13.01.1943
Efri deild: 30. fundur, 61. löggjafarþing.
Sjá dálk 504 í C-deild Alþingistíðinda. (3411)

84. mál, menntamálaráð Íslands

Jónas Jónsson:

Ég held, að það hafi verið ofmælt hjá hv. síðasta ræðumanni, að hv. flm. hafi lagt mikla vinnu í þetta mál, því að ég hef einmitt leitt rök að því, að ræða sú, sem hann flutti hér fyrr við þessa umr., mundi ekki vera að öllu leyti hans vinna, svo að þetta mun hafa verið oflof.

Það er alveg rétt hjá hv. flm. að fella nokkuð saman segl í þessu máli. Honum er sennilega ljóst, að þingið muni ekki vera líklegt til að taka upp þessa sovjetráðsmennsku. Þess vegna tók líka hv. flm. það ráð að reyna ekki að verja sinn málstað neitt — ekki grundvöllinn undir frv., sem er sá að láta alveg óviðkomandi stofnanir vinna það verk, sem Alþ. hefur alveg í sínum höndum og á að hafa.

Það kom fram í síðustu ræðu, að í sjálfu sér hefði hv. flm. ekkert út á menntamálaráð að setja nema mig, og ég sé ekki ástæðu til, að hann álíti, að ég verði eilífur augnakarl í ráðinu. Og ef hann kemur þar inn sjálfur, er honum opin leið að sýna sinn mikla áhuga þar, þó að þekkingin sé minni. Annars fannst mér það koma fram í ræðu hans, að hann hvorki tryði á málstað sinn né sjálfan sig.

Þá var það nokkur hugleiðing viðkomandi Rússum. Hv. flm. sagði, að ég vildi fylgja fordæmi Rússa, sem hafa útilokað öll skáld, sem ekki fylgdu stjórninni. Í öllum þeim ósannindum um menntamálaráð, sem sögð hafa verið, hefur því þó aldrei verið haldið fram, að það vildi granda lífi eða limum þeirra listamanna, sem ekki fylgdu ákveðnum stjórnmálaflokki. En Rússar leyfa ekki öðrum að vinna á þessum vettvangi en þeim, sem vinna með stjórninni. Hinir tapa frelsi og fjöri. Þetta ætti hv. flm. að vita og taka með varfærni á því orðaskaki, sem hefur komið frá flokksbræðrum hans um þetta málefni. Það er svo langt frá, að ég telji fordæmi Rússa frambærilegt, og þó að um þennan mann, hv. flm., sé að ræða, sem hvorki er skáld, rithöfundur né listamaður, ég vil ekki, að honum sé gert neitt til miska þess háttar. Hann er leiðinlegur, bæði á fundi í þingsölum og annars staðar. En að nokkurt vit sé í að fara með hann eins og Rússar far a með sina andstæðinga, það er fjarlægt íslenzkum hugsunarhætti. En þá getur hv. flm. ekki annað en viðurkennt, að úr því að borgarar Íslands una þessum Rússavinum tiltölulega góðs hlutskiptis, miðað við það, sem í Rússlandi gerist, þá er ómögulegt, að þeir breyti svo þjóðfélaginu, að það sé eins og maður sé kominn til Moskva, þar sem Þjóðverjar eru á hælunum á Rússum.

Hv. flm. kom enn með það, að það mundu vera rangir reikningar hjá okkur í menntamálaráði, og þótti honum við vera snillingar í að selja bækur ódýrt og vildi segja, að það gæti ekki státað af öðru en að við hefðum stolið fé til þess. Í sambandi við landsreikningana eru allir þessir hlutir endurskoðaðir. En við viljum gjarnan, að þetta verði skoðað betur, til þess að þessi hv. þm. fái maklega áminningu í viðbót við það, sem komið er, fyrir sinn lága og lítilfjörlega hugsunarhátt. En ég er hræddur um, að svo framlágur, sem þessi hv. þm. var, þegar hann fór úr skrifuðu ræðunni og fór að tala blaðalaust, þá mundi hann verða enn niðurlútari, þegar búið er að fara í reikninga menntamálaráðs.

