16.12.1942
Sameinað þing: 9. fundur, 61. löggjafarþing.
Sjá dálk 48 í D-deild Alþingistíðinda. (3408)

25. mál, milliþinganefnd í sjávarútvegsmálum

Sigurður Kristjánsson:

Herra forseti. — Það er margt, sem ég hefði haft ástæðu til að svara, en þetta er 2. umr., svo að ég hef tækifæri til að koma að því seinna. Það eru því örfá atriði, sem ég vildi leiðrétta, og skal ég þá fyrst minnast á þau tvö mál, sem sérstaklega hefur verið talað um, að Sjálfstfl. hafi verið á móti.

Í l. um Síldarverksmiðjur ríkisins er eitt atriði, sem ætíð hefur valdið ágreiningi; sem sé það, að frá Framsfl. hálfu var áhuginn byggður á því að gera þennan atvinnurekstur að einokuðum ríkisrekstri. Það átti að koma því ástandi á, að útgerðarmenn hefðu ekki í annan stað að flýja en í ríkisgreiparnar.

Í öðru lagi vil ég nefna fiskimálan., sem beinlinis var sett til höfuðs ýmsum umbótamálum Sjálfstfl. Tilgangurinn var sá, að ríkið gerði alla verzlun með sjávarafurðir að einokun og gæti takmarkað útgerð og veiðar eftir geðþótta sínum. Það er þessi kommúnistíska stefna, sem Framsfl., hefur viljað fylgja og fylgt.

Hv. flm. kom stuðningsmaður hér í d. úr öðrum flokki, og skal ég sízt lasta það, þó að hugir gamalla elskenda dragist aftur saman og hinn hv. Alþflm., þm. Ísaf., sé farinn að brosa aftur til sinnar gömlu kærustu. Það kom fram hjá honum einkennileg kynfærsla, þegar hann sagði, að sjálfstæðismenn hefðu feðrað fyrir framsóknarmenn frv. þeirra um hlutaskiptafélög. Hann hafði ekki önnur rök en þau, að við hefðum ekki greitt atkv. á móti frv. Það er bezt að segja satt og rétt frá þessu. Framsóknarmenn báru frv. fram. Ég lýsti þegar yfir því, að ég teldi það ekki til gagns fyrir útveginn, en af því að ég er annars eðlis í fylgi við mál en þeir, sagði ég, að ég vildi lofa þessari tilraun að ganga fram. Annan þátt átti ég ekki í málinu.

Hv. flm. komst í mikinn móð og bað sjálfstæðismenn að benda á, hvaða mál þeir hefðu leyst. Ég hugsa, að hugur þeirra sjáist ekki á því, því að þeir hafa ekki haft vald til þess að leysa ýmis mál, sem þeir hefðu viljað leysa.