04.03.1943
Neðri deild: 71. fundur, 61. löggjafarþing.
Sjá dálk 84 í D-deild Alþingistíðinda. (3519)

137. mál, verðuppbætur á útfluttar landbúnaðarvörur og afkoma iðnfyrirtækja

Sigurður Guðnason:

Herra forseti. — Það er aðeins smáathugasemd, sem ég ætla að gera við ræðu hv. þm. V.-Húnv. út af því, sem hann sagði, að á venjulegum tímum væri það þannig, að verkalýðsfélögin semdu kauptaxta sína með tilliti til þess, að verkamenn hafi ekki fasta atvinnu allt árið. Þetta var nýtt sjónarmið. Í þau 20 ár,sem ég hef verið í verkalýðsfélögum, hefur það verið þannig, að við höfum aldrei fengið betri samninga heldur en þá samninga, sem miðaðir voru við vinnu allt árið. En hitt er annað mál, að það er ekki sama að semja um kaup og um vinnutíma. En það er firra, að miðað sé við annað í þessum samningum en það, sem meðalfjölskylda þarf til þess að lifa af.