræðum. (Forseti: Að vísu er hægt að slíta umr. en ég hafði ætlazt til, að umr. stæðu til kl. l, en þá verður þeim væntanlega frestað).

Ég ætla þá að víkja að 4 sýningum, sem voru haldnar hér í bænum s.l. sumar, — víkja að þeim í sambandi við dóma fólksins.

Kjarval hafði unnið aðallega í sumar að þessum myndum, sem hann sýndi í íþróttahúsi Jóns Þorsteinssonar. Og þegar ég kom þangað skömmu eftir að búið var að opna, var búið að selja nokkuð af beztu myndunum. Mér tókst þó að ná í tvær, mjög prýðilegar að flestra áliti. Þegar ég kom aftur kl. 1, var búið að selja 25 myndir, þó að ýmsar kostuðu nokkur þúsund, allt upp í sjö. Hvort sem það er nú rétt eða rangt, þá höfðu Reykvíkingar þennan smekk, að þeir keyptu um 20 málverk á tveimur tímum, eftir að hann var bannsunginn í Helgafelli af flm. þessa frv. Það er skemmst af að segja, að á stuttum síma seldust ekki aðeins góðu málverkin, heldur líka þau. sem hann setti þar til glettni og má segja, að áttu að vera vinsamlegar eftirlíkingar — og þó betri en fyrirmyndirnar — af því, sem óvinir hans í bænum telja rétt vera, og hygg ég, að hann hafi gert þetta til að spotta þá. En jafnvel þessar myndir seldust, og mun ein þeirra hafa verið keypt af þeim manni, sem leggur peninga í Helgafell, og fór þá saman smekkur og mynd.

Samhliða þessu gerist svo það, að ung kona héðan úr bænum, sem hefur lært í málarastofu erlendis og er sjálfsagt greind og myndarleg kona, hélt sýningu í vetur í Garðastræti. Hafði hún eitthvað um 50 myndir. Hún hafði meir en nokkur annar málari gengið inn á þá braut, sem Helgafell lofar, og Halldór Kiljan og ritstjóri Helgafells skrifuðu lofgreinar um sýninguna. En þetta hafði engin áhrif á fólkið. Á þriðja eða fjórða degi hafði ekkert selzt nema 2 rauðir kollar af 2 þekktum bolsum hér í bænum, sem konan hefur sjálfsagt gefið þeim eða þeir af skyldurækni keypt. Ég hef ástæðu til að halda, að töluvert efni sé í þessari komu, og hún hefur mjög sæmilega skólagöngu, og það er ekkert í vegi fyrir því, að hún komist í samband við þennan bæ annað en það, að fólki hér líkar ekki þessi tjáning í stíl kommúnista. Eftir því sem ég hef frétt, þá gekk það svo, þrátt fyrir mikinn áróður í útvarpi og blöðum, að þar seldist sama sem ekki neitt. Myndir þessarar myndarlegu stúlku voru þannig, að fólk vildi ekki hafa þær hjá sér. Það má geta þess um eina mynd, að lítil stúlka, sem var í fylgd með föður sínum, sagði: „Hér er þá peysa með andlit.“ Þetta er í raun og veru táknrænt um það, hvernig þessi listsýning leit út. Ég held, að hér séu tvær andstæður. Hins vegar er Kjarval, sem selur að ég hygg fyrir 50 –60 þúsund á fáum dögum. Ég hygg, að hann hefði getað selt fyrir 150 þúsund, ef hann hefði haft eitthvað meira af þessari vöru. Mér er kunnugt um mann, sem keypti dýrasta málverkið á 7000 kr., að hann er ákaflega stoltur af að hafa fengið það og finnst það vera ættargripur, sem hann hlakkar til, að börn sín eignist. Býst eg við, að hann telji ekki lýti á myndinni gagnrýni flm. á Kjarval í Helgafelli. Því miður er sjaldgæft, að nokkur íslenzkur listamaður hafi orðið stríðsgróðamaður á stuttum tíma, eins og Kjarval. Þótt hann hafi haft margar prýðilegar sýningar áður, er það mál manna, að aldrei hati borið eins mikið á snilldarverkum og í þetta sinni. Samt hefur þessi sýning verið hrakyrt af flm. þessa frv, og tímaritinu, sem hann vinnur við. Þessir menn þykjast standa alveg á blístri af umhyggju fyrir velferð listamanna. Það er næstum því hægt að segja, að það komi fram lág öfund yfir því, að Kjarval fékk þessa miklu fjármálalegu viðurkenningu. Aðrar viðurkenningar hafði hann áður hlotið.

