08.01.1943
Sameinað þing: 14. fundur, 61. löggjafarþing.
Sjá dálk 67 í D-deild Alþingistíðinda. (3446)

38. mál, verkleg framkvæmd efitr styrjöldina og skipulag stóratvinnurekstrar

Flm. (Eysteinn Jónsson):

Ég skal ekki hafa þetta langt mál, enda er mér það mest áhugamál, að till. komist til n. Ég vil þó segja örfá orð út af því, sem fram hefur komið í þeim ræðum, sem haldnar hafa verið. Ég þakka hv. 4. þm. Reykv. fyrir undirtektir hans í málinu og sé ekki ástæðu til að fara fleiri orðum um það, sem hann sagði, að þessu sinni. Hv. þm. Barð. hins vegar tók till. ekki eins vel, þótt ég skildi hann þannig, að það væri vafamál, að hann væri á móti því, að n. væri skipuð. Ég held, að þessi hv. þm. misskilji tilganginn með till. að verulegu leyti. Það, sem vakir fyrir flm. till., er, að rannsökuð séu grundvallaratriðin fyrir auknum atvinnurekstri í framtíðinni, bæði um verkefni og fyrirkomulag. Það er alls ekki meiningin, að n. geti rannsakað teknísk og sérfræðileg atriði eða tekið til afar ýtarlegrar meðferðar hvert einstakt verkefni. Aðalhlutverkið, sem n. mun hafa, er að gera till. um, hvernig skuli ganga að þeim mörgu hlutverkum, sem bíða munu okkar eftir styrjöldina, hvað sitji í fyrirrúmi og að hvaða verkefnum skuli beina þeirri vinnuorku, sem kynni að verða til ráðstöfunar, og því fjármagni, sem hægt væri að draga saman til þess að vera undirstaða slíkra framkvæmda.

Nefndin mun að sjálfsögðu fá til afnota þær upplýsingar og það álit, sem þeir aðilar, er þm. taldi upp sem einhlíta til að sinna hinum einstöku verkefnum, hefðu yfir að ráða. Hún mundi kappkosta að fá heildaryfirlit yfir verkefnin, og þess vegna er það, að ég tel nauðsynlegt að skipa eina nefnd í málinu. Á sama hátt mundi n. hafa nána samvinnu við forstöðumenn ýmissa starfsgreina ríkisins og einnig nota upplýsingar ýmissa nefnda, sem hafa þrengra starfssvið, eins og sjútvn., ef hún verður skipuð, og raforkunefnd. Við þetta mundi hún styðjast og skapa sér á þann hátt heildaryfirsýn í málinu.

Eins og hv. 4. þm. Reykv. benti réttilega á, þykir svo mikið um vert þetta hlutverk í öðrum löndum, hlutverk, sem mþn. er ætlað hér, að sérstakar stjórnardeildir eru settar á stofn til þess að fara með það. Þeim er ætlað að draga saman frá stofnunum og forstöðumönnum ýmissa starfsgreina allar teknískar og sérfræðilegar upplýsingar, sem nauðsynlegar eru til þess að átta sig á viðkomandi málum.

Það er áberandi í fari okkar Íslendinga, eins og eðlilegt er, hve langt við erum á eftir öðrum þjóðum um öll vinnubrögð af þessari tegund. Okkur hættir til þess að einskorða okkur við þau mál, sem kalla á afgreiðslu þann daginn eða þá vikuna, en gleyma að horfa fram í tímann nægilega langt til undirbúnings undir framtíðina. Þetta er galli á vinnubrögðum Alþ. og alls staðar, hvar sem litið er, og ekki er vafi á því, að sú þröngsýnislega gagnrýni, sem haldið hefur verið uppi undanfarna áratugi um nefndarvinnu og undirbúningsvinnu og það að sjá eftir hverjum eyri til slíkrar starfsemi, hefur átt verulegan þátt í því, að við höfum ekki rifið okkur upp úr þessum vandræðavinnubrögðum né verið djarfir í því að ætla nægilega starfskrafta til undirbúningsframkvæmda.

