13.01.1943
Efri deild: 30. fundur, 61. löggjafarþing.
Sjá dálk 490 í C-deild Alþingistíðinda. (3403)

84. mál, menntamálaráð Íslands

Jónas Jónsson [frh.]:

Ég hverf þar aftur að, sem frá var hörfið í gær, og vil minnast á nokkur atriði í ræðu hv. 7. landsk. Fyrst er það hin undarlega málsmeðferð hans. Nokkuð langt er síðan frv. kom fram, og var það til umr. fyrir meir en viku. En hv. flm. virðist ekki hafa kært sig um að flýta því, heldur þurft tíma til að búa sig undir og kom svo með skriflega ræðu. Hann sýnist ekki hafa treyst eigin anda, þurft að fá annan anda í ræðuna og því tekið sér þennan hvíldartíma. Þegar hann ætlaði að gera athugasemdir við ræðu hv. 6. þm. Reykv., gat hann það ekki, þurfti enn að fresta því og fá andlegan styrk áður. En heldur bendir þetta til, að flm. sé lítið umhugað um frv. og sé otað fram af öðrum, að nokkru leyti gegn vilja sínum. Ég hef spurt hann, hvers vegna hann hafi þessa málsmeðferð. Ekkert svar. Ég vil því benda á, hvað það er, sem hv. flm. treystir sér ekki til að skýra betur. Fyrst og fremst er það sú tilhögun, að þeir, sem Alþingi kýs í menntamálaráð, fái aðra menn til yfirráða yfir sér. Þetta er gert í Rússlandi. En nú, þegar þeir eftirlitsmenn eru reknir frá starfi í Rússaher, virðist helzt vera að færast lífsmark í herstjórn Rússa. Hver ú nefnd, sem sett væri undir slíkt eftirlit, mundi missa frumkvæði sitt og áhugann á starfi sínu. Eða skyldu vinnubrögð Alþingis batna, ef til eftirlits með því væru settir svo sem 40 fulltrúar frá stéttarfélögunum? Það var engin leið fyrir hv. flm. að svara ekki fyrirspurn minni um þetta efni, því að hér er að ræða um svo gífurlega árás á Alþingi, á hið þingbundna skipulag. Svörin komu ekki, af því að þm. vill leyna því, að hér er verið að reyna að koma sovétskipulagi inn í þingskipulagið.

Ég benti á, að tvær stéttir, sem frv. ætlar að senda fulltrúa fyrir, tónlistarmenn og leikarar, hafa ekkert að gera með menntamálaráð. Tilgangur er enginn nema að fá atkvæði þeirra fulltrúa til þess að geta borið þingkjörnu fulltrúana ofurliði. Ég held, að hv. flm. hafi ekki skilið skopið í samanburði mínum á till. hans og sams konar till. um fulltrúa frá öðrum aðilum, sem störf menntamálaráðs varða meira eða minna. Hví ættu ekki bókaútgefendur að eiga sér þar fulltrúa, t.d. Gunnar Einarsson í Ísafold og Þorstein M. Jónsson á Akureyri? Víst ættu þeir þar sinna hagsmuna að gæta.

Nei, þessi hv. flm. gefst upp við að svara, getur ekki skýrt hina einkennilegu málsmeðferð sína, ekki hvaðan fyrirmyndin, hin rússneska, er fengin, enga afsökun gert á vanþekking sinni á störfum menntamálaráðs, — þetta er nú hans framganga í bardaganum.

En hvað hafa þá þessi skáld og listamenn fram að færa til styrktar frv.? Þar hafði ég fyrr lagt fram lista, sem sýnir, að meiri hluti þeirra manna, sem nokkuð kveður að í þeim greinum, hefur tvímælalaust notið batnandi aðstöðu fyrir aðgerðir menntamálaráðs. Í stað þess, að menn eins og Einar Hjörleifsson Kvaran o g Þorst. Erlingsson fengu ekki skáldastyrk nema með illvígum deilum á Alþingi, er þeim málum nú komið þar fyrir, sem ekki verða um þau þess konar deilur. Þegar Gunnar Gunnarsson fékk sín skáldalaun, voru engar deilur um það. Mér þykir líklegt, að Gunnar Gunnarsson mundi eins og fleiri vera efablandinn um það, hvort hann ætti að vinna það til að láta leggja sig á skurðarborðið á Alþingi, eins og gert var fyrir nokkrum árum við skáldin. Að því leyti sem hér hafa orðið deilur um skáld, stafar það af því, að kommúnistar hafa viljað deilur um þau og vakið þær.

