16.12.1942
Sameinað þing: 9. fundur, 61. löggjafarþing.
Sjá dálk 44 í D-deild Alþingistíðinda. (3404)

25. mál, milliþinganefnd í sjávarútvegsmálum

Finnur Jónsson:

Ég er ekki hv. siðasta ræðumanni sammála um það, að það beri að greiða atkvæði á móti þessari þáltill., þó að hún sé fram komin frá Framsfl. Ég tel, að hún geti að ýmsu leyti stefnt til bóta. Ég fæ ekki séð, hvað ætti að vera skaðlegt í því að setja 5 manna mþn., sem athugi m.a., á hvern hátt mætti koma fyrir stuðningi við sjávarútveginn. Ef það hefði svo verið, að ríkið hefði áður verið fjandsamlegt sjávarútveginum, þá mættu sjávarútvegsmenn fagna því, að á því yrði nú einhver breyt., sérstaklega þar sem ætlazt er til þess í þáltill., að félagsmál og verzlunarmál sjávarútvegsins verði athuguð og það rannsakað, hvernig þeim og öðrum málum sjávarútvegsins verði bezt fyrir komið. Félagsmál útvegsmanna hafa verið sorglega vanrækt. Það er að vísu til Landssamband útvegsmanna, sem þó er ekkert annað en nafnið eitt. Það hefur ekkert gert til þess að efla sameiginlega sölu útvegsmanna á framleiðslu þeirra eða sameiginleg innkaup þeirra. Sá litli vísir, sem til er í þessa átt, er í einstökum verstöðvum, og alveg án þess að um þau samtök hafi verið myndað nokkurt heildarskipulag. En þær litlu tilraunir, sem hafa verið gerðar í þessa átt, hafa þó borið nokkuð mikinn árangur, eins og olíusamlagið í Keflavík og í Vestmannaeyjum og lýsissamlagið í Vestmannaeyjum. En einmitt þessar tilraunir, sem hafa verið gerðar, sýna, að það ætti að vera hægt að leggja talsvert traustan grundvöll undir slík samtök útvegsmanna, ef vel væri á haldið, en það hefur verið, eins og ég sagði áðan, algerlega vanrækt af hálfu útvegsmanna sjálfra.

Það getur verið, að einhverjir trúi því, að betra sé fyrir útvegsmenn að berjast sér, hver fyrir sig, og hafa engin samtök sín á milli. Og sérstaklega heyrðist mér það á hv. þm. Barð., að hann teldi þetta fyrirkomulag heppilegra heldur en að útvegsmenn hefðu félagsskap með sér. Get ég ímyndað mér, að hann hafi á þessu betri reynslu, — raunar fyrir sjálfan sig, en ekki endilega fyrir útveginn.

Nú virðist mér, að með þessari þáltill. gæti verið lagður grundvöllur að mjög nauðsynlegum athugunum í þessum málum. Og ég fyrir mitt leyti mun þess vegna greiða henni atkv. Ég held, að samstarf flokka um þetta mál, ef heppilegir menn veldust í þessa n., gæti orðið til nokkurs gagns. Ég vil þó ekki segja, að ég geri mér vonir um eiris mikinn árangur af slíkri athugun nú eins og ef hún gæti farið fram á venjulegum tímum, vegna þess að við eigum nú við að búa ófriðarástand og getum ákaflega lítið séð inn í framtíðina eða, hvað hún kunni að bera í skauti sínu. Það er t.d. ekki sennilegt, að á þessum tímum verði hægt að leggja varanlegan grundvöll að sölu afurða eða að möguleikar verði fundnir til aukinnar vinnslu á afurðum sjávarútvegsins til frambúðar, vegna hins óvenjulega ástands. Hins vegar er mjög vel hægt að athuga verzlunarmál sjávarútvegsins og lánaþörf og tryggingarmál útgerðarinnar. Nú hefur þeim tryggingarmálum verið komið nokkuð áleiðis með löggjöf, en mætti þó betur vera. Eins væri gott og sjálfsagt að athuga, hvar mest er þörf fyrir hafnargerðir og lendingarbætur vegna fiskveiða.

