26.01.1943
Efri deild: 41. fundur, 61. löggjafarþing.
Sjá dálk 526 í C-deild Alþingistíðinda. (3509)

121. mál, hæstaréttur

Magnús Jónsson:

Ég skal ekki hafa mörg orð að þessu sinni. Ég vil aðeins segja fáein orð út af því, sem hv. 6. þm. Reykv. sagði í ræðu sinni, sem ég því miður heyrði ekki alla. En það var sérstaklega það atriði, að með þessu frv. væni gert ósamræmi í laun sambærilegra embættismanna. Ég skal ganga inn á það, að hæstaréttardómarar eiga að vera vel launaðir, og ef til vill hæst launaðir af embættismönnum ríkisins fyrir utan ráðherrana. En mér fannst margt af því, sem dregið var fram af hv. þm., ekki vera ákaflega sterkt að rökum. Það er ekkert í l., sem bannar prófessor í l. að flytja mál, en almennt er litið svo á, að þeir geti það ekki. Ég veit ekki, hvort það er vegna samkomulags eða einhvers annars. En sá lagaprófessor, sem mér er kunnugastur, taldi það alveg ómögulegt. Mér skildist, að það væri helzt sambærilegt við það, að dómprófastur eða biskup færu að gerast götuhreinsarar eða róa á þaraþyrkslingsveiðar til þess að auka tekjur sínar. Ég veit ekkert um það, hvort það er heppilegt, að lagaprófessorar gegni málaflutningsstörfum. En ég veit ekki nema þeir mundu gera það, ef þeir gætu ekki aukið tekjur sinar á annan hátt, t.d. með því að semja frv. og margt annað. En dómarar hafa nú þegar meiri tekjur en nokkrir aðrir. Þeir hafa meiri aukatekjur en nokkrir aðrir, án þess að það skerði möguleika þeirra til að vera góðir dómarar. Þarna er talsvert ólíkt ástatt um embættismenn og aukatekjur. En ég held, að það væri mjög óheppilegt, ef laun væru sniðin ekki eftir sjálfu starfinu, heldur eftir aðstöðu hinna launuðu til að afla sér aukatekna. Hv. flm. sagði, að starf dómara í hæstarétti væri ekki sambærilegt við nokkurt annað embætti. Það minnir mann á það, að hverjum þykir sinn fugl fagur. Ég segi þetta ekki af því, að ég vilji gera lítið úr hæstaréttardómurum. En svo gætu aðrir komið, landlæknir, biskup, vegamálastjóri, vitamálastjóri, verklýðsleiðtogar, forustumenn útvegsins og hinir og þessir og haldið alveg því sama fram um sín störf. Staða hæstaréttardómara er vissulega virðuleg, en ég vil bara segja, að stöður þeirra manna, sem ég nefndi, eru alveg hliðstæðar. Störfin eru öll nauðsynleg, og aðalatriðið er að velja þá færustu í stöðurnar.

Svo vil ég minnast á það, sem hv. þm. Str. sagði og mér var áður ókunnugt um, en það er sú stórkostlega launauppbót, sem hæstaréttardómarar njóta. Því að víssulega er það launauppbót, að þeir skuli vera áfram á fullum launum, þótt þeir láti af embætti 65 ára. Þeir hafa raunverulega miklu hærri laun en sýnilegt er á pappírnum. Aðrir embættismenn verða að lifa á mjög C~fullnægjandi eftirlaunum eða alls engum, kannske 20 ár eftir að þeir verða að láta af störfum. Þetta er stórt atriði og ekki að furða, þótt hægt sé að fá menn í þessa stöðu. Enda er enginn vafi á því, að engum þm. mundi detta í hug, ef sett væru launal., að verja þau hlutföll milli launa hæstaréttardómara og annarra, að landlæknir og biskup fái 6 þús. og 7 þús. kr. laun, en dómarar 16 þús. og 17 þús.

Hvað viðvíkur tölu hæstaréttardómara, þá álít ég, að það sé meiri trygging, að þeir séu 5 en 3, og að 7 veiti meiri tryggingu en 5 og 13 meiri en 7. Þó eru engin rök fyrir því, þótt 2 séu á móti 2 og einn skeri úr, að dómur þeirra sé réttari en ef 1 er á móti 1 og sá 3. sker úr. Alveg sömu rök mundu gilda, þótt talan væri færð upp í sjö.

Það er enginn, sem segir, að dómarar þurfi endilega að vera 5. Það er hreint álitamál. Hv. þm. tók mjög eindregið undir þetta með laun dómaranna, að þau þyrftu að hækka. En þó að það komi þessu máli ekki beinlínis við, þá vil ég segja það hér, að það væri æskilegt að hækka laun ráðherranna. Það er bæði óviðeigandi og skaðlegt, að ráðherrar séu illa launaðir. Um þessa menn má segja, að þeir fari frá hverju sem er, ef þeir eru kallaðir. Ef þeir eru duglegir baráttumenn flokka sinna, þá eru þeir kallaðir til að ganga í þetta fylkingarbrjóst og skorast sjaldan undan. Oft virðast ekki koma beztu mennirnir, af því að þeir beinlínis geta það ekki. Mér finnst ráðherrastörfin þannig, að þeir ættu að hafa svo há laun, að þeir gætu lifað áhyggjulausir um fjárhagslega afkomu sína frá degi til dags. Ég veit ekki, hvort það er viðeigandi, að þeir, sem eru ráðherrar, beiti sér fyrir í þessu máli, en ég vildi beina því til hv. fjhn. að flytja till. um hækkun ráðherralauna. Ég held, að nú sé einmitt tilvalið tækifæri til að taka þetta mál upp.

Eitt til merkis um það, að ráðherrastörf krefjast mikilla útláta, er það, að í Englandi, þegar Mac Donald var forsætisráðherra, voru launin hækkuð um helming. Launin þóttu of lág, þótt þau væru víssulega há á okkar mælikvarða. Það þótti bara sjálfsagt í landi með demókratísku fyrirkomulagi, að ekki þyrfti að velja mann í forsætisráðherraembætti, sem gæti kostað sig að verulegu leyti sjálfur. Og ég tel, að það væri gott, ef þetta kæmi út úr því, að þetta frv. hefur verið lagt hér fram.