16.12.1942
Sameinað þing: 9. fundur, 61. löggjafarþing.
Sjá dálk 46 í D-deild Alþingistíðinda. (3405)

25. mál, milliþinganefnd í sjávarútvegsmálum

Flm. (Eysteinn Jónsson):

Ég varaði mig ekkert á því, að miklar umr. mundu verða um þetta mál, og sízt að þær yrðu af því tagi, sem þær hafa verið. Ég hef talað tvisvar í málinu áður.

Ræður hv. 7. þm. Reykv. (SK) og hv. þm. Barð. (GJ) um þetta mál hafa verið með ákaflega undarlegum hætti, ekki sízt ef maður ætti að leggja trúnað á það, sem þeir halda fram. Hugarfar það, sem lá til grundvallar ræðu hv. þm. Barð., lýsti sér vel í þeim orðum, þegar hann sagði, að hann sæi ekki ástæðu til, að sjálfstæðismenn greiddu atkv. með þessari þáltill., vegna þess hverjir flyttu hana. Ef góðir menn flytja mál, þá er það gott mál, en ef vondir menn flytja sama málið, þá er það vont mál, virtist liggja í orðum þessa hv. þm. Ég geri nú ekki ráð fyrir, að þessi 5 manna n. mundi verða miklu öðruvísi skipuð, þó að sjálfstæðismenn hefðu flutt þáltill., því að þessir 5 menn yrðu kosnir með hlutfallskosningum á Alþ. En bara af því að framsóknarmenn fluttu málið, þá sér hv. þm. Barð. ekki ástæðu til að vera með þáltill. né að sjálfstæðismenn greiði henni atkv. Þetta er hugarfar hans.

Nokkuð sama mætti lesa út úr ummælum hv. 7. þm. Reykv., þó að hann af eðlilegum ástæðum væri gætnari og stillti orðum sínum meira í hóf.

Þá var komið að því af hv. 7. þm. Reykv., að lítill hefði verið hlutur framsóknarmanna að framfaramálum sjávarútvegsins. — En hvernig komu sjálfstæðismenn, — sem þá voru kallaðir íhaldsmenn, — fram gagnvart því, að ríkið reisti síldarverksmiðjur? Allir íhaldsmenn greiddu atkvæði á móti frv. 1928 í hv. Nd. um byggingu síldarverksmiðju, með þeim forsendum, að nægilegar síldarverksmiðjur væru til í landinu, ef þær væru í höndum Íslendinga — þessar litlu og hálfónýtu verksmiðjur, sem þá voru til hér á landi. Þetta var framsýnin þá hjá sjálfstæðismönnum, sem telja sig hafa eins konar einkarétt á því að koma nærri málum sjávarútvegsins. En afstaðan til þess máls hefur breytzt síðan hjá þessum mönnum, og málinu var borgið, vegna þess að aðrir menn urðu til þess að hrinda því áfram til farsælla framkvæmda. Og flokkur þessara hv. þm., sem hallmæla framsóknarmönnum fyrir afskipti af sjávarútveginum, svignaði til fylgis við þetta mál, en var ekki með því sem forustuflokkur í málinu.

Hv. þm. Barð. veik líka að því í ræðu sinni, að hann hefði misjafnlega mikla trú á nefndum, og minntist hann á, að þessi n., ef kosin væri, starfaði ekki betur en bílaúthlutunarn., sem hann sagði, að kosin hefði verið hér í sumar. Það er nokkuð langt seilzt að tala um bílaúthlutunarn. í sambandi við þetta mál. Ég held, að margir hafi álitið, að það sæti ekki vel á honum að rifja upp störf þeirrar n., og sízt hans starf í n. Þessi hv. þm. var kosinn í þá n., en hann taldi það frá upphafi sitt verk í þeirri n. að koma í veg fyrir, að hún gæti gert það, sem henni var falið að gera. Það var trúnaður hans við hæstv. Alþ. í þessu sambandi. Þessi var háttur og þessi voru heilindi hv. þm. Barð. í þeirri n.

Hv. þm. Barð. ræddi hér nokkuð um samvinnuútgerð og hlutarútgerð, og rök hans um það efni voru svipuð eins og í öðrum atriðum í ræðu hans. Hann talaði um l. um hlutarútgerðarfélög. En hv. þm. Ísaf. (FJ) hefur þegar kennt honum, hvernig þau l. eru undir komin, og má vera, að það dragi nokkuð úr honum rostann, þegar hann rís á fætur næst.

Þá sagði hv. þm. Barð. líka, að samvinna í útgerð væri óheppilegt fyrirkomulag. Það ætla ég ekki að ræða nú. En það, sem hv. þm. Barð. ætlaðist til, að væru rök fyrir þessari fullyrðingu hans, var, að samvinnuútgerðarfélag, sem Grímur heitir, hefði fengið eftirgjöf á skuldum gegnum Skuldaskilasjóð vélbátaeigenda. En nærri allir aðrir útgerðarmenn fengu það líka, og þá ætti líka, eftir hugmynd þessa hv. þm., að geta sannazt, að nær allir einstakir menn væru ófærir til að stunda útgerð. Skuldaskilin fóru fram sem afleiðing fjárkreppunnar, sem yfir hafði gengið, svo yfir félagsskap um atvinnurekstur sem yfir einstaklinga alveg jöfnum höndum.

