16.12.1942
Sameinað þing: 9. fundur, 61. löggjafarþing.
Sjá dálk 41 í D-deild Alþingistíðinda. (3401)

25. mál, milliþinganefnd í sjávarútvegsmálum

Gísli Jónsson:

Herra forseti. — Það væri náttúrlega ekki nema gott eitt um þetta mál að segja, ef vissa væri fyrir því, að hugur fylgdi máli hjá hv. flm. þáltill. En það er náttúrlega skilyrði fyrir því, að sá árangur náist, sem að er stefnt, að þeir menn, sem fyrst og fremst samþ. þessa till. og síðan kjósa í þessa n., ef þáltill. verður samþ., hafi fulla samúð með og skilning á því máli, sem hér um ræðir. Og þá er alveg nauðsynlegt, að þeir menn, sem kosnir eru í n., hafi einnig samúð með og skilning á málinu.

Í sambandi við þetta, sem ég hef nú sagt, get ég ekki látið hjá líða að minna á, að á síðasta Alþ. var kosin í Sþ. n. ein, sem mikið var rætt um hér, sem var bílaúthlutunarnefnd. Og einmitt fyrir það, að þeir menn voru ekki skipaðir í þá n., sem voru með því rétta hugarfari, að þeir hefðu skilning á þeim málum, sem n. átti að fjalla um, varð sú nefndarskipun lítils virði og þjóðinni til smánar.

Nú vil ég benda á, hver samúð hefur verið hjá Framsfl. gagnvart útvegsmálunum almennt. Alla tíð, síðan sá fl. fór að hafa afskipti af þessum málum, hefur hann reynt að koma sjávarútvegsmálunum undir samvinnufyrirkomulag og talið eðlilegast, að sjávarútvegurinn væri rekinn á samvinnugrundvelli. Enda kemur það fram í grg. þáltill., að það eigi að stefna útgerðinni inn á eitthvert einhliða svið, t.d. stendur þar, að fram hafi komið tillögur um, „að út á skip, sem rekin væru með sérstöku fyrirkomulagi, mætti veita hærri stofnlán en almennt gerist.“ Og eftir að hv. frsm. (EystJ) hefur lýst yfir í fyrstu ræðu sinni, að það sé þegar bert, að það sé ekki til þjóðarheilla að reka útveginn með því fyrirkomulagi, sem nú er, virðist hér beint stefnt að því að taka upp hér eitthvert einhliða fyrirkomulag í rekstri sjávarútvegsins og jafnframt stefnt að því að skipa þessa n. með alveg sérstöku hugarfari til þess að koma því skipulagi á. Nú hefur á undanförnum árum verið reynt sams konar fyrirkomulag um útgerð sem hér virðist vera stefnt að. T.d. var sett hér á stofn samvinnuútgerðarfélag, að nafni „Grímur“. Það fékk nýtt skip, og ríkissjóður lagði fram allt féð til þess. Það félag var eftir 2 ár búið að stofna 300 þús. kr. tap. Það endaði með því, að félagið fór í skuldaskilasjóð og greiddi með skuldaskilasvikum 98% af skuldunum, en 2% í peningum. Það hópuðust í félagið menn til þess á einum fundi að geta samþ. handa sjálfum sér 1 þús. kr. í hvers hlut í arð. Og það, sem forðaði meðlimum þessa félags frá fangelsi, var, að dómstólar landsins féllust á það, að þetta félag væri rekið á hlutfélagsgrundvelli. Ég skal leyfa mér að upplýsa það, að útkoman var sú viðvíkjandi öllum þessum félögum, að engin peningastofnun vildi ljá þeim lið sitt. Þess vegna varð Framsfl. að hrökklast frá þessari stefnu í útgerðarmálum og láta semja l. hér á Alþ. 1940, sem hann kallaði „lög um hlutarútgerðarfélög“. Það varð að hafa nafnið hlutafélög, til þess að l. yrðu samþ. og svo var sett orðið útgerð inn á milli til þess að vekja samúð. Þessi l. voru svo vanhugsuð, að ef einhver skip væru rekin samkv. þeim, — settu þau hvert hreppsfélag og bæjarfélag á hausinn, þar sem þau ættu heima, því að það á að greiða 1% af brúttótekjum skipanna í sérstakan sjóð. Þetta mundu engin sveitarfélög á landinu þola, nema e.t.v. Rvík. En þessu hefur verið forðað, af því að þeir, sem reka útgerð, hafa séð þá hættu og aldrei dottið í hug að reka útgerð með þeim hætti, sem framsóknarmenn hafa barizt fyrir á mörgum þingum, að gerð yrðu l. um.