Af því að hv. flm. er kunnugur Rússum og hefur dvalið hjá þeim á þeirra kostnað, ætti hann að geta skýrt, hvernig er varið þeim mikla mun, sem er hér og þar með skáldin. Hann veit, að þau eru annaðhvort látin þar í fangelsi til Síberíu eða látin missa lífið, ef þau vilja ekki geðjast stjórninni með áróðri, en hann veit, að hér ríkir fullkomið frelsi, nema menn vilja ógjarnan vera skyldaðir til að kaupa bækur eða myndir, sem þeim þykja ljótar. Frv. stefnir að því að veita kommúnistafl., fulltrúum Rússlands, vald á öllum kaupum listaverka. Þegar ég hreyfði fyrst stofnun menntamálaráðs og lagði þann grundvöll, sem starfsemi þess stendur nú á, var andófið vitanlega mjög mikið, en upp undir helming fulltrúanna tókst þó að vinna til fylgis, Frá byrjun var fyrir því hugsað, að báðar þær stefnur eða straumar, sem í landinu voru, fengju aðstöðu til áhrifa í ráðinu. Fyrir mig, sem hafði það lán eða ólán að byggja þessa stofnun upp fyrir 15 árum, er það náttúrlega óhugsandi hlutur að taka í mál að afhenda yfirráð þessarar stofnunar 5 fulltrúa meirihlutavaldi yngsta þingflokksins í landinu, afhenda þau þeim flokki., sem minnst liggur eftir af góðu, gefa honum einræðisvald um þessa peninga. Er Alþingi tilbúið að afhenda þessum eina flokki allt það vald? Þegar á það er litið, hvernig Rússar nota rithöfunda til áróðurs síns eingöngu og kommúnistar nota vald sitt yfir rithöfundunum til að knýja þá til áróðurs og einskis annars, til að efla flokkastefnu sína, liggur valið opið fyrir Alþingi. Ég veit ekki, nema hægt hefði verið 1928 að koma í gegn h, sem lagt hefðu kosning allra manna í menntamálaráð í hendur þess meiri hluta, sem þá fór með stjórn, en mér fannst það ekki ná neinni átt. En hér er minni hluta, þessarar sérstöku tegundar, ætlað að taka einræðisvald í ráðinu.

Aldrei hefur verið flokkadráttur í þessari n., þó að harðir flokkadrættir hafi verið í landinu og nefndarmenn verið harðir flokksmenn á öðrum vettvangi. Bæði eftir að ég kom í n. og áður, veit ég ekki til, að nokkurn tíma hafi verið hafður þar frammi pólitískur áróður. Hitt er annað, að n. hefur í sinni tíð ekki fengið starfsfrið fyrir árásum nokkurra „agitatora“, og munu þm. vita til þess. Hv. flm. talar um, að ráðið eða ég sérstaklega hafi haft í frammi ósæmilegan áróður gegn listamönnum. Það, sem fyrir liggur um n. eru verk hennar og úthlutunin, og það mun reynast kommúnistum örðugt að sakfella hana fyrir. En þegar haldið er uppi stöðugum áróðri og blásið að kolum hjá mönnum, sem hafa ekki fengið keypt verk eftir sig, og þeir spanaðir til flónskuverka, þá höfum við orðið að verja okkur og höfum haft þá ánægju að sigra í hverri einustu atrennu. Maður, sem ekkert getur selt og enginn vill eiga myndir eftir. hefur lagt það í munn hv. flm., að við munum hafa stolið að miklu leyti peningunum, sem átt hafi að kaupa listaverk fyrir. Þetta kom í blaði í fyrra, og þá voru birtir 8 ára reikningar. Það var sýnt, að bókhald n. var í höndum ríkisbókhaldsins, gert í Landsbankanum og loks endurskoðað af endurskoðunarmönnum ríkisreikninganna. Það var alveg rétt af starfsbróður mínum, ritara menntamálaráðs, að krefjast þess, að reikningar þess yrðu enn endurskoðaðir. Ósannindin hafa að vísu verið rekin ofan í þessa menn, en það er ekki verra, að þau séu rækilega rekin ofan í þá enn einu sinni og þeir hirtir eins og Gísli nokkur var hirtur við Hoffjarðará.

