09.02.1943
Sameinað þing: 23. fundur, 61. löggjafarþing.
Sjá dálk 71 í D-deild Alþingistíðinda. (3454)

38. mál, verkleg framkvæmd efitr styrjöldina og skipulag stóratvinnurekstrar

Gísli Guðmundsson:

Ég held, að hv. þm. Barð. hefði getað sparað sér það ómak að mótmæla orðum mínum, því að ég sagði ekki, að hann og meðflm. hans vildu ekki, að stór fyrirtæki væru rekin með almenningshag fyrir augum, heldur sagði ég aðeins, að þeir legðu til, að þetta orðalag í till. félli niður. Ég vil aftur á móti, að þetta orðalag haldist, en að öðru leyti dróttaði ég engu að hv. flm. brtt. á þskj. 353.

Mér kom spánskt fyrir, að hv. þm. Barð. teldi það flokkslit á till., þótt þar stæði, að fyrirtæki skyldu rekin með almenningshag fyrir augum, en þannig var helzt að heyra á ræðu þessa hv. þm. En að mínum dómi er það ekki flokkslitur, því að sá flokkur mun ekki til hér, sem eigi vill slíkan rekstur.