Þá var það hundalógik hjá hv. flm., þegar hann kom að því að vilja ófrægja mig fyrir að hafa ekki verið búinn að setja menn, sem hann tiltók, inn í 18. gr. fyrr en gert var. Það er eins og ekkert pláss hafi verið fyrir aðra menn til að gera till. um það en mig, hvorki utan þings né innan, ekki t. d. fyrir bolsevíkka að koma og bera upp þessa menn. Ég hef komið mörgum mönnum þar að, en tel mig ekki hafa einkarétt á því. En úr því að byrjað var að gera fyrir þessa listamenn, sýnir það framsýni og dugnað.

Ég hefði gaman af því, að hv. flm. vildi nefna þann þm., sem ég hefði viljað beita harðræði við fyrir að vilja sýna Gunnari Gunnarssyni einhverja líknsemd. Því að það stendur svo; ef þeir reikningar væru athugaðir, þá mundi koma í ljós, að enginn úr Kommúnistafl. lagði meira á sig til að greiða götu Gunnars Gunnarssonar heldur en ég gerði.

Hv. flm. var hissa á því, að ég skyldi halda því fram, að Tómasi Guðmundssyni hefði hnignað, síðan hann gerðist ritstjóri. En það er öllum ljóst, að það er lélegra, sem birtist eftir hann nú heldur en áður. Og það er eðlilegt, þar sem hann er kominn í félagsskap þann, sem hann er í, að hann dragist niður.

En um andagiftina er þetta að segja, að þeim kemur ekki saman um hana þessum „skáldum“. Á listamannaþinginu börðu þeir sig alla utan, þeir helztu þar, og sögðu, að andinn ólmaðist í þeim, einn sagði, að það skapaði sér sælu, en annar þvert á móti vansælu. Svo kemur Tómas, Helgafellsskáldið, og segir, að ekki sé um neina andagift að gera hjá skáldum.

Um málverkasýningar Kjarvals og Nínu Tryggvadóttur vil ég segja það, að ég get ekki skilið í því, hvað kom hv. flm. í svona illt skap út af því, að ég minntist á þessa dömu. Hún var, eins og ég sagði, búin eftir 4–5 daga að selja eitthvað 2 myndir. Hve margar hún hefur selt eftir það, veit ég ekki. En Kjarval var búinn á 2–3 dögum að selja fyrir mörg þús. kr., en hv. flm. hefur haft flatrímað lof um hann, en viljað koma því að, að af því að hann hafði sótt efni í verk sín úr náttúrunni, hafi honum hnignað. — Mér þykir ekki óeðlilegt, að Kommúnistafl. hefði keypt eitthvað af Nínu að síðustu — ekki honum til sóma, heldur af eins konar skyldu.

Ræða hv. 3. landsk. (HG) var nokkuð lausleg og ekki gott að átta sig á, hvað sá hv. þm. vildi í þessum efnum. Það virðist eins og sá hv. þm. telji eitthvað sérstakt við það, að Kommúnistafl. sé með uppsteit við menntamálaráð, þó að ekki hafi annað fólk í landinu talið það hafa brotið neitt af sér, þegar við höfum gefið út bækur og höfum fengið miklu meira gengi í því heldur en nokkrir aðrir, sem hafa gefið út bækur hér á landi. En þessi hv. þm. hefur í 12 ár átt í svipaðri baráttu, þ. e. víð kommúnista. Hann hefur haft kommúnista á móti sér þann tíma með sams konar ósannindi og rógburð, og hann hefur af veikum mætti reynt að berjast á móti því. Stundum hefur hann sigrað. stundum tapað. Hvers vegna hefur hann háð þessa baráttu í 12 ár? Hvers vegna gafst hann ekki upp 1930 og kyssti á vönd þeirra þá? Hann um það. En hann getur ekki búizt við, að landslýðurinn geri það allur að kyssa á vönd kommúnista. Landslýðurinn tekur það karlmannlegar en hv. 3. landsk. gerir nú.