Ósannindin eru hrakin. Samt sem áður, — því að þetta eru kommúnistar, — er þeim haldið á loft.

Þá veik hv. flm. að einhverju sambandi, sem vera mundi milli mín og ríkisleiðtogans í Þýzkalandi. Þó að það komi ekki beint þessu máli við, get ég tekið fram, að þetta er ekki rétt. Við munum ekki hafa spillt honum né hann spillt okkur. En það eru aðrir aðilar, sem hafa haft talsverð skipti við Hitler, sem kunnugt er. Þegar hann var búinn að ganga nokkurn veginn frá einni þjóð, svo að hún gat ekki varizt lengur, kom Stalin, sem nýlega var orðinn mikill vinur hans, frá Rússlandi með her sinn til að reka rýting í bak þeirri þjóð. Þegar Hitler var búinn að hafa það gagn, sem hann kaus að hafa af Stalín, þá tók hann líka Stalin til bæna. Þegar flokksbræður hv. flm. tóku á móti þýzkum ferðamönnum með því að mála á hafnargarðinn svívirðingarorð með hvítum stöfum um þýzku stjórnina. Þetta glæpaverk var gert til þess að særa gestina, og finna allir, hver áhrif það hefði á okkur að mæta slíku erlendis um eigin stjórn. Þegar Stalín hafði snúizt til vináttu við Hitler, þá snerist allur flokkurinn með, og þá hefðu íslenzkir kommúnistar sýnt Hitler hverja auðmýktarþjónustu, sem vera skyldi, ef hann hefði talið sig þurfa að láta þá ganga undir það jarðarmen. Það kemur því úr hörðustu átt, þegar þeir brigzla öðrum um samband við Hitler.

Hv. flm. hélt því fram, að ég hlyti að hafa einhverja sérstaka ánægju af því að lesa og ræða um það, sem ljótt er í bókmenntum þeirra, en það er algerlega á misskilningi byggt. Úr því að höf. bókmennta þeirra, sem við erum að ræða um, eru að skrifa þannig, þá kemst maður ekki hjá að veita þessu athygli. Tökum t.d. lýsingarnar af oddvitum og hreppstjórum, hvernig þeim er lýst eins og skepnum og mannhundum, eða þá þar sem hundahreinsunin er látin vera aðalumræðuefni bænda, og að þeir við jarðarfarir leggi mesta áherzlu á og hugsi mest um að hafa kaffið svo sterkt, að hægt sé að tjarga með því hrútshorn. Eftir þessu taka bændurnir og finnst ógeð að þessu og vilja ekkert hafa að gera með bókmenntir sem þessar, sem jafnsmánarlega geta þeirra og ég hef hér drepið á. Þetta er líka ekkert nema eðlilegt. Hvers vegna skyldu þeir vera að kaupa og lesa þær bækur, sem á svo niðrandi hátt tala um þá? Þeim finnst þetta blátt áfram vera níð um sig og allt ósatt. Eða ef við athugum, hvernig þessar kommúnistabókmenntir hér tala um presta, lækna, sýslumenn, þá er það heimskan hjá þessum mönnum, sem einkennir þá, en útgerðarmenn og kaupmenn bæði glæpamennskan og mannvonzkan.

Hv. flm. getur varla búizt við því, að útgerðarmenn gleðjist yfir þeim bókmenntum, þar sem um þá er talað sem þeir hafi áhuga á því að sökkva skipum sínum, eða kaupmenn hafi áhuga á að brenna vel tryggðar vöruskemmur sínar, en slíkar lýsingar sem þessar erum við að fá í lókmenntum kommúnista inn í landið.