En um sýningu konunnar í Garðastræti 17 er það að segja, að aldrei munu hafa verið sýndar jafnmargar myndir af einum manni með jafnlitlum árangri og jafnlitlum vinsældum, af því að þessi stúlka er á þeirri ólánsbraut, sem þessi þm. vill hafa listina. Mönnum, sem sjá þessar myndir, finnast þær ljótar, leiðinlegar og ósmekklegar og vilja ekki hafa þær hjá sér. Nú segi ég: væri ástæða til, að menntamálaráð keypti þessar myndir? Áttum við ekki að kaupa af Kjarval? Eða áttum við kannske að kaupa fyrir hið opinbera málverk á þeim sýningum, þar sem enginn vill kaupa neitt? Menn eru nefnilega svo hlálegir að vilja heldur falleg málverk en ljót, og er þetta í samræmi við starfsemi menntamálaráðs.

Þá vil ég koma að því, sem sá félagsskapur mun taka meira mark á, sem þessi þm. þykist standa að. Það er sýning, sem sjálft listamannaþingið hélt s.l. sumar. Þarna voru margar myndir eftir þeirra menn. Ég kom þar, þegar nokkrir dagar voru liðnir frá því að opnað var. Ég sá þar myndir eftir Kristínu Jónsdóttur, og það voru ánægjulegustu myndirnar að mínum dómi, og ekkert var selt annað. Ég frétti, að það hefði selzt ein mynd eftir einhvern klessumakara, og það getur verið, en ekki veit ég um sönnur á því. Fólki þótti sýningin ómerkileg og ekki svo fáir, að ég hygg, drógu beinlinis spott að henni, og þar ber fyrst og fremst að telja Kjarval. Því að Kjarval, sem hafði þessar glæsilegu myndir í tugatali og hafði að vísu selt þær, — hann hafði þarna eina mynd, sem var ákaflega ómerkileg. Og menn hafa hann grunaðan um að hafa leikið sér að því að hafa hana eins ómerkilega eins og hann gat til þess að sýna á þessari samkundu. A.m.k. er það staðreynd, að myndir hans, — þegar hann sýndi í alvöru, — flugu út, en eftir 4–5 daga var þessi mynd óseld. Ég held, að enginn hafi keypt hana, sem skiljanlegt er, af ástæðum, sem ég hef tekið fram.

Ég hygg, að Finnur Jónsson hafi haft skólamyndir frá Þýzkalandi, og þegar menn athuga það, að þessar myndir hafa selzt fyrir mjög háar fjárhæðir, þá geta menn komizt inn á þá hugsun, að hann hafi verið að spauga.

Þetta bendir ótvírætt á, að ekki séu mikil heilindi í þessum félagsskap, þegar sumir beztu mennirnir leika sér að því, á vegum þessarar stríðandi samkomu, að láta þar hluti, sem þeir vel mega vita, að fólkið er ekki hrifið af. Ég þykist vita, að það hafi fleiri en ég tekið eftir þessu.

