03.03.1943
Neðri deild: 70. fundur, 61. löggjafarþing.
Sjá dálk 76 í D-deild Alþingistíðinda. (3461)

137. mál, verðuppbætur á útfluttar landbúnaðarvörur og afkoma iðnfyrirtækja

Skúli Guðmundsson:

Ég ætla ekki að mæla á móti þessari þáltill., því að ekkert er á móti rannsókn í þessum efnum. En það var aðeins út af atriðum í ræðu hv. frsm., að ég kvaddi mér hljóðs. Hann hélt því fram, að yfirleitt hefði verið illa búið að iðnaðinum hér á landi, a.m.k. af Alþ. Ég er nú ekki á því, að svo hafi verið. Á það hefur þegar verið bent af öðrum. Það er svo um tollalög okkar, að tollar eru á fullunnum iðnaðarvörum, sem fluttar eru inn, til verndar hinum íslenzka iðnaði.

Einnig má benda á það, að um margra ára skeið giltu hér innflutningshöft. Og þó að þau væru sett vegna gjaldeyrisskorts, þá hefur framkvæmd þeirra orðið til eflingar iðnaðinum í landinu, enda hafa iðnfyrirtæki risið hér mörg upp.

Út af verði á ull, þá er mér kunnugt um, að mikið vantar á, að ullarverksmiðjurnar geti fullnægt eftirspurn, og bendir þetta ekki á, að þær eigi erfitt um rekstur.

Ég vil þá einnig í sambandi við þetta benda á, að ég hef ekki getað fundið annað en iðnfyrirtæki settu verð á vörur sínar til að standast tilkostnað, og ætla ég, að a.m.k. sumir iðnaðarmenn hafi skammtað sér allríflega. Ef nokkurn tíma er hægt að tala um okur, þá er það hjá sumum iðnfyrirtækjum nú á dögum. T.d. má nefna smiðjur ýmsar og viðgerðarverkstæði. Álít ég fulla þörf á að koma þessum málum í betra horf. Ég á hér vitanlega ekki við alla iðnaðarmenn, en of mikið er um þetta. Það er rétt, að það á að styðja þessa atvinnugrein eins og aðrar. En á móti getur þjóðin krafizt þess, að verði íslenzkra iðnaðarvara sé stillt í hóf og vinna þeirra vönduð eins og hægt er, og framkoma stéttarinnar sé þannig, að hún sé verð stuðnings og viðskipta.