26.01.1943
Efri deild: 41. fundur, 61. löggjafarþing.
Sjá dálk 517 í C-deild Alþingistíðinda. (3503)

121. mál, hæstaréttur

Hermann Jónasson:

Það er um þetta frv. að segja, að það er í sjálfu sér réttlátt að hækka laun dómaranna eins og gert er ráð fyrir í frv. og það væri þess vegna æskilegt að gera það. En það, sem við verðum fyrst og fremst að hugsa um, er það, hverju við höfum efni á, og sannast að segja held ég, að það, sem okkur ríði mest á nú, sé það að koma atvinnumálum okkar í það horf og vinna að því, að þau geti staðið undir þeirri greiðsluþörf, sem er hjá íslenzka ríkinu. En eins og nú standa sakir eru litlar líkur til þess, að við getum staðið undir þessari þörf nema því aðeins, að við breytum um stefnu frá því, sem nú er.

Ég álít, að við verðum fyrst og fremst að hugsa um þessi mál út frá því sjónarmiði, hverju við höfum efni á, en ekki, hvað væri æskilegt að gera eða ákjósanlegt að geta greitt embættismönnum. Þetta gildir á öllum sviðum þjóðfélagsins og jafnt um hæstarétt eins og um ýmislegt annað. Ég held þess vegna, að sú breyt., sem frv. gerir ráð fyrir, eigi að bíða eitthvað fyrst um sinn. En þar með er ekki sagt, að það sé ekki réttlátt, að laun dómaranna hækki, en við vitum það mæta vel, að allt réttaröryggi í landinu byggist framar öðru á því, að dómurinn sé vel skipaður. Og ef við förum að hreyfa við þessum málum, þá má líka minnast þess, að það ríður ekki lítið á því, að sýslumanna- og bæjarfógetaembættin séu einnig skipuð góðum mönnum. Því að þótt störf hæstaréttar séu þýðingarmikil út á við, þá er aldrei nægilega um það hugsað, hvað það er mikið af málum, sem aldrei koma fyrir hæstarétt. Í fljótu bragði má svo virðast sem þetta sé ekki rökfræðilega rétt, vegna þess að hægt sé að vísa málunum áfram. En þannig er þetta nú í framkvæmdinni. Og þegar við athugum það, hvað þessir embættismenn eru illa launaðir (þ.e. sýslumenn og bæjarfógetar), að þeir eru svo illa launaðir, að það er mjög hæpið, að menn fáist til þess að sækja um þessi embætti., nema því aðeins, að þeir hafi sérstaka ánægju af að vinna við störf af þessu tagi. Þegar við hugsum um, hve við erum raunverulega búnir að koma þessum embættum langt niður með aðbúnaðinum að sýslumönnum og öðrum embættismönnum, er það að mínu áliti alveg tvímælalaust, að við getur tæplega tekið hæstarétt einan út úr án þess að athuga aðbúnað að sýslumönnum og bæjarfógetum og raunverulega aðbúnað að öllum embættismönnum okkar, því að þótt dómarar í hæstarétti séu illa launaðir, hefur það atvikazt þannig, þó að það sé ekki nema að litlu leyti ríkinu að þakka, að þeir eru svo settir, að málið er ekki mjög aðkallandi, og að því leyti nú segja, að breyt. sé meira aðkallandi um aðra embættismenn, þar á meðal sýslumenn og bæjarfógeta. Þess vegna álít ég, að raunverulega ættum við að láta þetta mál bíða.