Það eru flutt um þetta allmörg frv. á hverju ári, en hefur ekki verið lagður neinn grundvöllur að heildarskipulagi í þessu efni, sem þó hefði verið nauðsynlegt.

Hv. þm. Barð talaði hér með ákaflega miklum fjálgleik um eitt frv., sem hann sagði, að hefði verið afgr. á Alþ. 1940, — það var reyndar á Alþ. 1939 og er birt í Stj.-tíð. fyrst á árinu 1940 —, og hv. þm. sagði, að þessi l. mundu hafa sett yfir höfuð öll sveitarfélög á landinu á höfuðið, ef gert hefði verið út eftir þeim, nema e.t.v. Rvíkurbæ, og frv. til þeirra l. hefði verið skilgetið afkvæmi Framsfl. Ég skal ekki á neinn hátt reyna að létta neinni ábyrgð af Framsfl. í þessu efni. En af því að þessi hv. þm. er nýkominn inn í þingið, langar mig til að benda honum á, að Sjálfstfl. tók að sér að feðra þetta frv. fyrir Framsfl. Það gerði hann með nál., sem er hér á þskj. nr. 281, og er dagsett á Alþ. 10. nóv. 1939. Það er sameiginlegt nál. sjálfstæðismanna og framsóknarmanna í sjútvn., þar sem þeir leggja til, að þetta skaðlega frv., sem hv. þm. Barð. var að lýsa, yrði samþ. Aðeins einn nm. lýsti yfir, að hann mundi skila sérstöku áliti um málið og var málinu mótfallinn. Það var fulltrúi Alþfl. í sjútvn. En fulltrúar beggja hinna flokkanna í sjútvn. lögðu til, að frv. yrði samþ. Þegar þess vegna hv. þm. Barð. er að vanda um við Framsfl. út af því, hvernig honum hafi mistekizt um afgreiðslu mála fyrir sjávarútveginn, ætti hann að athuga um leið, hverjir hafa staðið að afgreiðslu þessa skaðlega máls með Framsfl. Frv. kann að hafa verið skilgetið, en eingetið var það alls ekki.

Ég hafði nú ekki haldið, að þessi þáltill. gæfi tilefni til allsherjar eldhúsdags út af sjávarútvegsmálum. En þegar hv. 7. þm. Reykv. (SK) er að belgja sig út með það, að hann og hans flokkur sé einhver verndari sjávarútvegsins, þá verður það að segjast, að þótt hann hafi flutt ýmis frv., sem hafa horft til heilla fyrir sjávarútveginn, þá hafa þm. úr öllum flokkum gert slíkt hið sama. En það verður ekki hægt að loka augunum fyrir því, að Sjálfstfl. barðist mjög mikið gegn þeirri löggjöf, sem mestu hefur valdið um það að firra landið vandræðum út af þeim markaðstöpum, sem við urðum fyrir með saltfiskinn. Á ég þar við löggjöfina um fiskimálanefnd. Þessi löggjöf leiddi til byggingar hraðfrystihúsanna, sem áreiðanlega hafa afstýrt mestu vandræðunum út af saltfiskmarkaðstöpunum. Og Sjálfstfl. gerði í raun og veru á sínum tíma allt, sem hann gat, til þess að koma í veg fyrir þessa löggjöf og til þess að hindra framkvæmdir fiskimálan. Það verður ekki heldur komizt hjá að benda á, að ef Sjálfstfl. hefði ráðið á Alþ. 1928, þá hefði aldrei verið ráðizt í, að ríkið reisti síldarverksmiðjur. Sjálfstfl. beitti sér gegn því máli og taldi, að til væru nægar síldarverksmiðjur í landinu, ef þær aðeins væru í eigu Íslendinga. Þegar þess vegna hv. 7. þm. Reykv. er að minnast á Sjálfstfl. sem einhvern helzta verndara og forsvarsflokk útvegsins, þá er það ekki rétt, því að sá flokkur hefur einmitt beitt sér á móti framkvæmdum í þeim atriðum, sem hafa orðið til þess helzt að leysa vandamál sjávarútvegsins á seinni árum.

Ég hefði ekki séð ástæðu til undir umr. um þessa þáltill. að benda á þetta sérstaklega, nema að gefnu tilefni frá hv. 7. þm. Reykv.