26.01.1943
Efri deild: 41. fundur, 61. löggjafarþing.
Sjá dálk 516 í C-deild Alþingistíðinda. (3501)

121. mál, hæstaréttur

Lárus Jóhannesson:

Herra forseti. — Meiningin var, að 1. flm. þessa frv. hefði framsögu í þessu máli, en hann hringdi til mín á síðustu stundu og bað mig að hlaupa í skarðið, þar sem hann gæti ekki komið. Það, sem fyrir okkur vakir, er að gera það, sem í okkar valdi stendur til. þess að styrkja aðstöðu dómsvaldsins, því að það getur ekki verið neinn vafi um það, að það sé nauðsynlegt, að aðstaða þess sé sem sterkust í þjóðfélaginu. Að því er tekur til réttarins, þá er hér lagt til, að fjölgað verði úr 3 upp í 5, og virðist okkur það trygging, sérstaklega að því er snertir afstöðu hæstaréttar til útlanda. Viðvíkjandi launakjörunum þá er farið fram á hækkun á þeim. Við álítum,. að þessar stöður séu svo vandamiklar, að það megi ekki vera peningaspursmál, að beztu menn geti valizt í þessar stöður. Okkur er kunnugt um það, að þeir menn, sem eru í þessum stöðum, komast tæplega af án þess að fá sér aukavinnu, en þetta þyrfti að vera þannig, að þetta væru algerlega sjálfstæðar stöður, enda eru þessir menn oftast útilokaðir frá því að skapa sér aukavinnu. Viðvíkjandi skattfrelsinu viljum við taka það fram, að við leggjum áherzlu á það, að hér skapast ekkert fordæmi um skattfrelsi öðrum til handa, því að hvort tveggja er, að hæstaréttardómendur eru æðstu handhafar eins þáttar ríkisvaldsins og staða þeirra að því leyti sambærileg stöðu ríkisstjóra, og svo hitt, að þeim einum allra þjóðfélagsþegna er varnað frelsis á sviði stjórnmála og atvinnumála. Annars er gerð nánari grein fyrir þessu í grg. frv., og sé ég því ekki ástæðu til þess að fjölyrða frekar um málið. Ég vil leyfa mér að leggja til, að frv. verði vísað til 2. umr. og allshn.