Ef komið er að kynferðismálunum í bókmenntum þessum, þá er þar að finna merkilega hluti. Í einni helztu bók þessarar bókmenntategundar eru stjúpfaðir og stjúpdóttir um fermingu látin fljúgast á, og það er ekki farið í neinar grafgötur með, hvert tilefni stjúpföðurins er til þessa leiks. Ég hef aldrei dreymt um eða lesið í nokkri frásögu sagt frá slíkum villimennskuátökum karls og konu eins og þar er lýst, og vil ég í þessu sambandi spyrja hv. flm. að því, hvers vegna sé verið að setja þetta í bækur, ef ekki til þess að það sé lesið, og það verður þá ekki hægt að komast hjá því, að minnzt sé á þetta, þó að honum finnist það ljótt, þegar þessar bókmenntir eru ræddar. Vill ekki hv. flm. gera svo vel og segja okkur, hvaða erindi þetta á í bókunum, sem okkur er ætlað að lesa, og er þetta það, sem hv. flm. óskar eftir, að þýtt sé á erlend tungumál og talin mynd af því, sem á Íslandi gerist?

Ég get ekki varizt því að minnast hér á það, hvernig Vestur-Íslendingar líta á þýðingu þessara bóka. Það særði þá, er þeir voru spurðir að því, hvort lífið á Íslandi væri svona, eins og lýst er í bókunum, sem von var, og hefðu þeir óskað sér, að slíkt hefði aldrei á prent komið til annarra þjóða frá Íslandi.

Hv. þm. minntist á málverk, er Sigurður Nordal hafði keypt, er hann var form. menntamálaráðs, fyrir landið. Af því að hv. flm. minntist á þetta málverk, Þorgeirsbola, og kommúnistar hafa alveg sérstakt dálæti á þessari mynd, þá langar mig til að segja frá samtali, er átti sér stað milli bónda og eins af leiðtogunum í Máli og menningu. Þeir minntust á Þorgeirsbolamálverkið, og þá sagði þessi kommúnisti við bóndann: Þetta er líklega allra bezta málverk, sem Ísland á. Þá spurði bóndinn hann og sagði: Hvað er það, sem er svona gott við málverkið? Það veit ég eiginlega ekki, en mér er sagt þetta.

En nú vil ég biðja hv. flm. að segja okkur, hvað það er, sem veldur því, að þeir kalla þetta svo dæmalaust gott listaverk. Þarna á myndinni er ung stúlka, sem eiginlega ekki verður séð, hvaða erindi á á málverkið. Svo er þarna líka ljótt naut og óeðlilegt, sem ég ætla ekki að skýra hér. En vill ekki þessi hv. þm. útskýra það fyrir okkur, hvað það er í málverkinu, sem er svona dásamlegt. Er það stúlkan í sambandi víð nautið, eða er það nautið í sambandi við stúlkuna? Eða er ekkert samband í þessu, er þetta bara kák og vitleysa, klúr og óeðlileg? Hápunktinum í þess konar list kynferðismálanna er þó líklega náð í sögu eftir Halldór Kiljan og málverki eftir Jón Engilberts.

Í bók þessari er sagt frá furðulega stórum og sterkum manni, er kynntist prestsdóttur, og þau búa saman. Lýsinguna á samlífi þeirra ætla ég ekki að hafa eftir hér, enda hæfir það ekki þessum stað, en það er það klúrasta og andstyggilegasta um ástalíf karls og konu, sem hugsazt getur, ef svo mætti að orði komast. Málverkið, sem ég var að minnast á eftir Jón Engilberts, málaði hann í sambandi við listaþingið. Og það stóð til að sýna þetta málverk í sambandi við listaþingið, en Páll Ísólfsson tók málverkið til sín, og mun það bíða eftir listasafninu, og mun mönnum þá kannske gefast tækifæri til að sjá það þar. Málverk sitt kallar Jón: Konungur lífsins, — og þar sem þetta málverk er bæði einkennilegt og frumlegt og á að vera einkennandi fyrir listaþingið, þá vil ég spyrja hv. flm., hvaða erindi þessi tegund lista, sem kemur fram í málverki Jóns Engilberts og sögu Halldórs Kiljans, sem ég minntist á, — vill hann ekki gera svo vel og segja okkur, hvaða erindi þess konar list á inn í okkar andlega líf? Og það má hann vita, ef hann veit það ekki nú þegar, að þessi list vekur andstyggð hjá Íslendingum, sem

þykir þetta ljótt og ósmekklegt í hæsta máta. Það er því ekki nema eðlilegt, að „krítik“ komi fram á þessum listum og bókmenntum þeirra, sem vel mætti kalla Þorgeirsbolabókmenntir.