Annars er ákaflega eftirtektarvert fyrir útgerðarmenn, hvernig hv. þm. Barð. leit á skuldaskil þeirra. Hann sagði með töluverðri áherzlu, að Grímur hefði greitt með skuldaskilasvikum 98% af skuldum sínum. Það er ágætt fyrir sjávarútvegsmenn að fá upplýsingar um það, hvernig þessi maður (GJ) lítur á skuldaskil þeirra manna, sem farið hafa í skuldaskilasjóð. Hann lítur svo á, að þeir hafi gegnum skuldaskilasjóð svíkið lánardrottna sína.

Hv. þm. Barð. sagði, að ég hefði verið fremstar í flokki um að binda hendur manna með sköttum, síðan stríðið hófst. Hann tók til dæmis skattal. frá 1941, en að þó hefði keyrt um þverbak 1942. En ég hef nú heyrt form. Sjálfstfl, og ráðherra hans, hv. þm. G.-K., kalla þessi skattal. í útvarpinu „skattal. sín“ og hrósa sér af þeim. Þetta var að vísu rangt hjá honum, en það sýnir þó, að hann áleit það ekki óvinsælt að halda því fram, að þau l. væru sitt verk.

Að lokum vil ég minna á eitt atriði enn, en það eru vélarnar. Allir vita, að eitt mesta vandamál útgerðarinnar er það, að í landinu eru tugir af vélategundum, og menn eiga þess engan kost að vita fyrir fram, hvernig vélarnar eru. Það fer fjarri því, að þau viðskipti séu svo skipulögð, að í nokkru lagi sé, enda þótt um einn sérfræðing sé að ræða, sem menn geta leitað ráða hjá. Þetta vita allir smáútvegsmenn, þó að hv. þm. Barð. viti það ekki eða vilji ekki vita það. Það sýnir hugsunarhátt þeirra manna, sem telja sig sjálfkjörna forvígismenn útvegsmanna, að vilja gera lítið úr öðru eins vandamáli og þessu. Það er varla svo haldinn fundur útgerðarmanna, að þetta vandamál sé ekki tekið til meðferðar, en hv. þm. Barð. fleygir fram skætingi á Alþ. út af því, að þetta er talið heyra undir mþn. Hann sagði, að þetta ákvæði sýndi helkalda andúð í garð sjávarútvegsins. Þetta er þeim mun einkennilegra sem hv. þm. er sjálfur vélfræðingur og hlýtur að vita, hve mikil þörf er á auknu eftirliti með vélainnflutningi.

Ég sé aftur á móti ástæðu til þess fyrir okkur flm. að þakka hv. þm. Ísaf. undirtektir hans, því að enda þótt hann léti svo um mælt, að hann gæti ekki séð neitt skaðlegt í skipun n., hné öll ræða hans að því, að nefndarskipunin væri nauðsyn.

Það eru alltaf að koma fram nýjar till. í útvegsmálunum, og flestum er þeim sameiginlegt, að það er ekki hægt fyrir Alþ. að ganga að þeim undirbúningslaust. Ég vil sérstaklega minna á frv. hv. 7. landsk. þm. um jöfnunarsjóð aflahluta, sem felur í sér góða hugmynd, en þarf undirbúnings við.

Í þessum umr. hefur verið talað um það, hver afstaða flokkanna til sjávarútvegsins hafi verið undanfarin ár, enda þótt till. sú, sem fyrir liggur, hafi alls ekki gefið tilefni til slíkra umr. Ég vil út af þessu fara fram á, að þeir, sem eru stöðugt hér á Alþ. með skæting til Framsfl. fyrir afstöðu hans til sjávarútvegsmálanna, en draga það alltaf jafnframt fram, hvað Sjálfstfl. hafi margt gert, lofi okkur að heyra það í svo sem 5 mín. ræðu, hvaða stórmál fyrir útgerðina Sjálfstfl. hefur borið fram og fengið leyst hér á Alþ. og hvaða áhugamál útvegsins hv. þm. G.-K. hefur látið flytja hér s.l. 3 ár. Þetta vil ég biðja t.d. annaðhvort hv. þm. Barð. eða hv. 7. landsk. þm. að lofa okkur að heyra. Og sérstaklega vil ég spyrja, hvort hv. þm. G.-K. hafi þá ekki, á meðan hann hafði aðstöðu til þess, bætt úr fyrri vanrækslu í þessum efnum og látið flytja þau frv., sem samherjar hans sakna svo mjög, að framsóknarmenn hafi ekki flutt. En ég er bara hræddur um, að það komi fr1m, þó að það sé leitt fyrir hv. Sjálfsfl., að stuðningur hans við sjávarútveginn hefur aðallega verið fólginn í hrósi um sjálfan sig, en brigzlum um aðra.