26.01.1943
Efri deild: 41. fundur, 61. löggjafarþing.
Sjá dálk 524 í C-deild Alþingistíðinda. (3508)

121. mál, hæstaréttur

Hermann Jónasson:

Þessar umr. fara nú að verða nokkuð langdregnar, og mun ég því reyna að vera eins fáorður og kostur er. — Ég mæli ekki í móti því, að þörf sé að bæta launakjör dómara við hæstarétt sem og ýmissa annarra embættismanna hér á landi.

Það er rangt, að ég vilji vinna það verk, sem þótti vinsælt hér í eina tíð, að halda því fram, að ekki mætti bæta launakjör íslenzkra embættismanna. Það er langt frá því, heldur hef ég bent á, að það er stór flokkur íslenzkra embættismanna, sem er illa launaður, en ég gat þess jafnframt, að við verðum að hafa hliðsjón af því, hvað við getum greitt, auk þess sem taka verður tillit til þess, hvað menn þurfa til að geta lifað af því. Ég minntist á bæjarfógeta og sýslumenn, það hefur verið minnzt á, að þeir hefðu sumir háar tekjur. Það mun vera, eða öllu heldur hafa verið sagt um þá, sem hafa gegnt embættum í kaupstöðum, þar sem eru miklar siglingar, en allur þorri þessara stétta manna er illa launaður.

Ég held, að fram hafi komið þau rök hjá hv. 1. þm. Reykv., að svo nauðsynlegt, sem það væri, að launakjör dómara væru bætt, því væri ekki hægt að taka þetta mál fyrir eins og það er hér upp tekið. Það er eðlilegt, að hæstaréttarmálaflutningsmenn finni til þess, hvað dómarar eru illa launaðir, en þeir geta varla búizt við, að það mál verði afgreitt út af fyrir sig, allra sízt nú á þessum tíma, þegar talið er vafasamt, að ríkið geti greitt áfram þá 20% uppbót, sem greidd hefur verið á laun ýmissa embættismanna, þó að margir þessara manna séu mjög illa launaðir. Nú er okkur sagt, að fjárhagur ríkis okkar sé þannig, að allar líkur séu til, að afnema verði þessa 20% uppbót. Það hefur lengi gengið svo með laun og hlunnindi í þessu landi. Þau hafa verið veitt og afnumin til skiptis, eftir því hvernig hefur árað. Við höfðum fimm menn í hæstarétti, en svo kreppti að, og nú eru þeir 3. Launin voru hækkuð á góðum tíma, en svo kom kreppan, og þá voru þau aftur lækkuð. Ég er ekki að segja, að þetta sé eftirbreytnisvert, en svo hefur hagað til á hverjum tíma, að við höfum þurft að sníða okkur stakk eftir vexti. Svo vill til, að dómarar hafa ekki verið illa settir með að afla sér aukatekna. Þeir hafa gegnt ýmsum aukastörfum án þess að brjóta landsl. T.d. hafa þeir unnið mikið að matsgerðinni, og þeir hafa undanfarið haft mjög góðar aukatekjur. Við höfum verið minnt á það, að laun ráðherra, prófessora við háskólann, sýslumanna og ýmissa annarra embættismanna væru ekki fullnægjandi. Þetta allt þarf að taka upp í heild. Það þarf að gera ný launal., þar sem tekin er til grundvallar tekjuþörf embættismanna og greiðslugeta ríkissjóðs. Og ég er ekki á móti, heldur með því, að hæstaréttardómarar verði settir þar í háan flokk.

Það hefur verið bent á, að laun ráðherranna séu of lág, sérstaklega þegar tekið er tillit til þess, að þeir geta ekki, mótsett við dómarana, gegnt neinum störfum út á við, auk þess sem störf þeirra eru útgjaldafrekari en störf dómara í hæstarétti, því að það fylgja starfa ráðherranna ýmis útgjöld, sem menn verða varir við, þegar menn koma í störfin, útgjöld, sem ég hef í huga, en óviðeigandi er að vera að telja hér upp. Ég segi fyrir mitt leyti, að ég mundi hiklaust fylgja því, að laun ráðherra yrðu hækkuð. Ég hef aldrei í mínu starfi þrætt þá vinsælu götu að halda því fram, að embættismenn væru of vel launaðir, hvorki gagnvart kjósendum mínum né öðrum. Ég sagði einu sinni frá því, hvaða tapi ég hefði orðið fyrir við að gegna ráðherrastörfum, og það þarf meiri dirfsku til að segja það sjálfur en að mæla með því, að laun annarra séu hækkuð, því að menn leggja á það misjafnan trúnað, er menn segja um sinn eigin hag. En ég tapaði á því stórfé að vera í þessu starfi. Þar fylgir líka sú regla, að þeir, sem taka við ráðherrastöðu, afsala sér þeim embættum, sem þeir hafa haft, án þess að fá nokkur eftirlaun. En það, sem veitir hæstaréttardómurunum alveg sérstaka aðstöðu meðal embættismanna ríkisins nú þegar og gerir það að verkum, að þau embætti eru eftirsótt, er það, að þeir geta sagt af sér, þegar þeir eru 65 ára, og verið þó á fullum launum, það sem eftir er ævinnar. Það er undantekning í embættislífi okkar, að ég hygg. Það er flestum öðrum áhyggjuefni, hvað eftirlaun eru lág og hvað þeir eru illa tryggðir í elli. Þetta er það, sem gerir það að verkum, að starfið er svona eftirsótt, þessi sérstaka trygging, jafnvel þó að launin séu ekki hærri. Ég held þess vegna, þó að ég álíti, að hæstaréttardómarar séu alls góðs maklegir, og það kunni að vera reiknað þeim, sem andmælir, að laun þeirra séu hækkuð, til afturhaldssemi eða nirfilsháttar, þá get ég ekki séð, eins og nú á stendur, og sérstaklega, ef þarf að færa niður um þessi 20% launin hjá þeim, sem eru mjög lágt launaðir, að það sé ráðlegt að samþykkja þetta, sérstaklega með tilliti til þess, að svo margir íslenzkir embættismenn eru illa launaðir, og þá líka með tilliti til þess, að ráðh. er ómögulegt að skilja eftir, ef dómaralaun eru hækkuð. Þess vegna væri sérstök ástæða til að taka fyrir laun ráðh., því að nú sem stendur eru þeir langverst launuðu embættismenn landsins.