Í einum kafla ræðu sinnar fordæmdi hv. flm. tvær sýningar á listaverkum, er ég stóð að, eftir að árásin, sem menn muna eftir, var hafin á menntamálaráð og að nokkru leyti líka á Alþ. Var það auðheyrt á hv. flm., að honum var illa við sýningarnar, en við skulum nú athuga rétt hans og ástæðu til þess að amast við því, að málverk eftir eftirlætislistamenn hans skuli vera sýnd, að sýnd skuli málverk, sem eftir hans smekk eru talin hin bezta list. Eitt málverk af þessari tegund sýningarinnar var ljót og leiðinleg mynd af Hirti Snorrasyni, sem menntamálaráð hafði látið gera. Þegar ekkju Hjartar Snorrasonar var sýnt þetta málverk, þá aftók hún með öllu, að þessi mynd væri sýnd sem mynd af manni sínum, en þessari mynd var samt hælt í blöðum flm. Maðurinn, sem málverk þetta gerði, var talinn sæmilega fær maður, en svona tókst honum samt upp, þegar hann var farinn að gefa sig að kommúnistum, að málverk hans af Hirti Snorrasyni var þannig, að ekkja hans vildi ekki kannast við, að þetta væri mynd af manninum sínum.

Ég efast ekki um, ef stefna flm. og hans manna í þessum málum hefði 4 menn af 5 í menntamálaráði, þá mundu þeir, sem meiri hl. hefðu, kaupa myndir í líkingu við myndina af Hirti og segja svo bara, að hér væri um hærri og meiri list að ræða, sem fólk almennt gæti ekki skilið. En borgarar í landinu mundu ekki sætta sig við það, þeir mundu smátt og smátt segja „nei“ við þessari list eins og ekkjan sagði. — Ef því Alþ. vildi fara að ráðum flm. í þessu efni, þá mundu borgararnir í landinu fyrr eða síðar setja stólinn fyrir dyrnar og segja „nei“ við þessari list. Þeir mundu aldrei þola hana til lengdar.

Á þessari sýningu var og mynd af togurum við höfnina eftir Þorvald Skúlason, sem þeir telja einn af sínum beztu mönnum. Í málverkinu áttu líka að vera fuglar, en gátu eins verið flugvélar á að líta. Einnig áttu þar að vera menn að velta tunnum, en virtust eins vel geta verið maðkar eða einhver þvílík dýr. Er það skemmst um þessa mynd að segja, að hún er hin fáránlegasta, frá sjónarmiði fólksins hrein og bein fjarstæða. Samt hefur menntamálaráð keypt þessa mynd, og það er mitt álit, að það eigi að kaupa listaverk, bæði málverk og annað, eftir sem flesta listamenn, en náttúrlega verður hlutfallið milli hinna einstöku listamanna að vera miðað við getu og hæfni þeirra í sjálfum listaverkunum. Og þeir eru til á þessu landi, sem hafa yndi af málverki eins og því, sem ég var að minnast á eftir Þorvald, og því er sjálfsagt að kaupa líka eftir hann og þá, sem honum mála líkt.

Þegar Jón Engilberts kom frá námi í útlöndum bláfátækur og þurfandi fyrir styrk, þótti menntamálaráði rétt að kaupa af honum málverk, sem þó var afskræmt á alla vegu, fyrir 1500 kr.

