09.02.1943
Sameinað þing: 23. fundur, 61. löggjafarþing.
Sjá dálk 55 í D-deild Alþingistíðinda. (3431)

36. mál, efling landbúnaðar

Frsm. (Páll Zóphóníasson):

Herra forseti. — Allshn. hefur orðið sammála, eftir að hafa rætt þessa till. á nokkrum fundum, um að leggja til, að hún verði samþ. með lítilfjörlegum breyt., sem getið er í nál. á þskj. 335. Í þessari till. er farið fram á, að athugaðir verði nánar möguleikar á eflingu landbúnaðarins. Nokkrar brtt. hefur allshn. gert við till. Sú fyrsta er um það, að ekki sé haft eins ákveðið orðalag og þar er gert og túlka má á þann hátt, að byggðina í landinu beri að færa saman. Það hafa verið skiptar skoðanir um það, hvort tveggja ætti í eyði viss býli á landinu og færa fólkið saman á þeim svæðum, sem afkomumöguleikar virðast betri. Engin afstaða var tekin í n. um það mál, og lét hún það liggja milli hluta. En nauðsynlegt er, að athugun fari fram á því, hvar beztir möguleikar eru fyrir hendi og hvar eru bezt skilyrði til myndunar þorpa. Það má enginn undrast, þó að gera verði breytingar á því sviði. Bæir í sveitum hafa ekki verið byggðir eins og bezt hefði verið til samræmis við það, sem koma skal. Má líka í því sambandi nefna göturnar hér í Rvík, sem þó eru síðar lagðar, en fæstar svo, að ekki sé þegar búið að breyta þeim sumum, og að öðrum þurfi að breyta í meira eða minna nálægri framtíð. Bæir úti um sveitir landsins standa hvorki í neinni röð né hverfum, og hefur tilviljun ein ráðið, hvar þeir voru byggðir. Ég hef farið um margar sveitir landsins og er því allvel kunnugur viða. T.d. vil ég nefna Fljótshlíðina. Þar er ein bæjaröð, eða öllu heldur engin regluleg bæjaröð, því að bæirnir standa svo óreglulega. Vegur liggur eftir sveitinni og afleggjarar af honum heim á bæina. Heppilegra hefði það verið fyrir framtíðina, ef bæirnir þarna hefðu staðið í röð meðfram veginum. Þá hefði nægt einn vegur og ein símalina yfir sveitina. Nauðsynlegt er að hafa eftirlit með því, að byggðin rísi ekki upp án skipulags, er þéttbýli eykst.

Þá er lagt til, að fyrirmyndarbúin hafi ekki með höndum útvegun véla, til þess eru nú komnir aðrir aðilar, og þótt búnaðarfélagið færi um skeið með það verkefni að panta verkfæri fyrir bændur, er sá tími liðinn og á ekki að koma aftur.

Síðasta till. er orðalagsbreyt.

Legg ég til, að till. verði samþ., og vona, að búnaðarfélagið láti vinna að þessari rannsókn á þann hátt, að sem mest gagn verði að þessu í framtíðinni.