03.03.1943
Neðri deild: 70. fundur, 61. löggjafarþing.
Sjá dálk 84 í D-deild Alþingistíðinda. (3517)

137. mál, verðuppbætur á útfluttar landbúnaðarvörur og afkoma iðnfyrirtækja

Frsm. (Emil Jónsson):

Ég skal ekki deila lengi um þetta mál. Það stendur svo vel á, að fyrir tveimur dögum síðan lét ríkisstj. útbýta hér á Alþ. línuriti yfir verðlag á landbúnaðarafurðum og kaupgjald frá 1939 til 1942. Hver, sem les þetta línurit með nokkurri aðgætni, sem ég geri ráð fyrir, að hv. þm. V.- Húnv. eigi til, sér, að verðhækkun landbúnaðarafurða samkvæmt þessu línuriti er svo miklu meiri heldur en kaupgjaldshækkunin á þessum tíma. (BÁ: Línuritið segir bara ekkert um kjarna málsins.) Það var nýlega birt, að samkvæmt athugunum Búreikningaskrifstofu landbúnaðarins hefðu tekjur meðalbónda orðið árið 1940 7 þús. kr. Ég fullyrði, að hækkun tekna hjá verkamönnum á sama tíma hefur ekki orðið viðlíka eins mikil eins og hækkunin á tekjum bóndans hefur orðið samkvæmt þessum athugunum, sem ég efask ekkert um, að fremur mun í þessum útreikningum vera talin van heldur en of.

Svo er hitt að síðustu, að það voru landbúnaðarafurðirnar, sem slitnar voru úr samhengi, að því er verð þeirra snerti árið 1939, en verkamenn héldu sínu kaupi lítt breyttu, a.m.k. grunnkaupið breyttist ekkert fyrr en 1942. Og það stökk, sem varð á verðbreyt. sjávarafurða 1940, síðasta hluta ársins, var miklu meira heldur en sem kauphækkuninni nam þá, þ.e. eftir vísitölu.

Að kjötið ekki hækkaði haustið 1939, segir vitanlega ekki nokkurn hlut, því að megnið af því hefur verið búið, þegar breyt. á verði landbúnaðarafurða var gerð.