18.12.1942
Sameinað þing: 11. fundur, 61. löggjafarþing.
Sjá dálk 52 í D-deild Alþingistíðinda. (3427)

36. mál, efling landbúnaðar

Kristinn Andrésson:

Herra forseti. — Þessi þáltill. á þskj. 53 var flutt á síðasta Alþ., en fékk þá ekki afgreiðslu. Ég tel óþarft að láta fylgja þessari þáltill. mörg orð, því að henni fylgir ýtarleg grg.

Eins og flestum mun orðið ljóst, getur það búskaparlag, sem nú er, ekki átt framtíð fyrir sér, þ.e. þess konar einyrkjabúskapur, sem nú er. Og nýbýlastefna undanfarinna ára leysir ekki heldur vandann. Það þolir því ekki bið og er lífsspursmál fyrir íslenzkan landbúnað, að snúið sé að því að skapa betri lífsskilyrði í sveitum landsins en nú eru.

Þessi þáltill. fer fram á, að Alþ. feli Búnaðarfélagi Íslands alveg sérstakt verkefni, sem er að láta rannsaka, hvar heppilegust eru skilyrði með tilliti til ræktunar, samgangna í sveitum o.frv., og gera áætlun um virkjun vatnsfalla og samgöngukerfi sveitanna. Enn fremur að láta gera tillögur um fyrirmyndarbú og fyrirkomulag þeirra og enn fremur að undirbúa löggjöf fyrir landbúnaðinn á grundvelli þessa undirbúningsstarfs.

Ég tel ekki ástæðu til að fara hér við fyrri umr. um þessa þáltill. fleiri orðum, en vil aðeins óska eftir, að flýtt verði fyrir afgreiðslu hennar.