Nú kemur spurningin: Hvers vegna ekki að sýna þessi og önnur málverk almenningi, þegar hafin er deila í landinu um störf menntamálaráðs? Tækifæri var til að sýna 1/3 landsmanna málverkin hér í Rvík. Voru málverkin því fyrst sýnd í alþingishúsinu, en síðan voru þau til sýnis við eina fjölförnustu götu bæjarins. Þetta var auðvitað sú langbezta og hlutlausasta aðferð, sem menntamálaráð gat viðhaft frá sinni hálfu, til þess að almenningur fengi að dæma um það, sem deilt var um. Þessari sýningu var veitt eftirtekt, og ég get trúað hv. flm. fyrir því, að það var lítið hlutfall af áhorfendum, sem sagði gott orð um listaverk hans manna, þ.e.a.s. í klessugerðarstílnum, það voru kommúnistar, sem stóðu með sínum mönnum af flokkslegum ástæðum.

Þá var flm. að segja, að menntamálaráð hefði keypt málverk af því lélegasta af þessu tagi og myndirnar væru keyptar í háðungarskyni. Þetta er nú algerlega á misskilningi og ókunnugleika byggt, þar sem menntamálaráð hefur yfirleitt keypt þær myndirnar, sem dýrastar hafa verið og mest otað fram. Þessi sýning hafði svo þann árangur, eins og reyndar mátti búast við, að álit almennings á þessari stefnu í myndlist, sem lýsti sér í sumum málverkunum, sagði ekki einungis skák, heldur mát á þessa stefnu og málverkin, en aftur dáðist fólk að hinum málverkunum, ekki sízt eftir Sigurð Guðmundsson, svona var nú dómur almennings hér í Rvík, þar sem 1/3 hluti þjóðarinnar dvelst.

Ég verð að segja það, að mér finnst það ákaflega ókarlmannlegt af hv. flm. og öðrum, sem eru að amast við því, að þessi sýning skyldi vera haldin, að þola ekki, að þeirra úrvalsmyndir, er túlka listastefnuna, sem þeir hylla, að þeir skuli ekki þola, að þessi málverk séu sýnd almenningi við hlið hinnar listastefnunnar. Það er eitthvað meira en lítið bogið við þá ókarlmennsku. En nú er vert í þessu sambandi að athuga afstöðu flm. til þeirra, er fylgja hinni stefnunni í myndlist. Þann mann, er fremst stendur þeim megin hér á landi, Jóhannes Kjarval, þann mann hefur hv. flm. fordæmt. Hvað þá um hina?

Þá er nokkur munur á skoðun hv. flm. og Tómasar Guðmundssonar á andagift. Tómas afneitar andagift, en hv. flm. álítur, að illur andi hafi hlaupið í okkur menntamálaráðsmenn. Hv. flm. trúir á illa anda, en Tómas, einn helzti félagi hans, trúir því ekki, að hinn góði andi innblástrarins komi í góða menn. Ég er á því, að Tómas hafi á röngu að standa og að í okkur, menntamálaráðið, hafi hlaupið sá andi, hvort sem hv. flm. vill kalla hann góðan eða illan, sem gert hafi okkur færa um að sigra þá.

En nú getur vel komið til mála, að skipt verði um alla eða flestalla menn í menntamálaráði, og segjum, að flm. væri kosinn í ráðið eða einhver hans manna. Ætlar hann þá ekki neitt að geta treyst á málstaðinn? Ég hygg, ef hann hefði góðan málstað að flytja í ráðinu, mundi hann verða ofan á, jafnvel að óbreyttum mönnum. Ætlar hann ekkert að treysta á málstaðinn? Hver veit bezt um sig. Og ég ætla að segja honum það, að þó að þetta vitlausa frv. yrði samþ. óbreytt flokkur hans fengi störf menntamálaráðs handa á milli, þá tækist honum ekki að dylja, hvað keypt væri. Það gæti kannske gengið slysa- og árekstralítið í 2–3 ár, en ekki heldur lengur, þegar almenningur kæmist á snoðir um það, hvaða og hvers konar listaverk þeir keyptu.

Ég held, að í þessu atriði lýsi sér nokkuð vanmáttur þeirra á gildi þeirrar listastefnu, sem hv. flm. er að berjast fyrir, þó að þeir vilji ekki viðurkenna það með berum orðum. Það er, a,ð þeir skuli þannig tortryggja málstaðinn með því að vilja ekki treysta á hann, heldur að leggja allan þungann og áherzluna á flokksvaldið.

