07.01.1943
Efri deild: 26. fundur, 61. löggjafarþing.
Sjá dálk 508 í C-deild Alþingistíðinda. (3479)

88. mál, útflutningsgjald

Haraldur Guðmundsson:

Ég tók svo eftir hjá hv. flm., að hann upplýsti, að útflutningsgjald það, sem tekið væri nú, væri tekið eftir l. um útflutningsgjald, sem framkvæmd hafa verið undanfarið með 10% viðauka, og það yrði reiknað á þann hátt, ef frv. yrði samþ., en til þessa tíma hefði það verið tekið eftir l. um útflutningsgjald frá 1935.

Ég minnist þess, að fyrrv. hæstv. forsrh. skýrði frá því á þ. í sumar, að farið væri að innheimta útflutningsgjaldið með 10% álagi samkvæmt ákvæðum dýrtíðarl., og þá skýrði hann þ. svo frá, að hjá togurum, sem flyttu út eiginn afla, væri verðið fundið á þann hátt, að miðað væri við söluverð í Englandi að frádregnum sölukostnaði og hæfilegum flutningskostnaði, og flutningskostnaðurinn væri áætlaður eftir mati, að ég ætla fjármálaráðuneytisins, á þann hátt að áætla tiltekinn dagafjölda, sem togararnir væru að flytja út og reikna kostnaðinn eftir því. Ég hygg þetta einu réttu aðferðina, og ég get ekki séð, að neitt geti borið á milli þarna annað en það, hvernig meta skuli flutningskostnaðinn, þegar um þessi skip er að ræða. Ég sé ekki, hvaða vit getur verið í því, þegar smábátar eru bundnir við ákveðið söluverð á fiski við útreikning útflutningsgjaldsins, að láta afla togara, sem seldur er kannske við fimmföldu verði miðað við það, sem smábátarnir fá fyrir sinn fisk, sleppa undan því, að greitt sé sama útflutningsgjald af verði fyrir hann að frádregnum sölukostnaði og kostnaði við flutning á fiskinum. Og ég man ekki betur en fyrir lægi yfirlýsing frá fyrrv. hæstv. forsrh. (ÓTh) um það, að þessari aðferð ætti að beita, þegar um slíka togara væri að ræða, og engin andmæli kæmu fram á þinginu um slíkan útreikning á útflutningsgjaldinu. Ég hygg því, að ekkert tilefni sé fyrir hendi til þess að gera þá breyt. á l., sem hér í frv. er gert ráð fyrir, að gerð verði um útflutningsgjaldið. Sumar vörur eru seldar fyrir fobverð af eigendum varanna hér heima, og þá er eðlilegast að miða við það verð. Aðrar vörur eru seldar af okkur á markaði erlendis, og þegar búið er að draga kostnað við flutning og sölu frá því, sem fyrir þær fæst ytra, svarar það til fob-verðs.

Mér þætti gott, ef hv. flm. upplýsti, hvort nokkur breyt. hafi orðið á 10% gjaldinu frá þeim tíma, þegar fyrrverandi hæstv. ráðh. gaf upplýsingar sinar, sem ég gat um.