16.12.1942
Sameinað þing: 9. fundur, 61. löggjafarþing.
Sjá dálk 49 í D-deild Alþingistíðinda. (3412)

25. mál, milliþinganefnd í sjávarútvegsmálum

Finnur Jónsson:

Það getur vel verið, að hv. 7. þm. Reykv. sé lítið um það gefið, að ég kveðji mér hljóðs og blandi mér inn í þennan afbrýðisharmleik, sem fer fram milli hans og hv. 1. flm.

Hv. 7. þm. Reykv. er að reyna að sverja af sér lögin um hlutaútgerðarfélögin, en honum tekst það illa, því að Alþt. sanna þetta mál og atkvgr., sem þar er skráð. Frv. gat ekki orðið að l. nema með sameiginlegri hjálp Sjálfstfl. og Framsfl. Ég ætla ekki að fara út í það eða deila um, hvort Sjálfstfl. hefur lagt til faðerni eða móðerni, þar sem það skiptir ekki máli í þessu sambandi, en sem sagt, frv. gat ekki orðið að l. nema fyrir tilstuðlan Sjálfstfl. Þó að hann telji það nú vanhugsað og meingallað, var hann þó með því, að það færi í gegnum þingið. Þótt hann vilji nú losa sig undan þessu og reyna að sverja af sér krógann, mun það algerlega tilgangslaust, eins og ég hef þegar bent á.

Varðandi það, sem hv. 7. þm. Reykv. sagði, að allir flokkar hefðu verið einhuga um byggingu fyrstu síldarverksmiðjunnar, er ríkið lét reisa, og staðið að löggjöf um það efni, langar mig til að vitna í Alþt. B-deild 1928 bls. 3627, og lesa þar upp ummæli Ólafs Thors, með leyfi hæstv. forseta:

„Við athugun þessa máls er fyrst að því að spyrja, hvort sjávarútvegsins vegna sé þörf á, að reistar séu í bráðina fleiri bræðslustöðvar hér á landi. Ég álít, að ef þær stöðvar, er fyrir hendi eru, væru eign Íslendinga, nægðu þær fyllilega þörfum landsmanna, en með því að flestar þeirra eru eign erlendra manna, sem til þessa hafa einungis gætt eigin hagsmuna, höfum við minnihlutamenn getað aðhyllzt, að frv. þetta næði fram að ganga, ef brtt. okkar verða samþykktar. Tillögur okkar eru þær, að í stað þess, að stöðvarnar verði stofnaðar og starfræktar fyrir reikning ríkissjóðs, þá hafi ríkissjóður þau ein afskipti af málinu, að hann útvegi útvegsmönnum fé til slíks starfa, ef þeir mynda með sér samlag í því augnamiði að geta sett nægar tryggingar fyrir láninu.“

Þetta getur hver og einn lesið hér skjalfest, ef hann vill. Ólafur Thors áleit sem sagt þá, að 1000 mála afköst síldarverksmiðja á sólarhring mundu nægja landsmönnum. En þar sem ríkisverksmiðjurnar einar afkasta nú yfir 20 þús. málum á sólarhring og aðrar verksmiðjur í landinu um 20 þús. málum á sólarhring og menn telja, að enn þurfi að auka afköstin, verður að segja það eins og er, að í þessu áliti Ólafs Thors, hv. form. Sjálfstfl., lýsir sér harla lítil framsýni.

Um frv. um að reisa fyrstu síldarverksmiðjuna var viðhaft nafnakall í Nd., og greiddu þá allir sjálfstæðismenn atkv. á móti því. Um þetta geta og allir gengið úr skugga í Alþt.

Það er einkennilegt, að sjálfstæðismenn skyldu hafa tekið þessa afstöðu, þrátt fyrir það, að Jón Þorláksson hefði verið fenginn til þess af Alþ. að semja áætlun um byggingu slíkrar verksmiðju. En starfræksla Síldarverksmiðja ríkisins hefur í seinni tíð orðið til þess að bjarga landinu frá gjaldþroti og vandræðum, eins og allir vita nú og viðurkenna.

Um afstöðu Sjálfstfl. til fiskimálanefndar og hraðfrystihúsanna tel ég eigi þörf að fjölyrða, þar eð hún er öllum í fersku minni.