11.01.1943
Efri deild: 28. fundur, 61. löggjafarþing.
Sjá dálk 512 í C-deild Alþingistíðinda. (3489)

98. mál, alþýðutryggingar

Gísli Jónsson:

Ég vil spyrja hv. flm., hvort hann ætlist til, að þessar hækkanir komi niður á sömu aðilum og þau iðgjöld, sem nú eru greidd: að hálfu leyti á atvinnurekendum og að hálfu leyti á ríkissjóði.

Að öðru leyti vil ég benda hv. frsm. á það, að ég held það fyrirkomulag sé nú haft á stríðsslysatryggingunum, að helmingurinn sé greiddur út, en lífeyrir keyptur fyrir hinn helminginn. Þessu hefur verið svo illa fyrir komið, að ekki hefur verið greitt í lífeyri meira en sem svarar 6% af vátryggingarupphæðinni. Ég rakst á þetta, þegar ég var sjálfur að gera upp eitt slíkt tilfelli. Þar voru greiddar 12 þús. kr. til vátryggingarfélagsins, en það hafði hins vegar skuldbundið sig til að greiða 700 kr. til erfingjanna, á meðan þeir lifðu. Ef þessu er yfirleitt svona fyrir komið, er full ástæða til að taka til athugunar, hvort ekki sé rétt að láta ríkið taka þetta að sér, því að ekki er hægt að una við það, að einkafyrirtæki, sem fá þetta fé til umráða, greiði ekki aðstandendum hins tryggða nema 6% af upphæðinni.