Nú hefur það komið ákaflega greinilega í ljós, að í öllum hinum pólitísku herbúðum er vilji á því að láta vinna slík verk, eins og bezt sést á blöðum allra flokka. En þá er að koma sér saman um framkvæmdaformið. Ég held, að það sé mþn., sem reynir að haga störfum sínum eins og líklegt er, að vaki fyrir flokkunum. Ég vil í þessu sambandi alveg sérstaklega benda á þau ummæli í grg., sem sé, að nm. megi ekki vera allt of önnum kafnir við önnur verk, og einnig ættu þeir að hafa þá sérfræðilegu aðstoð, sem nauðsyn krefur.

Hv. þm. Barð. ætti að athuga ýmislegt, áður en hann tekur afstöðu til þessa máls, m.a. grennslast eftir því, við hvað flm. ættu með stóratvinnurekstri, — mér skilst, hvort átt sé við verzlunarfyrirtæki eða rekstur annarra fyrirtækja. Er þar skemmst af að segja, að fyrir flm. vakir, að mest þörf sé á eftirliti með rekstri stóratvinnufyrirtækja.

Af því að flm. gera grein fyrir þessu í grg., sé ég ekki ástæðu til þess að endurtaka það hér. Hv. þm. Barð. fannst ekki viðeigandi, að við létum í ljós í till., að við hefðum mesta trú á því, að friður skapaðist um atvinnurekstur og næði bezt tilgangi sínum í framtíðinni, ef hann væri byggður á samvinnugrundvelli, og viðhafði hann í því sambandi hallmæli um samvinnarekstur yfirleitt. Hv. þm. veit vel, að því fer alls fjarri, að nokkuð hafi verið reynt til hlýtar með samvinnurekstur í útgerð hér á landi. Þau félög, sem stofnuð hafa verið, voru ekki samvinnufélög að skipulagi. Að öðru leyti voru þau stofnuð, þegar útgerð gekk afar illa og atvinnureksturinn varð ekki rekinn nema með tapi, nema sér stök höpp kæmu til. Þannig hefur engin reynsla fengizt á samvinnuútgerð. Hins vegar er fengin reynsla á samvinnuverzlun og hefur orðið bændum til ómetanlegs stuðnings. Þótt mér virtist hv. þm. Barð. viðhafa brigzlyrði um þá grein samvinnu, mun hún hafa lyft alþýðu þessa lands, ekki sízt bændastéttinni, meira en annað úr sárustu fátækt til sæmilegra bjargálna. Allir, sem reynslu hafa í þessum efnum og vilja vera sanngjarnir, munu geta skrifað undir þessi ummæli.

Annars er það mikið vandamál, einnig frá sjónarmiði samvinnumanna, hvernig koma eigi þessum útgerðarmálum í framkvæmd, sérstaklega í sambandi við stóratvinnureksturinn, ekki sízt vegna þess, hve breytilegt starfslið fyrirtækjanna er. Mér þætti ekki ólíklegt, að hafa yrði lágmarksgreiðslu, áður en séð yrði, hver afkoman yrði, og greiða síðan uppbætur, eftir að endanleg niðurstaða er fengin og séð hefur verið fyrir tryggingarsjóðum fyrirtækjanna. Það er ekki tímabært að fara út í einstök atriði á þessu stigi málsins, en ég nefndi þetta af því, að hv. þm. var að tala um samvinnu. Hv. þm. Barð. kvað það vera undarlegt, að flm. vildu láta n. athuga, hvernig verja skyldi framkvæmdasjóðnum, vegna þess, að búið væri að lofa meira fé en í honum væri. Ég held, að þetta sé ekki rétt, og kann að vera, að það upplýsist á sínum tíma. Enn fremur er ástæða til að benda á, að í grg. er einnig gert ráð fyrir, að n. geri till. um fjáröflun og fjárhagsgrundvöll. Kvað þm. helzt hægt að ímynda sér af ummælum núv. fjmrh., að ekkert fjármagn yrði til, af því að búið yrði að taka það allt af mönnum. Ég veit ekki, hvað hann hefur fyrir sér, en hann ræddi nokkuð um skatta. En heldur þykir mér álit þm. á þessum flokksbróður sínum vera farið að breytast, þar sem hann hefur þessa skoðun á honum að óreyndu.