Þá leyfði hv. flm. sér að fara niðrunarorðum um tvo útlenda rithöfunda og þá tvo menn íslenzka, sem þýddu bækur þeirra. Þó að hann vilji eitthvað vera að hnýta í þessa stórmerku rithöfunda, Lawrence og Strachey, þá verður það eigi til annars en gera hann enn hjákátlegri, því að það er eins og ef hundaþúfan væri að reigja sig upp á móti fjallinu. Bækurnar voru þýddar af þeim Boga Ólafssyni og Kristjáni Albertssyni, og varla skil ég í því, að þeir kippi sér mjög upp við það, þó að úr þessari átt séu að koma óvinsamleg ummæli til þeirra.

Þá kom kænska hans fram á skemmtilegan hátt, er hann var að finna að útgáfu Einars Benediktssonar og áfella okkur í menntamálaráði fyrir það, sem höfum ekkert verið riðnir við útgáfu þeirrar bókar.

Ég hef fært rök fyrir því, að það er aðeins lítil klíka, sem stendur fyrir þessari ofsókn gegn menntamálaráði, þótt látið sé í veðri vaka, að það sé stórt og voldugt félag. Ég vil leiða nokkur rök að þeim stimpingum, sem ollu því, að þessi klíka hóf ofsókn gegn meiri hluta menntamálaráðs. Ég ætla þá að byrja á því að ræða um ofsókn þessa mannhóps gegn Einari Jónssyni, Ríkarði Jónssyni og Jóhannesi Kjarval. Auk þess hafa ýmsir yngri málarar mætt lítilli hlýju úr þeirri átt. Þessi klíka hefur hina mestu óbeit á verkum Einars Jónssonar, talar illa um hann og ann honum ekki sannmælis. Í Morgunblaðinu var ráðizt á sýningu Einars mjög harkalega. Þegar undirskriftamálið var á döfinni, var setið yfir honum fleiri klukkustundir til þess að fá hann til að skrifa undir. En hann vildi ekki blanda sér inn í það mál, enda hafði hann fengið reynslu á þessu liði og er sjálfur mjög óádeilinn maður. Flestir munu vera á einu máli um gildi verka Einars Jónssonar, að —þessu fólki undanskildu.

Ríkarður Jónsson var ofsóttur í blaðaskrifum fyrir að neita að skrifa undir. Honum mun ekki hafa þótt neinn sérstakur heiður að því að vera í þessari klíku.

Kjarval hefur verið ofsóttur í Helgafelli fyrir tilverknað flm. þessa frv. Þúsundir manna hafa óskað eftir fleiri myndum eftir Kjarval en hann hefur haft til sölu. Ekkert viðurkenningarorð hefur verið sagt í blöðum kommúnista um myndir Kjarvals. En í einu blaði þeirra var birt mynd, sem sýndi Kjarval vera að reka nagla í vegg til að hengja mynd á hann. Það eina, sem Helgafellsfólkið hefur um þennan ágæta listamann sagt, lýsir kala og óvild í hans garð.

