03.03.1943
Neðri deild: 70. fundur, 61. löggjafarþing.
Sjá dálk 81 í D-deild Alþingistíðinda. (3514)

137. mál, verðuppbætur á útfluttar landbúnaðarvörur og afkoma iðnfyrirtækja

Sveinbjörn Högnason:

Hv. síðasti ræðumaður tók fram mest af því, sem ég ætlaði að segja, og er ekki ástæða til að bæta þar um.

Það virðist vera eins og hv. þm. Hafnf. (EmJ) þyrfti að reyna að hressa svolítið upp á minnið í þessum efnum, áður en hann fer að skella allri skuldinni á einhverja víssa aðila og kenna þeim einum um verðhækkun í þessu efni.

Það er vitanlegt, að dýrtíðinni hefði aldrei verið hægt að halda í fullum skefjum, þannig að hún hækkaði ekki neitt. Og það er vitanlegt, að ýmsar aukakaupgreiðslur hafa hækkað. Þess vegna er gott fyrir þennan hv. þm. að leggja það á minnið, að þegar hann talar um, hvort hafi hækkað meira kaupgjald eða afurðaverð, þá verður hann að gæta að því, að það er fleira en kaupgjaldið, sem kemur til greina um afurðaverðið, og þess vegna verður að hækka vöruverðið mera en aðeins vegna aukins kostnaðar af hækkun kaupgjaldsins. Hækkun hefur einnig orðið á kolum, benzíni, akstri, áburði og fóðurbæti. Þetta hefur hækkað gífurlega. Og ef bændur eiga að fá prósentvís sömu hækkun og verkamenn, þá verður einnig að taka til greina þessa kostnaðarliði og hækka afurðaverðið í hlutfalli við það. Hvers vegna mega bændur ekki fá sömu hækkun á kaup sitt, sem er verðið fyrir vörur þeirra, eins og verkamenn á kaup sitt? Það eru ekki nettótekjur, sem bændur fá með hækkuðu vöruverði. Það er margvíslegur kostnaður í sambandi við framleiðslu þeirra. Og ef þeir eiga að fá sömu hundraðshlutahækkun nettó, verða þeir líklega að fá tvöfalda hækkun á afurðaverðinu til þess að fá sömu hundraðshlutahækkun á tekjum sínum eins og verkamenn. En í þessu efni reyna „hinir sjálfkjörnu“ þm., sem kalla sig fulltrúa verkamanna, að blekkja menn, bæði í blöðum og á annan hátt, og æði margt fólk í landinu gleypir við því. Hinir „sjálfkjörnu“ fulltrúar verkalýðsins gera það vitandi vits að bera slíkt á borð fyrir fólk ár eftir ár og dag eftir dag, til þess að reyna að koma af stað illindum og rógi milli stétta í þjóðfélaginu. Og flokksblað þessa hv. þm. hefur staðið framarlega í að flytja róg um þetta dag eftir dag og ár eftir ár.

Hv. þm. Hafnf., sem telur sig vera sæmilegan reikningsmann, þó að Alþ. þekki nú suma hans útreikninga, hann ætti að vita það bezt, ef hann leggur það niður fyrir sér, að það eru fleiri atriði heldur en launin ein, sem greidd eru, sem koma til greina sem kostnaður við landbúnaðarframleiðslu. Þar eru fleiri stórir liðir, sem hafa hækkað gífurlega, sem afurðaverðið verður að standa undir, ef bændur eiga að fá tilsvarandi hækkun á við aðra í þjóðfélaginu.