Ég vil minnast á, hvað hv. 1. flm. þessarar þáltill. hefur sýnt mikla samúð útgerðinni þann tíma, sem hann réð mestu hér á landi. Árið 1939 var eitt félag hér á landi — það átti heima á Patreksfirði —, sem missti eitt af skipum sínum. Það gat þá fengið eitt skip keypt fyrir vátryggingarupphæðina. En það var tekið fram fyrir hendurnar á félaginu af þáv. hæstv. ráðherra (EystJ). Þessi 12 þúsund £ voru tekin af félaginu og látin til Sambands íslenzkra samvinnufélaga til innflutnings. Á sama tíma var þetta félag skyldað til að kaupa gamalt skip. Þetta var blómið, sem hv. 1. flm. þessarar þáltill. lagði á útgerðina það ár. Síðan hafa útgerðarmenn orðið að búa við það, að ranglega hefur verið tekinn af þeim gjaldeyririnn til annarra hluta en þarfa útgerðarinnar. Útgerðarmenn hafa af þessum ástæðum ekki getað byggt upp atvinnurekstur sinn, á sama tíma sem þeim er sagt, að þeir hafi ekki verið færir um að reka hann. En þetta gleymist oft, að útgerðarmönnum var af stjórnarvöldunum — og það ekki sízt af hv. 1. flm. þessarar þáltill. — gert ókleift að reka útgerðina þannig, að hægt væri að rækja skyldurnar gagnvart fólkinu í sambandi við reksturinn.

Þá voru á Alþ. 1941 m. a. sett skattal., sem voru látin verka aftur fyrir sig og gerðu það ómögulegt, að sjávarútvegurinn gæti birgt sig upp og safnað í kornhlöður til lakari áranna.

Og þar gekk langfremstur í flokki hv. 1. flm. þessarar þáltill.

En þetta var ekki nóg. Árið eftir voru gefin út ný skattal., sem kváðu svo á, að ekki mætti draga frá skatt og útsvar fyrra árs og þannig einnig komið í veg fyrir, að útvegurinn gæti birgt sig upp til lakari áranna. En þessi hv. þm., fyrrv. hæstv. ráðh., hefur sýnt fram á það í Tímanum, hvernig honum hafi á þessum sama tíma tekizt að raka saman fé í ríkissjóðinn til alls annars en að byggja upp útveginn.

Meðan svona er hugarfarið, verður okkur varla ljúft, að þessir menn setji niður nefndir til þess að rannsaka þessi mál, menn, sem bera ekki skynbragð á þessi mál og hafa enga samúð með þeim, en vilja koma á í sjávarútvegsmálum annaðhvort opinberum rekstri eða samvinnurekstri, sem þeir hafa fullkomlega trú á, að geti gengið vel, þó að þeir séu búnir að reka sig á það gagnstæða. Og einmitt þann sama dag, sem málgagn framsóknarmanna birtir þáltill. þessa, þá segir svo í leiðara blaðsins, með leyfi hæstv. forseta:

„Varasjóðirnir eiga að vera eign útgerðarinnar, þ.e. þeirra, sem stunda þann atvinnuveg á hverjum tíma, en ekki þeirra, sem í það og það skipti teljast eigendur skipanna.“

Hér er beint sagt það sama í blaðinu eins og gert er ráð fyrir í till. flm., að allir varasjóðirnir skuli vera teknir af félögunum til þess að dreifa þeim út á meðal sjómannanna sjálfra, sem viðurkennt var þá af hv. 1. flm., að hefðu allt of mikil laun á þessum tímum.

Ég held, að ef hæstv. Alþ. og ríkisstj. vildu þessum málum vel, þá væri það fyrsta, sem þau ættu að gera, að gefa útveginum og athafnamönnum hans meira frelsi, en sýna þeim minni andúð og leyfa þeim að starfa meira á eigin spýtur og með sínu eigin afli. Þá mun sjávarútvegurinn og athafnamenn, sem að honum starfa, verða sú þjóðarstoð, sem þeir hafa alltaf verið, og bera langstærstu byrðarnar, eins og þeir hafa gert hingað til. En það hefur sýnt sig á undanförnum árum, að þessi stefna og þessi hugur hefur ekki verið hér ríkjandi hjá þeim, sem með völdin hafa farið, því að t.d. árin 1936 til 1939 var ekki hægt fyrir sjávarútvegsmenn að snúa sér við, svo að þeir ekki mættu fjötrum þar og fjötrum hér til erfiðleika fyrir sjávarútveginn. Og fyrr en hugarfarsbreyting er orðin hjá hv. flm. þessarar þáltill., sé ég ekki ástæðu til, að sjálfstæðismenn fylgi þessari þáltill., sem bersýnilega er borin fram til einhvers annars e n þess að verða útveginum til hagsbóta.

Í samlandi við útvegun véla í báta, sem talað er um í þáltill., vil ég segja það, að það er rétt. sem í grg. segir, að einu sinni var talað um að setja á fót ríkiseinkasölu á mótorvélum. En vilja sjávarútvegsmenn, að í því efni verði í innflutningsverzluninni skapað sama öngþveitið eins og átt hefur sér stað í bifreiðaeinkasölunni? Er þetta, að hér er talað um einkasölu á mótorvélum, ekki einmitt tákn þess, að flm. þessarar þáltill. hafa engan skilning á þessum málum og að ekkert stendur á bak við flutning þessarar þáltill. annað en helköld andúð gegn þeim mönnum, sem reka sjávarútveg?