08.03.1943
Sameinað þing: 29. fundur, 61. löggjafarþing.
Sjá dálk 86 í D-deild Alþingistíðinda. (3529)

147. mál, saga Alþingis

Flm. (Haraldur Guðmundsson):

Herra forseti. — Við 4 alþm. flytjum hér till. til þál. á þskj. 496 þess efnis að fela 5 manna n., er ríkisstj. skipar, að láta fullgera sögu Alþ., þá, er fyrirhugað var að gefa út á 1000 ára hátíð þingsins 1930, með svipaðri tilhögun og ráð var þá fyrir gert, ásamt viðauka, er fjalli um tímabilið eftir 1930, enda sé miðað við, að ritið komi út fyrir 1. júlí 1945, þegar liðin eru 100 ár frá endurreisn Alþ., er kom þá fyrst saman til fundar í menntaskólanum í Reykjavík. Okkur flm. þykir hlýða, að þessara tímamóta sé minnzt, m.a. með því að gefa út sögu þingsins allt frá byrjun, eða um rúm 1000 ár.

Við köllum okkur söguþjóð og ræðum margt um þing okkar sem hið elzta löggjafarþing í heimi. Það getur því ekki talizt sæmandi, að við eigum ekki sögu þess frá byrjun. Fyrirhugað var upphaflega, að hún kæmi út fyrir árið 1930, en af því gat þó ekki orðið. Eftir því, sem næst verður komizt, eru nú um 2/3 hlutar verksins fyrir hendi, sérstaklega gefið út, sett, eða í handriti. En við flm. teljum, að fyrir tilsettan tíma megi ljúka verkinu öllu.

Ég hirði ekki um að tala nú um kostnaðarhlið verksins. Bæði er það mál hér nokkuð upplýst og hins vegar er nú allt verðlag á reiki. Þó skal ég aðeins geta þess, að áætlað kostnaðarverð á útgáfunni er talið um 100 þús. kr.

Ég hygg, að ég þurfi svo ekki að fara um þetta fleiri orðum, en vænti þess, að till. verði vísað til síðari umr. að þessari umr. lokinni.