Frú Kristín Jónsdóttir hafði þarna myndir, sem voru a.m.k. mjög snotrar. Fólkið dæmdi líka þannig um það, og þær seldust strax. Það er mjög einkennandi um þessa listakonu, að hún málar bæði mjög góðar andlitsmyndir og er mjög snotur málari á landslagsmyndir og fylgir því, sem „Boljsevikar“ kalla gamaldags aðferðir. Og hvar sem hún kemur, þá selur hún, en þeir, sem eru á vegum kommúnista, selja ekki. Og svo komast þeir í illt skap og vilja koma sér þannig fyrir, að þeir geti skammtað sér fé í ríkissjóði fyrir verk sín, sem fólk vill ekki kaupa og þykja ljót og leiðinleg.

Flm. þessa frv. á ekki auðvelt með að komast fyrir þessar staðreyndir. Hann kemst ekki fram hjá því, að okkur í menntamálaráði hefur tekizt að gera miklu betur en umbjóðendum okkar á Alþingi. Það er ekki af því, að við séum betri menn, heldur af því að við sem nefnd gátum gert betri athuganir. Það er skiljanlegt nú, hvers vegna ekki er hægt að fá þessa stríðandi baráttumenn til þess að koma hér með kvartanir. Hvernig ættu Guðmundur á Sandi, Davíð Stefánsson og Tómas Guðmundsson að setja nokkuð út á þá stofnun,sem hefur sýnt þeim mjög verulega viðurkenningu, meiri en þeir hafa fengið annars staðar. Við teljum ekki, þó að Tómas hafi verið að senda okkur tóninn í Helgafelli. Hann er ritstjóri hjá þessum einkennilega eiganda, og ég lít svo á, að hann hafi þá aðstöðu, að hann segi ýmislegt í Helgafelli, sem hans betri maður getur ekki staðið við.

Annars held ég, að ég ætti að nota þessi síðustu augnablik af ræðutíma mínum nú til þess að minnast á það, sem þessi maður, sem við höfum hækkað úr 1000 kr. upp í 3000 kr. og gert það í góðri trú, hefur sagt í útvarpsræðu í samtali við Árna frá Múla. Hann hélt því fram, að andagift sé ekki til í skáldskap, og sérstaklega tók hann fram, að hún væri ekki til hjá sér. Þar af leiðandi er ekki hægt að hugsa sér annað en að það sé iðnaður hjá Tómasi Guðmundssyni, sem hann lætur frá sér fara sem skáldskap. Og þó að hann megi gerst vita um sína hæfileika, mun það vera erfitt fyrir bókfræðinga að fá því slegið föstu, að maður eins og Matthías Jochumsson hafi ekki þekkt neina andagift — eða Kjarval. — Ég er hræddur um, þegar menn fara síðar að meta þessi orð Tómasar Guðmundssonar, þá verði þannig litið, að þetta sé bergmál af því ástandi, sem hann sé kominn í nú upp á síðkastið, þegar hann er orðinn málpípa kommúnista í staðinn fyrir það, sem hann áður var, Austurstrætisskáld. Og ég veit ekki, hvort hróður hans vex á Alþ., þó að hann haldi því fram, að það sé ekki til andagift í skáldskap, og þá sé skáldskapur sennilega iðnaður. Ég hygg, að sú andagift, sem Tómas Guðmundsson hafði fyrr á árum, sé að þverra, og að sú þverrun stafi af auknu sambandi hans við hv. flm. þessa frv.

Ég mun síðar gera grein fyrir því, sem er sorglegast í þessu sambandi, að þeir fáu menn hér á landi,, sem stunda listir eða bókmenntir, hafa í list sinni eða ritverkum lent í snærum bolsevismans. Þeir hafa minnkað við það dag frá degi og verið minna metnir fyrir. Einn af þeim, sem hafði góða náttúrlega hæfileika til að bera og blasti við ánægjuleg framtíð, hann er nú svo settur, að bækur hans sjást varla. Hvar sem maður fer um landið, er fjöldi manna, sem lítur ekki í þær, vegna þess að hans álit spilltist við það, að hann gekk á hönd kommúnistum og af því að kommúnistískur áróður hans gekk svo langt í verkum hans, að jafnvel þeir, sem áður vildu telja hann skáld og kannske enn, vilja nú ekki líta við hans verkum. [Frh.].