Tónskáldið Sigvaldi Kaldalóns vildi ekki skrifa undir. Mest ber á þessum uppsteit í því, að reynt var með ýmsum ráðum að halda tónskáldinu frá því að láta leika lög sín í útvarpið. Það var hefnd fyrir það, að tónskáldið vildi ekki vera þessum mönnum leppur í skó. Svo kemur eitt atriði í þessari frægu herferð gegn menntamálaráði. Sextíu og sex menn höfðu verið látnir skrifa undir hina staðlausu stafi. Skáldið Guðmundur prófessor Hagalín skrifaði að vísu undir, en á þann klóklega hátt, að hann vildi hvorki bera ábyrgð á efni né orðfæri. Hann gerði það til þess að gera grín að þeim, þessum mönnum, sem stóðu fyrir undirskriftum þessum, líkt og þegar þorskur gerir grín að öngli. (BBen: Hver var þorskurinn og hver öngullinn?). Það á ekki við að fara út í það hér, en ég get sagt hv. borgarstjóra það síðar á betur viðeigandi stað og tíma. Mikið var gert til þess að fá tvo listamenn, Davíð Stefánsson, ljóðskáld á Akureyri, og Björgvin Guðmundsson, tónskáld Vestur-Íslendinga, til að undirskrifa. Voru jafnvel sendir starfsmenn þingsins til þess að véla þá til þess. Er það skemmst að segja, þegar þessir listamenn sáu, hvernig í öllu lá, hvernig aðfarir þessara manna, kommúnistanna, voru, höfðu þeir enga löngun til þess að vinna með þeim. Það hafði verið lögð gífurleg vinna í það að fá þessa tvo menn með í fyrirtæki kommúnistanna, m.a. með því að segja satt og beita blekkingum. Getur nú hv. flm. dottið í hug, að herferð, sem byggð er á svikum, geti borið árangur? Að báðum þessum mönnum er vel búið, og þeir hafa sterka aðstöðu á Akureyri.

Þá ætla ég að minna á, hvernig farið var með Kristján Magnússon málara. Að honum var ráðizt í hvert skipti, sem hann hreyfði sig. Dauðinn forðaði honum frá þessari ofsókn. Hann hafði lært í Ameríku, en ekki í kjöllurum í Kaupmannahöfn eða London. En það er mesti misskilningur hjá þessu fólki að halda, að lítið sé um list í Ameríku. Það er einmitt þvert á móti líklega meira um list í borgum á austurströnd Ameríku en nokkurs staðar annars staðar í veröldinni. Kristján Magnússon sýndi bæði hér og erlendis og hlaut góða dóma. Auk þess seldi hann mikið bæði hér á landi, í Englandi, Ameríku og víðar, en þeir, sem eru í slagtogi við kommúnista, hafa ekki nokkra möguleika til þess að selja né til þess að fá skrifað um sig í Times eða Observer. Bæði Kristján og aðrir, sem lært hafa í Ameríku, eru ofsóttir fyrir að hafa lært þar og fyrir það, að þeir selja. Svo halda þessir kommúnistar, að þeir geti knésett menn eins og listdómarana við Times og Observer. En það þarf meiri menn til þess, og er furðumikil frekja, sem lýsir sér í því, að þessir menn telja sig þess umkomna að gera það.

Guðmundur frá Miðdal myndhöggvari og málari, sem er duglegur maður, hefur varla mátt hreyfa sig, svo að hann hafi ekki verið ofsóttur af þessari klíku, sem tilheyrði áður Morgunblaðinu en nú kommúnistum. Hvar sem hann sýndi, var lokið á hann lofsorði, en er hann kom hingað, var tekið að níða hann niður.

Eggert Guðmundsson og Eggert Laxdal eru hæfileikamenn og mála prýðisvel. Myndir þeirra eru mjög ánægjulegar. En þið skuluð ekki halda, að þeir hafi mátt vera óáreittir.

Þá má nefna Guðmund frá Miðdal og Magnús Árnason. Magnús hefur lært í Ameríku og á enska konu, sem einnig er málari. En þessir og ýmsir fleiri dugandi listamenn fá ekki að sýna fyrir klíkunni.

Ég sé ekki ástæðu til að lengja mál mitt frekar.

Þó vil ég geta þess, að í sumar kom fram ósk frá nokkrum mönnum um að fá frændur sína í félagið til að stækka hópinn. Gegn því var ekki um aðra vernd að ræða en þá, sem menntamálaráð veitti.

Ég vona nú, að hv. þm. hafi fengið nokkur rök fyrir því, að ég er ekki smeykur við að fara í deilur við kommúnista um þessi efni, enda hefur flm. verið órór undir ræðunni. En hér er um það að ræða, hvort áhrifa kommúnista á að gæta svo í bókmenntum og listum, að þeim takist að rugla dómgreind almennings þannig, að menn kaupi andstyggilegar bækur og listaverk aðeins af pólitískum ástæðum og hvort eigi að knýja menn til þess að segja, að svart sé hvítt, það, sem mönnum þykir fallegt, sé ljótt.