07.01.1943
Efri deild: 26. fundur, 61. löggjafarþing.
Sjá dálk 509 í C-deild Alþingistíðinda. (3480)

88. mál, útflutningsgjald

Flm. Gísli Jónsson:

Í tilefni af ræðu hv. 3. landsk. þm. vil ég upplýsa það, að fyrrv. ríkisstj. hefur gefið fyrirskipun um að innheimta útflutningsgjaldið, eins og hann taldi rétt vera, en því hefur verið mótmælt. með tilvísun til 3. gr. l. frá 1935, sem getið er í frv. En í þessari gr. stendur, að reikna skuli útflutningsgjaldið eftir fob-verði vörunnar eða eftir söluverði hennar erlendis að frádregnum kostnaði, sem þar er talinn. Ef togari selur fisk hér á landi eða í annað skip, þá er ákveðið útflutningsgjaldið af farminum miðað við söluverðið, eins og vera ber. En allt annað verður uppi á teningnum, þegar togarar sigla með afla sinn til útlanda og selja hann þar sjálfir. Þá er útflutningsgjaldið reiknað ekki aðeins af aflanum, heldur er einnig verið að leggja sérstakan skatt á flutningsgjaldið. Því að það er ekki annað en flutningsgjald skipsins, mismunurinn á því verði, sem fiskurinn er seldur fyrir hér og því verði, sem hann er seldur fyrir úti að frádregnum ágóða, sem verður á sölunni. Og það hefur aldrei verið meiningin að leggja útflutningsgjald á flutningskostnaðinn. En það er í sjálfu sér ekki nema eðlilegt, að þetta komi fram í l. frá 1935, þegar ekki þekktist þetta útflutningsgjald af fiskinum, sem síðar kom og var annars eðlis. Það breytir því engu um það, þó að þessi breyt. verði samþ. á l. frá 1935, að það hlýtur að verða dómstólamál, hvort greitt skuli útflutningsgjald af söluverði fiskjarins úti eða af útflutningsverði hér heima. (HG: Hefur þetta gjald þá ekki verið innheimt?) Jú, gegn mótmælum, og það stendur í málaferlum milli viðkomandi aðila um þetta atriði, og í því sambandi er aðeins beðið eftir að sjá, hvernig Alþ. litur á l. frá 1935 um útflutningsgjaldið. Og þó að þetta frv. verði samþ., þá breytir það ekki nokkrum hlut um það að fá dóm eftir l. frá 1941 um þetta atriði. Það verður þá að breyta þeim l. aftur til þess að fá stoð í l. til þess að taka 10% gjaldið af söluverði fiskjarins í Englandi. Aftur á móti vil ég benda á það, að það er ekki hægt í hvert skipti að fara upp til ríkisstj. til þess að fá ákvarðaðan frádrátt frá hverri ferð, og ferðirnar eru svo mismunandi, að það getur vel oltið á 30 til 40 og upp í 50 þús. kr. kostnaðurinn í hverri ferð. Það er ýmislegt, sem getur komið þar inn í á slíkum ferðum, og er því ákaflega óheppilegt og óeðlilegt að miða útflutningsgjaldið við það sama og gert hefur verið, þegar um sölu togara á eigin afla hefur verið að ræða, þegar annar möguleiki er fyrir hendi um útreikning útflutningsgjaldsins, sem er eðlilegri, og þegar boðað er með l., sem síðar eru gefin út, að það skuli höfð önnur aðferð á þessum útreikningi heldur en gert var eftir l. frá 1935.

Vænti ég, að þessu máli verði hraðað, því að það þarf að komast að fastri niðurstöðu í þessu máli sem fyrst.