18.12.1942
Sameinað þing: 11. fundur, 61. löggjafarþing.
Sjá dálk 53 í D-deild Alþingistíðinda. (3428)

36. mál, efling landbúnaðar

Bjarni Ásgeirsson:

Það er í sjálfu sér ekki margt um þessa þáltill. að segja og sízt ástæða til að hafa á móti því, að rannsóknir þessar fari fram, sem þar eru upp taldar. Vil ég þó þegar við þessa umr. geta þess, að ég kann ekki alls kostar við orðalag 1. liðarins, þar sem segir svo, að látin sé fara fram rannsókn á því, sem þar er greint, m.a. „með samfærslu byggðarinnar fyrir augum“. Ég sé ástæðu til þess að minnast á það við þessa umr., að mér finnst, að sumir menn séu búnir að fá það á heilann, að öllum vandamálum landbúnaðarins verði ráðið til farsællegra lykta, eingöngu ef því skipulagi verður á komið, að fólkinu í sveitunum sé þjappað saman á einhverjum ákveðnum blettum á landinu og meginhluti landsbyggðarinnar lagður í auðn. Ég álít slíkt mestu firru. Ég get gengið inn á þá nauðsyn að koma nýrri byggð upp, eftir föstu ákveðnu skipulagi, þegar byggðin í sveitunum verður aukin, og að henni verði komið þannig fyrir, að tilraunir verði gerðar um það að mynda byggðahverfi á Íslandi í sveitum, þar sem bezt hentar. Og ég hygg, að búið sé að leggja grundvöll að því með löggjöf, sem samþ. var hér á Alþ. fyrir 2–3 árum, um landnám ríkisins. Í raun og veru væri ánægjulegt, að þessi þáltill. væri áskorun um, að framkvæmdir væru gerðar í þessu máli. En hitt tel ég hina mestu firru, að bætur verði ráðnar á erfiðleikum landbúnaðarins með því einu að færa byggðina saman á tiltölulega lítil svæði á landinu, en leggja hina landshlutana að mestu í auðn. Það er vitað mál, að sauðfjárbúskapur verður stundaður hér á landi áfram sem ein aðalgrein íslenzks landbúnaðar. Og sauðfjárbúskapur er þannig í eðli sínu, að hann þarfnast mjög mikils landrýmis. Þess vegna er nauðsynlegt, að nokkurs konar verkaskipting sé í landbúnaðinum, þannig að dalir og annes á landinu haldi sinni byggð, eins og hún hefur verið til þessa, á þann hátt, að þar verði rekinn sauðfjárbúskapur, en hins vegar, að framleiðsla annarra matvæla, sem landbúnaðurinn hefur með höndum, fari aðallega fram í þéttari byggðinni. Þess vegna tel ég réttara, að þetta yrði orðað á þann hátt að hafa það fyrir augum að þétta byggðina, í staðinn fyrir, að hér er talað um samfærslu byggðarinnar, því að ég er sannfærður um, að sauðfjárbúskapur verður bezt rekinn einmitt í strjálbýlinu, til dala og á annesjum, þar sem hann er nú. Og eigi að halda honum uppi, sem ég tel sjálfsagt, verður hann að byggjast á starfsemi strjálbyggðarinnar að ýmsu leyti. Hitt er annað mál, að það geta verið til einstök býli til dala og annesja, sem ekki er hentugt að halda uppi byggð á. Og stefnan hefur verið sú undanfarin ár, að það hefur komið af sjálfu sér, að þau býli, sem hafa verið afskekkt og erfitt um samgöngur við, hafa lagzt niður. Ég í jarðræktarl. er gert ráð fyrir, að búnaðarmálastjóri hafi hönd í bagga um það, hvernig slík breyting fer fram í landinu. T.d. eiga ráðunautar eða eftirlitsmenn með jarðræktarl. að ákveða, að ef þeir sjá býli, sem af þeim ástæðum, sem ég hef talið, og öðrum, á ekki framtíð fyrir sér, á ekki að greiða jarðræktarstyrk til þess býlis, heldur á að veita ábúanda þess sérstaka aðstöðu til þess að koma sér upp nýbýli á öðrum stað. Þetta tel ég ákaflega eðlilega þróun, að eftir því sem skilyrðin, bæði staðhættir og atvinnuhættir, breytast, komi það af sjálfu sér, að afskekktari býli verði lögð niður, án þess að hafizt sé handa um að sópa strjálbýli landsins og demba fólkinu þaðan á þéttbýlli staði, þó að sæmileg afkomuskilyrði séu í strjálbýlinu. Ég hygg, að landbúnaðinum væri enginn greiði gerður með slíkum aðförum.

Skal ég ekki fara lengra út í þetta mál á þessu stigi. En ég vildi aðeins minnast ofurlítið á þessa stefnu, sem mikið er haldið fram af ýmsum mönnum og mér virðist koma mjög greinilega fram í 1. lið þessarar þáltill. Ég tel þessa stefnu varhugaverða, en hef ekki annað en gott að segja um margt af því, sem þáltill. felur í sér, og tel sjálfsagt, að hún verði tekin til athugunar.